138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

starfsmenn dómstóla.

648. mál
[14:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmála- og mannnréttindaráðherra fyrir svarið. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það skipti máli að sjálfstæði dómstólanna sé virkt en það er hins vegar ekki hægt að réttindi starfsmanna hjá dómstólum séu lakari en réttindi annarra opinberra starfsmanna. Í 3. gr. laga um starfssvið umboðsmanns Alþingis í b-lið stendur að starfssvið umboðsmanns Alþingis taki ekki til starfa dómstóla. Þá er spurning: Hvað þýðir „starfa dómstóla“? Á að líta einkum á að það sé framkvæmd dómsvaldsins, þ.e. uppkvaðning dóma og úrskurða og þá samskipti dómsvaldsins og almennings almennt? Eða þarf að skoða það að þetta sé víðtækara hugtak eða þarf, frú forseti, eins og hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra sagði, breytingartillögu við ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann? Hún þyrfti þá annaðhvort að hljóða með þeim hætti: Starf dómstóla að því er varðar uppkvaðningu dóms og úrskurða, eða eitthvað í þá veru að ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann hljóði svo: Það taki til starfa dómstóla, þetta gildir þó ekki þegar starfsmenn dómstóla telja á sér brotið í starfi.

Einhvern veginn með þessum hætti, frú forseti, þyrfti að breyta b-lið 3. gr. laga um valdsvið umboðsmanns Alþingis og rýmka það eða túlka nánar eða gera nánar grein fyrir hvað það þýddi sem þar stendur „starfa dómstóla“.

Ég bið hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra að velta þessum tilmælum eða tillögum fyrir sér og hvort hún sé sammála að þetta nægi hugsanlega.