138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

ættleiðingar.

638. mál
[14:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina hér fyrirspurn til hæstv. dómsmála- og mannnréttindaráðherra um ættleiðingar.

Þannig er ástand þeirra mála nú að ættleiðingum frá útlöndum til íslenskra foreldra hefur fækkað mjög mikið. Milli áranna 2004 og 2006 fækkaði ættleiðingum um 72% utan frá hingað til Íslands. Það er miklu meiri fækkun en hefur átt sér stað annars staðar á Norðurlöndunum þar sem ég held að þessar tölur séu einhvers staðar undir 10%. Við höfum ekki náð okkur upp úr þessum öldudal. Það hefur verið af ýmsum ástæðum. Við höfum einbeitt okkur mikið að ættleiðingum frá Kína en settar hafa verið skorður þar þannig að það er ekki við íslensk stjórnvöld að sakast.

Það sem vakir fyrir mér með þessari fyrirspurn er að athuga hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir því að fólki verði heimilt að ættleiða á eigin vegum, þó ekki þannig að það sé ekki með velvilja stjórnvalda heldur að hægt sé að nýta undanþáguákvæði í reglugerð og túlka svokallaðan Haag-samning um ættleiðingar með víðari hætti en hefur verið gert hingað til, eins og t.d. er gert og er heimilt í Frakklandi, á Spáni og á Ítalíu sem eru önnur lönd sem hafa undirgengist þennan ákveðna samning, Haag-samninginn, en heimila þetta. Nú vill svo til að þau ættleiðingarfélög sem hér eru starfandi eru t.d. ekki með samning við Rússland. Íslensk pör hafa horft þangað þar sem þar er mikill fjöldi barna sem þarfnast þeirrar ástar og umhyggju sem barnlaust fólk sem leitar að börnum til ættleiðingar getur veitt þeim. Þar eru ekki samningar við íslensk ættleiðingarfélög og því hefur ekki reynst heimilt að ættleiða eða fá samþykki til forathugunar frá ráðuneytinu þrátt fyrir að í 19. gr. reglugerðar ráðuneytisins segi að víkja megi frá ákvæði 18. gr. þar sem þess er krafist að ættleiðingin fari í gegnum félög.

Ég velti fyrir mér hvort ráðherrann hyggist breyta túlkun sinni, breyta nálgun ráðuneytisins í þessu máli vegna þess að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða þar sem tíminn vinnur bara gegn þeim sem hér um ræðir þar sem á hinum endanum eru svo stíf aldursskilyrði. (Forseti hringir.) Þegar þessi mál dragast á langinn, eins og gerst hefur, getur það orðið til þess að fólk brenni inni á tíma.