138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

ættleiðingar.

638. mál
[14:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra boðar, að þetta skuli verða sett í úttekt. Hins vegar kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra hversu lengi sú úttekt eigi að standa yfir. Ég mundi óska þess að hún svaraði því. Að sjálfsögðu skiptir máli að vel verði að verki staðið og ég treysti hæstv. ráðherra fullvel til að ganga úr skugga um að svo verði, en tíminn er líka lykilatriði. Eins og ég sagði í framsögu minni stendur fólk í þessum sporum oft frammi fyrir því að allar leiðir eru lokaðar. Einungis er heimilt að vera á lista í einu landi. Það er kannski bið í þrjú ár. Síðan fá viðkomandi aðilar neitun frá því landi, fara á næsta lista og þá eru þeir orðnir of gamlir og uppfylla ekki lengur aldursskilyrðin þannig að fólk upplifir mikla sálarangist. Ef við getum með einhverjum hætti orðið til þess að liðka fyrir þessu, einmitt með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi, það er enginn að tala um að víkja frá reglum Haag-samningsins heldur er einungis verið að fara fram á að það sé skoðað hvort okkar túlkun sé ekki strangari en almennt gerist og allrar sanngirni sé gætt því að það eru dæmi um það. Þess vegna skiptir jafnræðisspursmálið svo miklu máli. Það eru dæmi um að fólk hafi farið utan og fengið leyfi til þess að ættleiða börn á eigin vegum miðað við sérstakar aðstæður. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að flýta þessari úttekt og heiti henni því að ég mun halda áfram að spyrjast fyrir um hvernig því verki miðar. (Forseti hringir.)