138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

655. mál
[14:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem nú gegnir því embætti, um viðkvæmt mál, en það snýr að veikindum barna og ungmenna. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef eru bótagreiðslur ekki skiptar heldur fara þær á lögheimili viðkomandi barns. Barn getur aðeins átt lögheimili á einum stað en forræði getur hins vegar verið skipt. Það er nú alla jafna talið mjög jákvætt þegar samkomulag milli foreldra er gott þótt þeir hafi skilið að skiptum. Börnin fá þá tækifæri til þess að vera í góðum samskiptum við báða foreldra og eiga í raun heimili hjá báðum.

Eins og staðan er núna þá renna bótagreiðslurnar til foreldris sem barnið hefur lögheimili hjá. Það hefur ekkert að gera með aðrar aðstæður viðkomandi foreldris, t.d. ef barnið er með lögheimili hjá foreldri með hærri tekjur fær það samt sem áður bótagreiðslurnar.

Ég átta mig á því, virðulegi forseti, að hér er örugglega ekki um einfalt mál að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða það og fá niðurstöðu.

Þess vegna eru þessar tvær spurningar tilkomnar, virðulegi forseti:

1. Hver er ástæða þess að foreldrar með sameiginlegt forræði fá ekki báðir umönnunarbætur og bætur vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna?

2. Stendur til að breyta þessu? Ef svo er, hvenær má vænta slíkra breytinga? Ef ekki, hverju sætir það?

Virðulegi forseti. Þetta er gott tækifæri til að hæstv. ráðherra fari yfir fyrirætlanir sínar í málinu. Ég ítreka að þessi mál og önnur sambærileg eru mjög mikilvæg fyrir þá sem þurfa á þessu að halda en að sama skapi viðkvæm. Ég veit að við getum alveg rætt þau málefnalega í þessum sal.