138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

655. mál
[14:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnalegt og gott svar og sömuleiðis hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir sitt innlegg. Ég skil það svo hjá hæstv. ráðherra að í þessu stutta svari hafi hann farið yfir það að málin sem ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson tæptum hér á séu í endurskoðun. Kerfið byggðist upp í allt öðru umhverfi en því sem við erum í núna, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vísaði til. Það þarf í það minnsta að skoða þetta með lögheimilið eða uppbygginguna í því að við sjáum sem betur fer meira af sameiginlegu forræði heldur en áður. Við þurfum sérstaklega að skoða hvort þessi lögheimilisskilgreining þvælist eitthvað fyrir þeirri góðu jákvæðu hugsun sem ég held að við séum öll sammála um, að ef fólk ákveður að skilja sé mikilvægt að börnin séu í eins miklum samskiptum við báða foreldra og mögulegt er. Ef foreldrar ákveða sameiginlegt forræði verður að taka mið af því í uppbyggingu kerfis sem við höfum um barnafjölskyldur.

Þetta á auðvitað sérstaklega við í þessu tilfelli þegar um er að ræða langveik og alvarlega fötluð börn. Eðlilega hefur það spilað mikið inn í kostnaðinn, enda er hann mikill. Ef við viljum að börn séu eins mikið hjá báðum foreldrum og mögulegt er, þrátt fyrir skilnað foreldra, (Forseti hringir.) þá verðum við að skoða þessi mál betur. Ég met það svo að hæstv. ráðherra hafi lýst því yfir að hann muni (Forseti hringir.) gera það.