138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

655. mál
[14:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, við munum athuga þetta mál í þeirri endurskoðun sem fram undan er. Þau réttindi sem fylgja lögheimili og réttaráhrif lögheimilisfesti í tilviki barna þar sem foreldrar hafa sameiginlega forsjá eru í verkahring dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og undir það heyra forsjármál. Þetta tengist því í sjálfu sér þeim réttaráhrifum sem lögheimilisfestin á að hafa og er svo sem hægt að hafa um það mörg orð hvernig því verður best fyrir komið. Það sem fyrir okkur vakir er að tryggja að þær greiðslur sem fara úr ríkissjóði til foreldra vegna veikinda eða fötlunar barna nýtist þeim foreldrum sem bera raunverulega umönnunarbyrðar vegna þeirra barna, þannig að um sé að ræða að fólk fái greiðslurnar til þess að mæta öllu því sem til fellur, útlögðum kostnaði, vinnutapi og öðrum kostnaði tengdum umönnun langveikra og fatlaðra barna, sem er öðruvísi en kostnaður við umönnun annarra barna.

Markmið okkar í endurskoðuninni er líka að horfa til þess með nýjum hætti hvernig við getum nálgast þetta verkefni, hvernig við getum tryggt að þeir sem hafa mikinn kostnað fái hlutfallslega meira út úr kerfinu en er í dag. Við höfum verið í samræðum við hagsmunasamtök um málið og munum efna til frekari samræðna um það. Mín von er sú að við getum endurskoðað þetta kerfi á haustdögum.