138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Ekki get ég lofað því að maður fari heim frá umræðunni fljúgandi á vængjum kvöldroðans ef ekkert verður til að hressa mann við annað en málflutningur stjórnarandstöðunnar, a.m.k. eins og hann er enn sem komið er. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það áfall sem Ísland varð fyrir á haustmánuðum 2008. Það áfall var ekki bara efnahagslegt, og nægt var nú tjónið samt sem þar varð. Það var líka sálrænt, tilfinningalegt, félagslegt, sjálfsmynd okkar laskaðist og orðspor okkar sömuleiðis. Það varð víðtækur trúnaðarbrestur, traust hrundi til grunna í samfélaginu. Við erum enn að glíma við það ástand. Skilaboðin úr sveitarstjórnarkosningunum á dögunum bera það meðal annars með sér. Það er gremja, það eru vonbrigði, það er reiði sem leitar útrásar með ýmsum hætti og það er skiljanlegt. Það er verk að vinna í íslensku samfélagi við að endurheimta traust. Það er verk að vinna við að endurreisa efnahaginn. Það er verk að vinna við að græða sár vonbrigða og réttlátrar reiði þegar hlutum er leyft að gerast sem eiga ekki að geta gerst.

Rannsóknarskýrsla Alþingis, störf sérstaks saksóknara, störf sérnefndar Alþingis, störf skattyfirvalda og dómstóla, allt eru þetta mikilvægir hlekkir í uppgjörinu, því að réttlætinu og sannleikanum verði þjónað eins og kostur er, en þeir hlutir munu taka sinn tíma. Þeir munu kosta mikla fjármuni. Það er ekki bara svo að á Íslandi séu menn að glíma við þessi vandamál. Um víða veröld og ekki síst í mörgum löndum Evrópu er við hliðstæða atburðarás að fást. Skuldsett, ofþanin hagkerfi, ofvaxinn og útblásinn banka- og fjármálageiri og fasteignageiri hrynur saman með stórkostlegu tjóni sem meira og minna lendir, því miður, að lokum á herðum hins opinbera og skattgreiðenda. Það er dapurlegt en þannig er það. Ríkissjóðir víða um lönd taka á sig stórkostlega skuldabyrði ofan á það sem fyrir var og menn munu verða ár og jafnvel áratugi að vinna sig út úr ástandinu.

Ísland varð fyrsta þróaða hagkerfið til að lenda í risaáfalli í þessari umferð. Bankahrunið hér á sér vart hliðstæðu, að okkar örsmáa hagkerfi skyldi komast á blað með þrjú af 10 stærstu gjaldþrotum sögunnar er með endemum. Að skuldir ríkisins skyldu fara úr engu miðað við hreina stöðu í upp undir 50% af vergri landsframleiðslu á einu og hálfu til tveimur árum er án fordæma. En kosturinn við að Ísland varð eins konar undanfari í efnahagshruninu er um leið sá að við erum lengra komin á margan hátt í að takast á við vandann en önnur lönd. Við erum um margt einu til einu og hálfu ári á undan ef það er skoðað og bornar saman þær aðgerðir sem við gripum til fyrir einu ári, á vordögum 2009, og aftur um síðustu áramót, við það sem ríkisstjórnir víða um lönd eru núna að hefjast handa um annars staðar. Þessar aðgerðir hafa þegar skilað miklu eins og nú er æ betur að koma í ljós. Auðvitað bíða engu að síður Alþingis og ríkisstjórnar að sönnu mikil verkefni.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði hér um virðingu Alþingis eða traust, eða öllu heldur skort á hvoru tveggja. Ég tel að Alþingi vinni sér fyrst og fremst traust með vönduðum vinnubrögðum og því að skila sínu hlutverki. Það verður undir smásjá hvernig Alþingi stendur sig í þeim efnum á næstu klukkutímum. Það kemur ekki til greina að Alþingi ljúki hér störfum og fari í sumarleyfi fyrr en vandaður og sómasamlegur frágangur á málefnum heimilanna hefur fengið hér farsæla afgreiðslu. Það kemur heldur ekki til greina að Alþingi fari í frí fyrr en búið er að tryggja að vatnið verði ekki einkavætt.

Hver er nú staðan þegar við nálgumst mitt ár 2010 og það eru að nálgast tvö ár frá hruninu í byrjun október 2008? Jú, það er hollt að bera það lítillega saman. Við hverju bjuggumst við þá? Við hverju bjuggumst við framan af ári í fyrra og hver er staðan nú?

Því var t.d. spáð að landsframleiðsla á síðasta ári mundi tæplega halda í horfinu að nafnvirði og verða um 1.400 milljarðar kr. Nú liggur fyrir að hún verður a.m.k. 1.500 milljarðar kr. Það liggur fyrir að samdráttur sem spáð var að yrði 10% af vergri landsframleiðslu verður nær því að verða 6,5%. Því var spáð að þrátt fyrir aðgerðir í fyrra yrði halli á rekstri ríkissjóðs um 12,6% af vergri landsframleiðslu. Hann stefnir nú í að hafa orðið um eða innan við 9% af vergri landsframleiðslu. Því var spáð að atvinnuleysi yrði upp undir 10% að meðaltali. Það varð á milli 8 og 9%. Atvinnuleysi, bæði í apríl og aftur í maí á þessu ári, er heldur minna en í sömu mánuðum síðasta árs. Það er á niðurleið og var 8,3% nú í maímánuði.

Það sem meira er um vert, á tveimur ársfjórðungum í röð hefur íslenska hagkerfið vaxið. Það hefur ekki dregist saman eins og spár gengu út á. Bæði á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og fyrsta ársfjórðungi þessa árs varð lítils háttar vöxtur í hagkerfinu. Og það sem meira er um vert, það er útflutnings- og verðmætasköpunardrifinn vöxtur. Þess sér m.a. stað í því að vöruskiptajöfnuður var jákvæður svo nam tæpum 17 milljörðum kr. í maímánuði sl. Það munar um minna en tæpa 17 milljarða kr. í afgang af vöruskiptum við útlönd.

Með öðrum orðum eru ýmis jákvæð teikn á lofti hvað það snertir að það verði sá viðsnúningur í hagkerfinu sem við þurfum að sönnu sárlega á að halda.

Ég segi hiklaust fyrir mitt leyti að væri ekki fyrir eldgos, hestapest og óvissu á ýmsum markaðssvæðum okkar Íslendinga er ég viss um að hér yrði hagvöxtur í ár frekar en samdráttur. Þessi jákvæðu teikn þýða á hinn bóginn ekki að hin erfiða glíma við ríkisfjármálin verði nokkuð annað en erfið. Það verður hún. Það verða aðgerðir upp á um 43 milljarða kr. á næsta ári sem í grófum dráttum eru líklegir til að skiptast í um 11 milljarða kr. sértæka tekjuöflun og 32 milljarða kr. aðhald í útgjöldum. Það verður erfitt. Góðu fréttirnar eru þar með þær að þá verður það versta og það mesta búið. Við eigum eitt virkilega erfitt ár eftir. Þaðan í frá er engin ástæða til að ætla annað en að sæmilegur viðsnúningur og umsvif í hagkerfinu skili okkur að mestu leyti því sem við þurfum til að ná markmiðum okkar um hallalausan rekstur ríkisins á árinu 2013. Samvinna og samstarf mun þar skipta miklu máli og það mun reyna verulega á það í þeirri erfiðu glímu sem fram undan er.

Hver er leið Íslands út úr erfiðleikunum? Jú, leið Íslands liggur í gegnum það sem við höfum, raunhagkerfi okkar, útflutnings- og samkeppnisgreinar, nýsköpun, sjávarútveg, landbúnað, matvælaiðnað, ferðaþjónustu, orku og tækni- og þekkingargreinar sem við eigum að hlúa að. Það er fullt af jákvæðum merkjum.

Ég fór í gegnum einn af fjölmiðlunum í dag og skoðaði 10 fyrirsagnir. Fjórar þeirra voru um góðar fréttir, vaxandi líf að færast í fasteignamarkaðinn, eignir lífeyrissjóða halda áfram að aukast og eru komnar yfir 120% af vergri landsframleiðslu, fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair, stærsta flugfélags þjóðarinnar, að komast í höfn og atvinnuleysi minnkar.

Verkefnið er á góðri leið með að takast. Það er aðalatriðið. Allt tal um hættu á þjóðargjaldþroti sem sveif yfir vötnum í þessum sal fyrir ári er þagnað. Það talar enginn lengur um að Ísland sé á leiðinni á hausinn eða að hér sé hætta á greiðslufalli. Landið er hægt og bítandi að öðlast traust og trúverðugleika á nýjan leik á erlendri grund. Það merkjum við og finnum á ýmsan hátt. Það er að byrja að þiðna í samskiptum við önnur lönd.

Það eru samt brekkur eftir, það vitum við öll og við skulum taka þær saman.

Ég hvet landsmenn til að njóta sumarsins. Ég er viss um að það verður gott. Við skulum gera það, við skulum vera dugleg að ferðast um landið okkar. Við skulum sækja hvert annað heim. Heimsækjum fólkið í nágrenni Eyjafjallajökuls sem hefur gengið í gegnum mikla þolraun. Við skulum heimsækja Skagafjörð þar sem menn urðu að slá af Landsmót hestamanna. Kaupum íslenskar vörur. Ráðumst í framkvæmdir, þau okkar sem eru í færum til þess. Hjálpum okkur sjálf og hjálpum hvert öðru í leiðinni, það er besta aðferðin. — Góðar stundir.