138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti og góðir landsmenn. Ísland er ekkert draumaland lengur. Ég veit ekki um neinn sem kominn er til vits og ára sem finnst samfélag okkar réttlátt. Ég veit ekki um neinn sem finnst að hlutirnir séu í lagi á Íslandi, stjórnmálaflokkar starfi í þágu almennings og að allir búi við jöfn tækifæri. Það er ekki bara vitlaust gefið, íslenskt samfélag er nánast óbærilegt vegna spillingar í viðskiptalífi og stjórnmálum og vegna þess óréttlætis sem felst í því að á sama tíma og ríkið tryggir og greiðir innstæður fjármagnseigenda að fullu sitja lántakendur eftir með stökkbreyttan höfuðstól og þeim er gert að greiða af lánsfjárhæðum sem þeir tóku aldrei að láni. Þannig rofnaði samfélagssáttmálinn.

Fyrir rúmu ári þegar kosið var til þings sáum við ekki heildarmyndina. Okkur grunaði að einhverjir stjórnmálamenn hefðu sofið á vaktinni, sumir væru jafnvel spilltir og að bankarnir hefðu verið illa reknir og stjórnsýslan veikburða. En við vissum það ekki fyrir víst. Og við vissum ekki heldur að forustumenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vissu hvert stefndi en gerðu samt ekki neitt, ákváðu bara að þetta hlyti að reddast einhvern veginn. Við vissum heldur ekki að bankarnir hefðu verið rændir innan frá. Og ekki heldur að alvarleg staða bankanna hefði verið rædd tvívegis á þingflokksfundum Samfylkingarinnar í febrúar 2008 en mælst til þess að þingmenn töluðu varlega um að bankarnir stefndu í gjaldþrot. Sumir þeir sem sátu þá fundi eru enn þingmenn og jafnvel ráðherrar. Við vissum ekki að allir þeir sem gæta áttu hagsmuna okkar brugðust. Mörg okkar grunaði að ekki hefði verið allt með felldu en við gátum ekki verið viss.

Nú, eftir að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér vandaðri skýrslu, liggja spilin á borðinu. Við vitum að stjórnvöld brugðust, stjórnsýslan er ónýt, þingið sömuleiðis og að spilling grasserar innan stjórnmálaflokkanna. Við vitum að valdhafar hafa ítrekað tekið meðvitaðar ákvarðanir um að taka sérhagsmuni eigin flokka og áframhaldandi setu á valdastólum fram yfir almannahag. Við vitum nú að allir sem áttu að gæta hagsmuna okkar brugðust.

Eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur það löngum viðgengist að tvær manneskjur, oddvitar stjórnarflokkanna, ráða öllu sem þær ráða vilja og gerir nefndin alvarlegar athugasemdir við það. Það hefur ekkert breyst þótt annað fólk sé komið til valda. Þrátt fyrir kröfu almennings um lýðræðisumbætur er ekki vilji til að koma á persónukjöri og kannski eins gott því að það frumvarp sem liggur fyrir þinginu er handónýtt því að það gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að kjósa fólk þvert á flokkslínur. Verði frumvarp hæstv. forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslur að lögum munu hvorki landsmenn sjálfir né minni hluti þings geta skotið málum til þjóðarinnar. Ljóst er að ríkjandi stjórnvöld munu aldrei ákveða upp á sitt einsdæmi að leggja umdeild mál fyrir þjóðina, sama hverjir eru við stjórnvölinn. Fólkið mun aðeins fá að segja sína skoðun þegar það hentar valdhöfum. Þetta eru ekki þær lýðræðisumbætur sem beðið var um, þetta er afskræming á kröfum búsáhaldabyltingarinnar.

Á næstu dögum hyggst Alþingi Íslendinga taka sér hlé frá störfum þangað til í haust. Staða heimilanna er enn í uppnámi þótt liðið sé eitt og hálft ár frá hruni og hvorki almennar lausnir né réttlæti í sjónmáli. Fyrir þinginu liggja mörg ágæt frumvörp sem mundu bæta stöðuna en hafa enn ekki verið afgreidd. Fyrir helgi var skipuð hér samræmingarnefnd sem átti að fara yfir þau frumvörp sem fyrir liggja og varða stöðu heimilanna. Hún fór af stað með krafti en hefur svo ekki fundað síðustu tvo daga. Sú tillaga kom fram í nefndinni að rétt væri að skipa aðra nefnd sem mundi starfa í sumar og ræða frekar skuldavanda heimilanna. Er ekki nóg komið af nefndum? Er tími almennra aðgerða ekki löngu runninn upp? Þessi vinnubrögð minna um margt á aðgerða- og viðbragðsáætlanir stjórnvalda fyrir hrun. Málin voru þæfð í nefndum sem engar ákvarðanir tóku enda höfðu þær ekkert vald til þess og ekkert var gert fyrr en allt var um seinan. Ætlum við aldrei að læra af mistökunum?

Ríkisstjórnin hefur þó komið í gegn nokkrum úrræðum sem henta efnameira fólki, sem í mörgum tilfellum getur bjargað sér sjálft, og réttarúrbótum sem gera gjaldþrot huggulegri. Eitt þeirra er frumvarp um gjaldþrotaskipti sem varð að lögum í síðustu viku sem m.a. gerir fólki kleift að leigja og búa í allt að 12 mánuði í húsnæði sem það missir. Á fundi fyrrnefndrar samræmingarnefndar kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ýmislegt við það að athuga að lántakendur fái svo mannúðlega meðferð og greindi aðstoðarmaður hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra frá því að hún hefði verið kölluð á fund hjá fulltrúum sjóðsins og skömmuð fyrir að leggja fram svo óforskammað frumvarp.

Í greinargerð með öðru frumvarpi frá sama ráðherra, í máli 447, kemur einnig fram að sjóðurinn hafi gert miklar athugasemdir við upphafleg frumvarpsdrög. Ljóst er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar hér fleiru en látið er uppi og hendur stjórnvalda eru bundnar. Hafi einhver efast um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé með puttana í lagasetningu á Íslandi þarf sá hinn sami ekki að efast lengur.

Samkvæmt viljayfirlýsingu þeirri sem þrír hæstv. ráðherrar og seðlabankastjóri sendu sjóðnum þann 7. apríl sl. við aðra endurskoðun sjóðsins má ríkisvaldið ekki framlengja frest á nauðungarsölum lengur en fram í október á þessu ári. Var það loforð gefið með hag þjóðarinnar að leiðarljósi? Og hvaða veruleiki blasir við þeim sem munu missa heimili sín í haust?

Og enn búum við við verðtryggingu, eitthvert mesta böl íslensks samfélags, þrátt fyrir orð fjármálaráðherra um að hann mundi afnema hana þegar verðbólgan rénaði. Er sá tími ekki kominn? Til að forðast verðtrygginguna tóku mörg heimili gengistryggð lán og eru nú enn verr stödd. Verðtrygginguna verður að afnema en sjálfsagt er að gera það í þrepum. Hún hylmir yfir með lélegri hagstjórn stjórnvalda sem hafa hvorki vilja né getu til að stjórna peningamálum á Íslandi. Hún er hækja sem við verðum að losa okkur við hið fyrsta því að hún kemur ávallt í bakið á okkur aftur.

Við hljótum einnig að krefjast leiðréttingar á skuldum heimilanna nú þegar. Við vitum að skuldir heimilanna voru færðar úr gömlu bönkunum í þá nýju með miklum afslætti. Sú niðurfærsla verður að fá að ganga til fólksins með leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð við hrunið. Lántakendur eru fæstir að biðja um fégjafir eða stórfelldar afskriftir, aðeins leiðréttingu á þeim hækkunum sem komnar eru til vegna þess forsendubrests sem varð við hrunið og að fá að greiða eftir þeim greiðsluáætlunum sem fagfólk í bönkunum útbjó þegar lánin voru tekin. Það er bæði sanngjörn og eðlileg krafa.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi hef ég ótal sinnum orðið vitni að því að þingmenn og ráðherrar taka hagsmuni flokks og valda fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Ég bið þá sem enn hugsa þannig að víkja tafarlaust. Þeir sem taka sérhagsmuni fram yfir sameiginlegan hag allra Íslendinga verða að hverfa á braut. Enn eru hér í salnum þingmenn sem hafa þegið háa styrki og þrátt fyrir ítrekaðar óskir almennings hafa þeir ekki tekið pokann sinn. Ætli það sé ekki rétt að þeir styrkþegar sem ætla sér að sitja sem fastast skrái sig í Kauphöllina svo hægt sé að fá á hreint hverjir eiga þá.

Góðir landsmenn. Við erum enn í miðju hruni. Fyrst hrundu bankarnir og hriktir enn í því kerfi úti í hinum stóra heimi. Nú eru stjórnmálaflokkarnir að molna. Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum fékk fjórflokkurinn, sem sumir eru reyndar farnir að kalla fjárflokkinn, á baukinn. Hugmyndafræði sem byggir á sterkum leiðtoga sem fylgt er í blindni er liðin undir lok. Með brosbyltingunni kaus fólk nýja valkosti um land allt. Nýir flokkar og hreyfingar eru ekki bara staðreynd heldur ráðandi öfl í mörgum af stærstu sveitarfélögum landsins. Þar sem ekki komu fram ný framboð sýndi fólk andstöðu sína með því að sitja heima í stað þess að nýta kosningarréttinn. Fjárflokkurinn verður að taka það til athugunar sé honum annt um tilvist sína. Fólk krefst aðgerða núna, ekki fleiri nefnda. Ísland er ekki í lagi en það er hægt að laga það. Ef þeir sem verma hér stóla ætla ekki að taka þátt í því verða þeir að öllum líkindum bornir út.

Ég þakka þeim sem hlýddu.