138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:55]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Stjórnmálaástandið á Íslandi einkennist af því að stjórnarflokkarnir neita blákalt að skilja að almennt hrun og almennur forsendubrestur kalla á almennar og endanlegar aðgerðir. Sértækar aðgerðir duga helst til að hámarka þær fjárhæðir sem lánardrottnar geta mjólkað úr þeim sem skulda með því að lengja í skuldinni og miða afborganir við ýtrustu þolmörk þess sem greiðir. Stjórnarflokkarnir neita að skilja að almenningur á heimtingu á að orðið sé við þeirri lágmarkskröfu að höfuðstóll veðtryggðra íbúðalána verði færður til þess sem hann var um áramótin 2007/2008. Það er sama mannúðlega hugsunin á bak við greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun og þá siðvenju að bjóða dauðadæmdum manni upp á góða máltíð og sígarettu áður en maður afhendir hann böðlinum.

Á næstunni verður fjöldi fólks úrskurðaður gjaldþrota. Gjaldþrot getur þýtt ævilangt vistarband hjá lánastofnunum, þeim sömu og settu landið okkar á hausinn með gróðafíkn sinni. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir gjaldþrot en það er skylda okkar að breyta lögum þannig að gjaldþrot þýði ekki ævilangt ófrelsi og ánauð. Það væri glæpsamleg vanræksla að afnema ekki þá ævilöngu refsingu sem nú getur fylgt gjaldþrota einstaklingum.

Getuleysi allra stjórnmálaflokkanna til að takast á við afleiðingar hrunsins virðist vera jafnalgjört og getuleysið þeirra til að afstýra því. Það er því ekki að ástæðulausu sem orðið hefur trúnaðarbrestur milli stjórnmálaflokka og almennings, eins og við fengum staðfest í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Viðbrögð stjórnmálaflokkanna gáfu ekki ástæðu til bjartsýni á vilja þeirra til að endurnýja sig og komast í takt við fólkið í landinu. Allir með tölu sögðust þeir hafa unnið sigur, einhvers konar sigur í kosningunum, rétt eins og hérna væri enn þá árið 2007 og montið og sjálfsblekkingin blöktu við hún.

Í fyrirsjáanlegri framtíð munu Íslendingar setja sér stjórnarskrá, nýja stjórnarskrá sem vonandi verður skref fram á við í átt til aukins lýðræðis og betra stjórnarfars. Í framhaldi af því ætti Alþingi að endurskoða starfshætti sína, þingsköp og hefðir og gera markvissa tilraun til að enduruppgötva og endurnýja sjálft sig og endurheimta þá stöðu sem það hafði áður með þjóðinni. Hér á stjórnpalli þjóðarskútunnar ríkir forneskjan og íhaldssemin. Hér eru furðulegar og framandlegar venjur og reglur um málvenjur og klæðaburð, t.d. er denim, slitsterka klæðaefnið, bannað. Aðeins þingkonur mega klæðast leðurflíkum. Karlmenn skulu vera í jakka og skyrtu, helst með bindi en alls ekki í peysu. Hér tíðkast ávarp eins og herra forseti, frú forseti, hæstvirtur forseti, virðulegi forseti og háttvirtur þingmaður, og ekki má nefna ráðherra eða þingmenn nema með fullu nafni og viðhenginu háttvirtur og hæstvirtur. Hér eru tölvur bannaðar í þingsal nema hvað þingritarar og forsetar nota tölvu til að halda mælendaskrá í staðinn fyrir kálfskinn og hrafnsfjaðrir. [Hlátur í þingsal.] Sérviska og fornaldardýrkun af þessu tagi er þó meinlaus miðað við ýmislegt annað í starfsháttum og starfsaðstöðu þingsins sem verður að færa til nútímans og það áður en gjáin, hyldýpið milli þings og þjóðar, verður óbrúanleg. 19. aldar vinnubrögð til að takast á við 21. aldar verkefni eru hjákátleg. Hér þarf að taka upp nútímaviðhorf og nútímavinnubrögð. Hér þarf að tala minna og hugsa meira. — Góðar stundir.