138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á háskalegum tímum í lífi þjóðar skiptir pólitísk forusta hennar miklu máli. Þá reynir á að leiða saman ólík sjónarmið, leita lausna, hafna pólitískum kreddum og stuðla að sátt í stað þess að efla sundrungu. Við þessar aðstæður reynir ekki síst á þá sem fara með völdin í þjóðfélaginu. Við náum ekki árangri ef orka okkar og kraftar fara í ónauðsynleg átök. Við verðum að hafa til þess burði og þroska að horfa yfir þrasið og dægurríginn og einbeita okkur að því að ná vopnum okkar.

Við hrun bankakerfisins á haustdögum 2008 skipti máli að stefnan var strax mörkuð við úrlausn vandamálanna. Með samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fyrstu aðgerðum í þágu heimilanna er ljóst að grunnur var lagður að því sem hefði getað orðið endurreisn atvinnulífsins. Sú stefnumörkun á auðvitað mestan þátt í að samdráttur í efnahagsbúskap okkar var minni en ætlað var í upphafi. Það hjálpar okkur að takast á við vandann sem við er að glíma, og er hann þó ærinn. Þessari stefnumörkun hefðum við þurft að fylgja eftir af festu en því var ekki að heilsa. Ákvarðanafælni, innbyrðis átök og skammsýni stjórnvalda hafa nú valdið því að það tognar á samdrættinum. Ríkisstjórnin þvælist fyrir uppbyggingaráformum í atvinnulífinu, ýmist með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi, og hneppir sjávarútveginn í fjárfestingarfjötra. Þarf þá einhvern að undra þótt hægt gangi og að atvinnuleysistölurnar séu komnar í þær stærðir að það mætti halda að við værum þegar komin inn í ESB?

Það er einmitt við svona aðstæður sem við þurfum á styrkri stjórn að halda, ríkisstjórn sem nær saman um verkefni sín og leitar samstarfs til að sem flestir leggist á árarnar. Því miður hefur mjög skort á áralag ríkisstjórnarinnar, á meðan ræðararnir á stjórnborða róa í eina áttina damla þeir á móti sem á bakborða sitja. Fyrir vikið snýst ríkisstjórnarfleyið í hringi, hriplekt, og greinilegt að áhöfnin líkt og formaðurinn vita hvorki hvaðan þeir eru að koma og enn þá síður hvert þeir eiga að sigla. Sjálf þjóðarskútan er síðan flatreka og hrekst undan veðri og vindum, enda skipverjarnir önnum kafnir við innbyrðis deilur sínar.

Dapurlegast var síðan að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra flytja eins konar friðþægingar- og afneitunarræðu sína. Hann lýsti veruleika sem ég held að sé býsna ólíkur veruleika almennings. Hvert stórmálið á fætur öðru hefur dúkkað upp sem er brennimerkt illdeilum stjórnarliðanna. Þegar svo allt er komið í strand er settur upp sparisvipurinn og hvatt til þess að stjórnarandstaðan komi að borðinu, ekki til þess að vinna að málum í sameiningu heldur til þess að draga laskað ríkisstjórnarfleyið til hafnar, bjarga því úr pólitískum hafvillum.

Dæmin eru nánast óteljandi og þau ekki af smærra taginu. Við munum aðildarumsóknina í ESB. Málið var rekið áfram í fullkomnu ósætti og það naut ekki einu sinni stuðnings allra ráðherranna í ríkisstjórninni. Fyrir vikið erum við á eyðimerkurgöngu í þessu máli sem enginn vill kannast við og fáir veita atbeina. Eða Icesave, þar gerðust þau fádæmi að hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir mestu fjárhagsskuldbindingar Íslandssögunnar, vitandi vits um að meiri hluti þingmanna var því andvígur. Heimildir til slíkrar fjárhagslegrar skuldbindingar hafði hæstv. ráðherra vitaskuld ekki. Þessi gjörð hans er stóralvarleg út frá stjórnarskipunarlegu sjónarmiði, hún var hins vegar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem vissi um aðstæðurnar þegar þetta mál var flutt sem stjórnarfrumvarp.

Þetta er dæmi um fullkomna vanrækslu, ef ekki eitthvað enn þá verra, sem við hljótum að líta alvarlegum augum. Það gerði þjóðin líka sem hafnaði Icesave-samningunum frá ríkisstjórninni með eftirminnilegum hætti í ársbyrjun.

Þriðja dæmið er hið nýja frumvarp um Stjórnarráðið. Það er sjálfsagt að við endurskoðum lögin um Stjórnarráðið með það fyrir augum að auka skilvirkni, pólitíska ábyrgð og draga úr kostnaði, en það frumvarp sem nú hefur verið lagt á borð okkar þingmanna gerir það ekki. Það er bara enn einn afraksturinn sem við sjáum af hrossakaupum ríkisstjórnarinnar, fingraförin af öllu því mixi eru löðrandi út í gegnum frumvarpið.

Nú þegar komið er í ljós að ríkisstjórnin hefur ekki þingmeirihluta fyrir þessu máli sínu er kallað eftir samstarfi, samstarfi á forsendum ríkisstjórnarinnar, til þess eina ferðina enn að efna til björgunarleiðangurs fyrir ríkisstjórnina en ekki málefnalegs samstarfs þar sem flestir eru kallaðir til í upphafi máls.

Til að bæta gráu ofan á svart leggur forusta ríkisstjórnarinnar nótt við dag til að afstýra því að hér geti farið fram almenn umræða um þessi mál. Aðalatriðið virðist vera að kýla málið einhvern veginn í gegn og koma í veg fyrir að sjónarmið þingmanna gagnvart þessu máli fái að hljóma héðan úr ræðustóli Alþingis, augljóslega til að afstýra því að hinar ólíku raddir stjórnarliða í hinum laglausa og falska kór meintra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar nái eyrum almennings. Er það þetta sem hæstv. fjármálaráðherra átti við þegar hann talaði hér áðan og var með ákall um aukna virðingu Alþingis hjá þjóðinni? Það eru einmitt vinnubrögð af þessu taginu sem samtíminn gagnrýnir. Við þurfum hins vegar ný vinnubrögð og ný stefnumið. Við þurfum uppbyggileg viðhorf, markvissa atvinnustefnu og umfram allt úrræði fyrir heimilin. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til slíkra verka.