138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Gott kvöld. Á því rúma ári sem liðið er frá kosningum hafa mörg stór og erfið mál komið til kasta Alþingis. Sum hefur tekist að leysa en önnur bíða enn úrlausnar. Mikilvægasti atburður ársins er þó án efa skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, en hún var m.a. mikill áfellisdómur yfir stjórnkerfi landsins og stjórnmálalífi. Þjóðin hafði beðið lengi eftir skýrslunni, en biðin var þess virði.

Bananalýðveldi var skoðun eins leiðarahöfundar eftir kynningu skýrslunnar.

Mörgum finnst lítið hafa breyst í stjórnmálum landsins eftir hrun og víst er að lítil ánægja var í landinu með viðbrögð stjórnmálaflokkanna við skýrslunni. Tvær konur voru að vísu hraktar úr sölum Alþingis, önnur tímabundið og hin varanlega. Víst höfðu þeim orðið á mistök og þær misst traust kjósenda sinna en þær eru ekki einar um það. Ef stjórnmálaflokkar landsins halda að þeim dugi til syndaaflausnar að fórna tveimur drottningum kunna þeir lítið í skák.

Hugtakið bananalýðveldi mun í kjölfarið fá aðra og dýpri merkingu og nýlegur sigur Besta flokksins verður léttvægur í samanburði við það sem á eftir fylgir.

Stjórnmálaflokkarnir geta auðvitað kosið veg sjálfsblekkingarinnar. Þann veg kusu þeir flestir hverjir af öðru tilefni á árunum 2002–2008. Við vitum hvernig það endaði — með hruni.

Það eru fleiri stofnanir en stjórnmálaflokkarnir sem njóta lítils trausts. Ég vil nota tíma minn í kvöld til að ræða Alþingi Íslendinga.

Eins og fjölmargir aðrir þingmenn tók ég sæti á Alþingi fyrir rúmu ári og verð að segja eins og er að starfshættir Alþingis hafa valdið mér vonbrigðum, eins og ég held raunar að þeir valdi þjóðinni allri. Gamlar hefðir og venjur eru oft til gagns, en öllum má vera ljóst að hefðbundin starfsemi Alþingis er í miklum ógöngum. Þetta vita þingmenn flestir hverjir, en margir taka þátt í dansinum eins og að ekkert hrun hafi orðið og engin rannsóknarskýrsla verið skrifuð. Það er auðvitað erfitt fyrir einstaka þingmenn að breyta starfi Alþingis, til þess þarf samstöðu. Fyrsta skrefið er þó auðvitað að segja hlutina hreint út: Alþingi Íslendinga er í ruglinu. Alþingismenn og þingflokkar þurfa að endurskoða starfshætti sína. Við gætum sagt að við þyrftum að fara í meðferð.

Á þjóðþingum nágrannalandanna eru oft átök og stóryrði, enda deilur hluti af lýðræðinu. Ég held að í flestum nágrannaríkja okkar þætti stappa nærri sturlun sá pólitíski hráskinnaleikur sem hér er leikinn í grafalvarlegum málum. Alþingi getur lært mikið af þjóðþingum nágrannalandanna, eins og það hefur raunar gert í sumum efnum upp á síðkastið. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefnd sem vinnur úr henni í kjölfarið eru að erlendri fyrirmynd og sannarlega til fyrirmyndar. Hér þarf þó að ganga mun lengra og stokka starfsemi Alþingis upp. Þjóðþing Norðurlandanna þykja almennt vel skipulögð og valdamikil í samskiptum sínum við framkvæmdarvaldið og af þeim eigum við að læra.

Árin fyrir hrun kusu Íslendingar að líta á vandamál sín sem spurningu um ímynd, og að áhyggjur og gagnrýni útlendinga væru á misskilningi byggð. Bæta þyrfti ímynd landsins, semja skýrslur og halda ræður. Þjóðin þyrfti að bæta ímynd sína í stað þess að bæta ráð sitt. Við vitum hvernig það fór.

Það minnir helst á ljóðið góða eftir Þórarin Eldjárn, með leyfi forseta:

Ég er að skipta um ímynd

út á við sést ný mynd.

Hið innra einn ég svamla

áfram í því gamla.

Viðbrögð stjórnmálaflokkanna við rannsóknarskýrslu Alþingis eru sumpart af sama toga. Áhuginn á breytingum, að ekki sé minnst á ábyrgð á gerðum sínum, er takmarkaður. Þeim mun meiri er áhuginn á ímyndinni. Embætti forseta Íslands, ríkisstjórn, stjórnsýsla og Alþingi þurfa að breytast. Við vantrausti kjósenda þarf að bregðast með breytingum. Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið er nauðsynlegur hluti af þessu ferli, en biðin eftir stjórnarskrá er ekki afsökun fyrir því að sitja auðum höndum.

Við þurfum að setja ný lög um Stjórnarráðið og breyta þingsköpum þannig að ráðherrar geti farið í leyfi frá löggjafarstörfum á meðan þeir fara með framkvæmdarvald. Það er á ábyrgð okkar sem nú sitjum á Alþingi að tryggja að lýðræðið njóti virðingar og trausts svo það fái þrifist. Það er sú framtíðarsýn sem við eigum að hafa að leiðarljósi í störfum okkar. — Gleðilegt sumar.