138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

aðgerðir í skuldamálum.

[10:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísar í grein eftir Helga Hjörvar og hugmyndir hans um almenna niðurfellingu. Helgi Hjörvar er þekktur fyrir að vera með margar skemmtilegar og frjóar hugmyndir. Ég hef ekki lesið (Gripið fram í: Það er rétt.) þessa grein sem hv. þingmaður vitnar í, en mín afstaða til almennra afskrifta hefur margítrekað komið fram. Ég sé á þeim ýmsa annmarka.

Eins og við fórum yfir hér fyrir stuttu eru 20% almennar afskriftir hjá öllum mjög dýr aðgerð fyrir Íbúðalánasjóð sem við berum öll fyrir brjósti. Það var talað um að 20% almennar afskriftir mundu kosta um 114 milljarða kr. Það yrðu veruleg útgjöld hjá LÍN og síðar hjá bönkunum þannig að ég held að það sé miklu skynsamlegra að fara þá leið sem mér finnst að allir flokkar séu að sameinast um á Alþingi, afgreiða svokallaðan heimilispakka þar sem m.a. er að finna greiðsluaðlögun sem ég held að sé mjög skynsamleg leið. Hún gagnast þeim sem eru verst settir í öllu skuldabaslinu og gefur möguleika á að veita þeim aðilum sem verst eru settir miklu hærri afskriftir en 20% sem algengt er að menn tali um, kannski allt upp í 90% afskriftir. Við erum að nýta það sem við höfum til staðar til að hjálpa þeim sem verst eru staddir frekar en að vera líka með almennar afskriftir til þeirra sem þurfa ekki á að halda og geta komist af án þess að fá almennar afskriftir sem eru mjög dýrar fyrir samfélagið og við gætum þurft að borga aftur bæði í hærri sköttum og frekari niðurskurði. Síðan er það sannfæring mín eftir að hafa skoðað þetta mál að það mundi leiða til þess að Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) mundi ekki standa lengi undir lánveitingum og fara beint á hausinn.