138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[10:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að það sé ekki ásetningur hennar að afgreiða mál er varða skuldavanda heimilanna ókláruð og hálfkláruð héðan frá Alþingi. Það er tilefni fyrirspurnar minnar. Ég er mjög hugsi eftir eldhúsdagsumræður í gærkvöldi sem ég vona að hæstv. forsætisráðherra hafi haft tök á að kynna sér vegna þess að það var mikið rætt um virðingu Alþingis. Það kom fram hörð gagnrýni á Alþingi og vinnubrögðin. Ég hef verið að hugsa þetta núna og er algerlega komin á þá skoðun að þetta snúist fyrst og síðast um skipulagsleysi og skort á verkstjórn.

Í aðdraganda myndunar þessarar ríkisstjórnar var mikið rætt um að það hefði verið skortur á verkstjórn. Það er kannski ekki sú mynd sem menn fá af þinginu. Hér hafa fjöldamörg mál verið afgreidd. Um fjöldamörg mál sem eru á dagskrá dagsins í dag er ekki ágreiningur. Það fer minna fyrir því í fréttum. Nú þegar við stöndum hér á degi sem átti að vera seinasti dagur þingsins er staðan enn þannig að nokkur stór ágreiningsmál eru að þvælast fyrir því að við getum klárað þau mál sem sátt er um og, það sem verra er, það tefur okkur í að einbeita okkur að því verkefni sem á að vera okkar brýnasta og það er að klára skuldavandamál heimilanna.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að hæstv. forsætisráðherra taki á sig rögg, sýni nú þá miklu þingreynslu sem hún býr yfir, hokin af þingreynslu, reynslumesti þingmaðurinn í þessum sal, og setji til hliðar þau ágreiningsmál sem eru, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í ræðu sinni í gær mikilvæg, en ekki mest áríðandi (Forseti hringir.) þannig að við getum í verki sameinast um að klára brýn mál í sátt og Alþingi til sóma.