138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[10:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra ætli sér að taka ráðleggingum okkar sjálfstæðismanna og ganga þannig frá þessum skuldavandamálum að við getum verið sannfærð um að þau komi ekki í hausinn á okkur öllum sem óvönduð löggjöf. Ég fagna því. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra um að þetta hefur verið fordæmalaus vetur og það er svo sannarlega áherslumunur á milli flokkanna um hvað eru brýn áherslumál. Það er áherslumunur á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um það hvort breytingar á Stjórnarráðinu og sameining ráðuneyta með þeim hætti sem lagt er upp með sé forgangsmál. Ég hef fengið samtöl frá þingmönnum Vinstri grænna þar sem þeir nánast grátbiðja mig um að aðstoða sig við að koma í veg fyrir að mælt verði fyrir því máli. Þetta er ekki forgangsmál. Það er ekki forgangsmál að breyta varnarmálalögum með þeim hætti að hér séu allir hlutir í uppnámi, (Forseti hringir.) að við vitum ekki hvert verkefnin fara. Það er enginn ágreiningur um að við viljum leita leiða til að hagræða bæði í Stjórnarráðinu (Forseti hringir.) og varðandi öryggis- og varnarmál okkar en við erum ekki tilbúin til að gera það með einhverjum (Forseti hringir.) handarbakavinnubrögðum með allt í upplausn. Vinnum nú sannarlega saman það sem eftir er.