138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[10:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var aldeilis athyglisverð yfirlýsing að þingmenn Vinstri grænna séu grátandi á öxl hv. þingmanns og grátbiðji hana um að koma í veg fyrir að stjórnarráðsmálið fái umræðu á þingi. Það eru bara allt aðrar upplýsingar en ég hef. Ég hef verið í góðu sambandi við vinstri græna í þessu máli, líka þá sem ég veit að hafa verið andsnúnir því að þetta mál komi á dagskrá þingsins og fari til nefndar. Við leggjum mörg áherslu á þetta mál, ekki bara í hagræðingarskyni. Hrunskýrslan svonefnda leggur áherslu á að fækka ráðuneytum og sameina m.a. til að við getum farið í hagræðingar í stofnunum. Þetta er líka brýnt mál út af fjárlagagerðinni. Ég efa það ekki að ég geti náð góðri samvinnu við stjórnarliða um að það mál sem hv. þingmaður nefnir fái að komast til nefndar.

Af því að hér er talað um verkstjórn tel ég það vera kraftaverk við skyldum hafa náð stjórnlagaþinginu í gegn, sem er kannski eitt stærsta mál þingsins sem nú er að verða að (Forseti hringir.) lögum. Um það var bullandi ágreiningur fyrir tveimur vikum en ég tel að það sé m.a. vegna góðrar verkstjórnar sem það mál er að komast í höfn.