138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Alþjóðahvalveiðiráðið.

[10:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Nú hagar svo til í þessum fyrirspurnatíma í dag að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki til andsvara en þetta mál hefur verið rætt við þann ágæta ráðherra í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Utanríkisráðherra fer þó að sjálfsögðu með utanríkismál, alþjóðasamskipti og þátttöku okkar í alþjóðastofnunum þannig að það er augljóst að þótt hvalveiðarnar séu formlega á forræði sjávarútvegsráðherra snerta þær að sjálfsögðu líka afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Það er mjög ánægjulegt ef hæstv. utanríkisráðherra tekur sjávarútvegsráðherra með sér á fund utanríkismálanefndar til að fjalla um þessi mál. Við höfum í nokkur skipti rætt þessi mál í utanríkismálanefnd og fengið fulltrúa Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu á okkar fund og rætt afstöðu Íslands. Ég fagna svörum ráðherrans um að sú afstaða sem ég vitnaði til endurspegli ekki afstöðu íslenskra stjórnvalda en úr því að þessi mál hafa verið rædd í ríkisstjórn og ráðherra hyggst beita sér fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum finnst mér sjálfgefið að fram fari umræða í utanríkismálanefnd og það áður en til þessa fundar kemur í Afríku í næstu viku.