138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

fjölgun dómsmála.

[10:33]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hún gefur mér tækifæri til að skýra frá því að í ráðuneytinu er nú unnið að því að undirbúa heildstæðar tillögur sem snúa að því að gera dómskerfinu kleift að takast á við þann aukna málafjölda sem fyrirsjáanlegur er eða öllu heldur kannski ófyrirsjáanlegur, vegna þess að það hefur komið fram að mjög erfitt er að gera sér grein fyrir því hvað er á leiðinni. Það er þó alveg ljóst að stóraukinn málafjöldi er á leiðinni og Hæstiréttur hefur metið það sem svo að fjölga þurfi dómurum við réttinn um þrjá og það þurfi að gerast nokkuð skjótt. Hef ég þá miðað við það að slíkar tillögur ættu að liggja fyrir þinginu í haust. Búið er að meta kostnaðarauka af fjölgun dómara við Hæstarétt, auk aðstoðarmanna og skrifstofumanna. Það eru á ársgrundvelli 75 millj. kr. sem í öllu samhengi má segja að sé nokkuð vel sloppið ef það er nægilegt til að gera réttinn starfhæfan í þessu mikla málaflóði. Hins vegar held ég að óhjákvæmilegt sé að taka það til skoðunar að setja á fót millidómstig, landsyfirrétt, og auk þess þarf að huga að því að gera héraðsdómstólana í stakk búna til að takast á við enn aukinn málafjölda og þar hefur nú þegar orðið fjölgun á dómurum.

Það sem er á döfinni er að fyrir lok þessa mánaðar mun ráðuneytið eiga fund með fulltrúum dómstólaráðs og Hæstaréttar þar sem farið verður betur yfir það sem er í vændum og hvaða leiðir séu raunhæfar til þess að dómstólar geti tekist á við aukinn málafjölda.