138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[10:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Í rauninni erum við fyrst og fremst að fjalla um samgönguáætlun sem nær til áranna 2011 og 2012. Það er auðvitað ljóst, eins og glöggir menn hafa væntanlega tekið eftir, að árið 2009 er liðið og nokkuð er liðið á árið 2010, þannig að í raun og veru er þetta stefnumörkun til tveggja ára. Síðan er gert ráð fyrir að hæstv. ráðherra mæli fyrir nýrri endurskoðaðri samgönguáætlun í haust, þar sem við sjáum nokkuð lengra fram í tímann.

Við gerum okkur grein fyrir því að við ræðum samgönguáætlun nú út frá sérstöku sjónarhorni í ljósi þess að helmingur hennar er þegar ákveðinn og við sjáum eingöngu fyrir okkur næstu tvö árin. Það er mjög mikilvægt að geta rætt þessi mál til lengri tíma. Það er einfaldlega þannig að samgönguáætlun er ekki útbúin af einhverri tilviljun. Hugsunin er sú að reyna að sjá verkin lengra fram í tímann. Við þekkjum það líka af reynslunni að mál hafa þróast þannig að miklu meiri undirbúningstíma þarf að ýmsum verkefnum. Við höfum sett stíf lög um m.a. umhverfismat og skipulagslög sem hafa gert það að verkum að lengri aðlögunartíma þarf. Verkin kalla einfaldlega á meiri og dýrari undirbúning og taka þarf tillit til fleiri þátta en áður. Aðkoma fjölmargra aðila að þessum málum hefur líka verið að aukast. Í vaxandi mæli eru kærðar framkvæmdir sem búið er að undirbúa, jafnvel framkvæmdir sem hafa verið árum saman í undirbúningi. Við höfum því miður allt of mörg hryggileg dæmi um að verkefni sem maður hafði gert sér vonir um að væru að fara af stað eru stopp vegna kæruferla, athugasemda o.s.frv. Það er auðvitað ekki tilviljun að við erum annars vegar með fjögurra ára samgönguáætlun og höfum síðan reynt að vera með 12 ára samgönguáætlanir til að sjá málin í lengra og meira samhengi.

Við verðum því að líta svo á að sú samgönguáætlun sem við ræðum hér sé einhvers konar bráðabirgðaáætlun sem nái eingöngu til tveggja ára og heildarmyndin verði ekki almennilega skýr fyrr en við sjáum lengra fram í tímann.

Svo er annað að við ræðum samgönguáætlun núna við einstaklega erfiðar aðstæður. Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra nefndi að árin á undan hafa verið ár mjög mikilla framkvæmda. Enn þá leifir eftir af hinni miklu framkvæmdagetu áranna á undan. Ýmis verkefni sem núna bera uppi framkvæmdastigið í samgönguáætluninni eru verkefni sem hófust í upphafi þessarar samgönguáætlunar, jafnvel fyrr. Við erum að njóta þeirra. Ég get nefnt dæmi úr mínum heimaranni, Bolungarvíkurjarðgöngin, sem ákveðið var árið 2005 að ráðast í. Það var á haustdögum 2005. Raunar get ég stært mig svolítið af því, ég sat minn fyrsta ríkisstjórnarfund haustið 2005 þegar ákvörðunin var tekin um þau göng. Núna hillir undir að göngin verði tekin í notkun í september á þessu ári, þannig að ferlið var út af fyrir sig ótrúlega stutt. Ákvörðun var tekin í september 2005 og við sjáum vonandi fyrir endann á framkvæmdunum í september 2010. Þessi stóra framkvæmd spannar því fimm ára ferli.

Því miður er þessu ekki að heilsa um margar aðrar framkvæmdir. Þær hafa átt sér langan aðdraganda en ekki komist enn á koppinn og ég ætla að víkja að því hér á eftir.

Í sjálfu sér geri ég ekki mjög miklar athugasemdir við þær breytingartillögur sem liggja fyrir frá samgöngunefndinni. Sá rammi sem nefndin hafði til þess að vinna út frá, var auðvitað mjög þröngur. Það er búið að skera framkvæmdir í vegamálum gífurlega mikið niður. Það var gert strax á árinu 2008. Það var enn fremur gert á árinu 2009. Illu heilli var sú ákvörðun tekin að heimila ekki yfirfærslu á fjármunum sem lágu ónotaðir á milli áranna 2009 og 2010. Að vísu endurskoðaði ríkisstjórnin það að hálfu leyti eða hluta til, sem gerði það að verkum að einhverjum framkvæmdum var hægt að hleypa af stað að nýju á þessu ári. Annars hefði stefnt í að engar nýjar framkvæmdir hefðu verið boðnar út á árinu 2010. Það sjá auðvitað allir í hendi sér hvaða afleiðingar slíkt hefði haft og hefur í raun og veru haft. Þrátt fyrir að einhverjar framkvæmdir hafi verið boðnar út, er staðan á verktakamarkaðnum nánast líkust alkuli. Litlir verktakar hafa hver á fætur öðrum lagt upp laupana. Fyrirtæki hafa hætt. Þeim hefur nánast verið parkerað, eða fyrirtæki hreinlega orðið gjaldþrota. Miklar uppsagnir hafa því miður verið daglegt brauð í þessum mikilvæga atvinnugeira. Það hefur auðvitað átt sinn þátt í því að dýpka kreppuna, auka atvinnuleysið og gera okkur erfiðara fyrir að byggja upp að nýju.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gagnrýna það að menn þurfi að draga saman seglin á þessu sviði sem öðrum. Það fer hins vegar ekki á milli mála, ef við skoðum þennan fjárlagalið í samhengi við aðra fjárlagaliði, að við höfum gengið miklu harðar fram í niðurskurði í samgöngumálum en í öðrum viðfangsefnum. Það er ekki nýtt. Þegar ríkissjóður þarf að draga saman seglin, liggja framkvæmdir alltaf mjög vel við höggi. Okkur gengur alltaf miklu erfiðlegar að skera niður reksturinn en að skera niður fjárfestingarnar. Fjárfestingarnar eru einfaldlega þannig að það þarf ekki með beinum hætti að segja upp ríkisstarfsmönnum. Þrautaráðið er einfaldlega að láta niðurskurðarhnífinn bitna harðar á stofnframkvæmdunum en fjárfestingunum. Það leiðir síðan til samdráttar utan ríkisbúskaparins sjálfs.

Þetta eru hin almennu viðhorf sem ég vil hafa uppi í þessu og vekja athygli á því að í þessum efnum höfum við gengið gríðarlega hart fram. Þetta birtist okkur í mörgum myndum. Ég ætla að nefna eitt dæmi til að byrja með. Í nefndaráliti samgöngunefndarinnar er vakin athygli á eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Samkvæmt mati Vegagerðarinnar nægir áætluð fjárveiting [til viðhalds á vegakerfinu] einungis fyrir um 65% af þeirri lágmarksþörf sem miðað er við til að koma í veg fyrir að gæði núverandi vega rýrni hvað burðarþol þeirra og yfirborð varðar.“

Hér eru auðvitað boðuð mjög alvarleg tíðindi. Þetta segir okkur að eins og málunum er stillt upp nú í samgönguáætluninni, tökum við í raun og veru þá ákvörðun að láta fjárfestingarnar sem við höfum ráðist í á undanförnum árum með ærnum tilkostnaði og heilmikilli fyrirhöfn, eyðileggjast í höndunum á okkur. Við höfum vegakerfi, ég hef ekki tölurnar á reiðum höndum, sem hlýtur að svara til hundraða milljarða króna. Fjárfestingin sem við höfum ráðist í á undanförnum árum er núna að rýrna í höndunum á okkur. Eignin sem við höfum byggt upp í innviðum samfélagsins, þ.e. vegakerfinu sjálfu, er að verða lakari. Hún verður lakari eftir þetta ár en hún var í ársbyrjun. Þetta er auðvitað ekki viðunandi. Við getum leyft okkur það í þrengingum að draga saman í viðhaldi á vegum um eins árs skeið. Við getum sagt sem svo að það gerist engir stórir hlutir í þeim efnum þó að við drögum svo mikið saman seglin á einu ári. Hættan liggur auðvitað í framtíðinni. Hættan er sú að vegakerfið okkar verði lélegt og verði óviðunandi strax eftir þetta ár. Nógu slæmt verður að hossast í holunum og hvörfunum sem munu myndast í vegakerfinu í sumar, án þess að rönd verði reist við því. Hins vegar er öllu verra ef sú þróun heldur áfram á næstu árum, þannig að vegakerfið láti undan síga í bókstaflegum skilningi. Láti undan síga.

Þess vegna vil ég árétta, vegna þess að við erum í raun og veru með samgönguáætlun til tveggja ára, að við endurskoðun áætlunarinnar á næsta hausti reynum við að auka fjármuni til viðhalds vegakerfisins á næstu árum. Annað er einfaldlega efnahagslega óskynsamlegt. Það getur ekki verið skynsamlegt að standa að vegamálum þannig að vegirnir rýrni og eyðileggist í höndunum á okkur.

Ef maður skoðar tölurnar fyrir þjónustu og viðhaldsframkvæmdir í áætluninni, stendur ein tala fyrir öll fjögur árin. Ég skoðaði þetta og með mjög grófri nálgun hljóðar viðhald bundinna slitlaga upp á einn og hálfan milljarð króna, viðhald malarvega eru 600 milljónir og styrkingar og endurbætur eru tæpir 1,6 milljarðar kr. Þá undanskil ég ýmislegt annað sem þarna er nefnt, eins og vatnaskemmdir, viðhald girðinga o.s.frv. sem eru lægri tölur. Ef ég tek bara þessa þrjá helstu liði, þ.e. viðhald bundins slitlags, malarvega og styrkingar og endurbætur, hljóðar það upp á þrjá og hálfan milljarð króna, sem mér skilst að eigi við þetta fjögurra ára tímabil. Ef það dugar bara fyrir 65% af því sem við þurfum, vantar okkur kannski tvo milljarða í þennan pakka. Veit ég vel að búið er að vinna úr þessum tölum fyrir síðustu tvö árin, en hér erum við að tala um kannski 500 milljónir á ári, gróft reiknað, sem okkur skortir fyrir þennan þátt málsins.

Þetta eru mín almennu viðhorf. Við getum með öðrum orðum leyft okkur svona samdrátt um eins árs skeið. Við þekkjum þetta sjálf, bæði úr rekstri fyrirtækja og í eigin heimilisrekstri að við reynum að trassa viðhaldið, reynum að trassa hluti sem við teljum okkur komast af með. En við getum auðvitað ekki gert það til lengdar. Ef um einstaklinga er að ræða fer húsið að leka. Atvinnutækin verða lélegri o.s.frv. Þetta er dálítið eins og að pissa í skóinn sinn. Ég hef hins vegar skilning á því að þetta geti verið svona um skamman tíma. Það getur hins vegar ekki verið þannig varanlega, ég held við gerum okkur líka grein fyrir því.

Í annan stað vil ég líka halda því til haga sem ég nefndi í ræðu minni við fyrri umr. málsins. Það eru tengivegirnir. Við megum ekki gleyma þeim. Tengivegirnir eru að verða æ mikilvægari bæði með tilliti til atvinnu og byggða. Það er miklu meira um það en áður að menn sæki vinnu um langan veg. Þess vegna verðum við að muna eftir garminum honum Katli, muna eftir tengivegunum sem skipta okkur svo miklu máli. Þar er ekki endilega um mjög stórar tölur að ræða í heildarsamhenginu, en það er nauðsynlegt engu að síður að við höfum þetta í huga.

Virðulegi forseti. Það væri kannski óábyrgt af minni hálfu að tína til einstök verkefni sem maður hefði gjarnan viljað sjá inni í samgönguáætlun, en af mörgu væri svo sem að taka. Við höfum einfaldlega þennan þrönga ramma sem leiðir af eðli málsins og gerir að verkum að framkvæmdir sem við öll hefðum gjarnan viljað sjá, líta ekki dagsins ljós í þessari samgönguáætlun.

Ég ætla þó ekki að ljúka ræðu minni öðruvísi en að fjalla um mál sem er mér gríðarlegt hjartans mál eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir. Það er uppbygging hins svokallaða Vestfjarðavegar, þ.e. vegtengingin frá Austur-Barðastrandarsýslu eða Reykhólasveitinni og í Vestur-Barðastrandarsýslu, til Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Þar hefur allt gengið á afturfótunum eins og við öll vitum. Þetta er þó að mínu mati mikilvægasta og brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi. Það er ekkert landsvæði á Íslandi sem býr við önnur eins ósköp og sunnanverðir Vestfirðir. Það er held ég enginn pólitískur ágreiningur um það. Við erum öll sammála um að þetta verkefni verður að hafa algjöran forgang. Við höfum rætt þetta nokkrum sinnum á þinginu og það hefur ævinlega komið fram mjög mikill stuðningur við að setja meiri fjármuni í þetta og leggja sérstaka áherslu á að leggja Vestfjarðaveg 60, þ.e. frá Þorskafirði, með þverun Þorskafjarðar og að því sem sleppir í nýrri vegagerð á veginum frá Vatnsfirði og að Þverá í Kjálkafirði. Þetta er heilmikið verkefni, kostar mikla peninga, en það er kannski þeim mun sárara að vita til þess að það hefur í raun og veru ekki verið fjárskortur sem hefur hamlað því að við gætum farið í þá vegaframkvæmd.

Í vegáætlun eða samgönguáætlun á undan var gert ráð fyrir því að setja það mikla peninga í verkefnið að það hefði átt að tryggja að við hefðum komist vel af stað með stóra verkefnið frá Gröf í Þorskafirði, út Þorskafjörð, um Hallsteinsnes, Grónes að Melanesi, sem er skammt innan við Skálanes í utanverðum Gufufirði. Þetta er auðvitað stærsta og mikilvægasta verkefnið á þessari leið. Þarna er um að ræða algjört torleiði, vegi sem standa ekki undir nafni. Ef við köllum það vegi sem við ökum flest eftir, vegi með bundnu slitlagi, eru þessi ósköp sem mæta okkur þarna alls ekki vegir. Þetta er eitthvað allt annað fyrirbæri. Þetta eru troðningar. Þetta eru hestakerruvegir sem standast ekki nútímakröfur. Sem dæmi er leiðin yfir Ódrjúgshálsinn sunnanverðan í bleytutíð að hausti eða vori þannig að flutningabílar og vörubílar þurfa stundum að keðja, af því þeir komast ekki upp brattann sem er með 16% halla á handónýtum vegi, háskalegum vegi, og þverhnípi á annan veginn. Þetta gerir að verkum að þetta er allt saman með ólíkindum. Það þarf ekki að hafa orð um hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir byggðina. Það blasir algjörlega við og hefur átt sinn þátt í því að byggðin í Vestur-Barðastrandarsýslu hefur verið að láta undan síga þó auðvitað komi ýmsir aðrir þættir líka við sögu.

Okkur hefur rekið þarna algjörlega upp á sker. Við höfum ekki komist lönd né strönd. Nú er málið þannig að eftir fallinn hæstaréttardóm í október síðastliðnum erum við komin nánast á byrjunarreit. Ef við ætlum að halda áfram að nýju verðum við að hefjast handa við nýtt umhverfismat. Það verður að fara alla kæruleiðina og menn tala um að það geti þýtt þriggja til fimm ára algjöran óvissutíma. Enginn veit hver niðurstaðan verður af öllu því ferli. Því er alveg ljóst að við verðum að fara að höggva á þann hnút.

Það er þeim mun dapurlegra að aðrir hlutar þessarar leiðar eru í sömu óvissunni. Ef verktakinn stendur við áformin á hann að ljúka vegaframkvæmdinni úr Vatnsfirði í Þverá í Kjálkafirði einhvern tímann í haust. Eins og málin standa núna, er leiðin frá Eiðinu við Vattarfjörð að Þverá í Kjálkafirði í umhverfismati. Við vitum ekki enn þá hvort það muni hafa í för með sér kæruferli, við getum allt eins búist við því. En björtustu vonir segja okkur að hugsanlega megi bjóða út framkvæmdir þarna og hefja þær á haustinu 2011, eða a.m.k. þegar liðið er á árið 2011. Það þýðir að á þessari leið þar sem þörfin er brýnust, þar sem mikilvægast er að halda áfram í uppbyggingu vegamála, verður staðan sú að um eins árs skeið verða engar framkvæmdir á þessu svæði. Jafnvel þótt á árinu 2011 sé samkvæmt þingsályktunartillögunni gert ráð fyrir fjármunum til að komast af stað með verkefnið ef ekki annað vill til.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, og draga upp þessa alvarlegu mynd af vegagerð á þessu svæði.

Góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Ég hef stundum áður farið með þessa ræðu í styttri og lengri útgáfu. Þetta er styttri útgáfan að þessu sinni. Við getum auðvitað ekki annað en reynt að einhenda okkur í þetta verkefni. Ég veit að um þetta er pólitísk samstaða. Það er ríkur vilji þingmanna kjördæmisins og ég held þingmanna úr öðrum kjördæmum sem skilja og sjá þessa miklu þörf. Við erum að velta fyrir okkur leiðinni í þessum efnum. Ég er 1. flutningsmaður að frumvarpi ásamt hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni, sem kveður á um að fara í málið með tilteknum hætti. Aðrir vilja skoða málið með öðrum hætti. Ég hef fullan skilning á því og gagnrýni það ekki. En ég segi einfaldlega að við erum stödd á mikilli örlagastundu — ég vil ekki segja ögurstundu, ég vil heldur segja örlagastundu — vegna þess að við getum ekki unað lengur við óvissuna um þessa miklu framkvæmd. Íbúarnir á sunnanverðum Vestfjörðum una því ekki. Íbúarnir á sunnanverðum Vestfjörðum treysta því ekki nema þeir hafi það í hendi. Þeir treysta því ekki að í framkvæmdirnar verði farið, nema þeir hafi það í hendi. Þess vegna vil ég nota tækifærið í þessari umræðu til að brýna okkur öll á því að standa saman um að tryggja að framkvæmdir geti hafist. Það dugir ekki eitthvert hálfkák. Það dugir ekki að þvælast með þessa vegi upp á Hálsa sem verða torleiðir þegar fram í sækir. Við verðum að finna varanlega, skynsamlega lausn á láglendinu. Þess vegna verðum við að höggva á hnútinn, þennan rembihnút (Forseti hringir.) sem búið er að binda og kemur í veg fyrir að hægt sé að halda áfram uppbyggingu vegamála þar sem það er brýnast.