138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um samgönguáætlun. Það sem hér var sagt er allt saman kunnuglegt. Ég vildi aðeins bregðast í andsvari við þeim kafla úr ræðu hv. þingmanns þar sem hann ræðir um þjónustu og viðhald. Það er eðlilega getið um það í nefndarálitinu vegna þess að það þarf meira í viðhald og þjónustu í vegakerfinu. Ég verð hins vegar að láta það koma fram, virðulegi forseti, að frá árinu 2007 til ársins 2009 — það kemur fram í svari sem ég get vonandi dreift á morgun til hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar — hefur verið aukið um hvorki meira né minna en 1,7 milljarða kr. í viðhaldsþátt Vegagerðarinnar. Þetta gerðist sem sagt frá árinu 2007 þegar 3,1 milljarður kr. var til ráðstöfunar til ársins 2009 þegar um var að ræða 4,7 milljarða kr. Hvað varðar þjónustuþáttinn á hið sama við um hann. Árið 2008 um 1.000 millj. kr. bætt í þjónustuþáttinn sem var sennilega mest út af vetrarviðhaldinu.

Virðulegi forseti. Alla þá tíð sem ég sat í samgöngunefnd var ævinlega talað um að það vantaði meira í vetrarviðhald og vetrarþjónustu. Á þessum árum var sem sagt brugðist við því. Það er nauðsynlegt að það komi fram, virðulegi forseti, að í viðhald og þjónustuþættina hefur u.þ.b. 2,6 milljörðum kr. verið bætt í árin 2008 og 2009. Ég er ekki að segja með þessu svari að það sé rangt sem hér hefur verið sagt um viðhald og þjónustu, það vantar alltaf meira í það.

Ég bendi líka á, virðulegi forseti, að í samgönguáætlun er núna talað um nýjar hönnunarforsendur fyrir fáfarna vegi sem er einmitt ætlað til þess að ná fleiri kílómetrum fyrir það fé sem við höfum úr að spila og komast lengra í því sem er það sem kallað er hvað mest á, malarvegunum öllum saman.