138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar sem segja okkur það að ríkisstjórnin sem við sátum í gerði svo margt skynsamlegt, svo sem eins og það að auka fjármuni til viðhalds á vegakerfinu. Auðvitað búum við að þessu. Við höfum lagt mikla peninga í vegakerfið undanfarin ár, byggt það varanlega upp og það gerir okkur kleift að svína dálítið á viðhaldinu um skamman tíma. Það er það sem ég var að segja. Ég get alveg skilið það. Það er hægt að búa við það um skamman tíma ef við vitum að fram undan er síðan eitthvert átak í því að bæta viðhaldið á vegakerfinu. Við getum hins vegar ekki gert þetta til lengri tíma, þá hrynur einfaldlega vegakerfið í höndunum á okkur og vegagerðarmenn hafa til að mynda miklar áhyggjur af því, ekki síst þeir sem sýsla með vegina frá degi til dags og sjá hvað er að gerast.

Ég ætla að taka dæmi. Ég nefndi Vestfjarðaveginn margumrædda, viðhaldið á þeim vegi í sumar verður með hörmungum. Menn munu skakast þar um í holum og hvörfum í sumar og það er ekkert fram undan þar sem gefur okkur til kynna að úr þessu sé að rakna. Við vitum ekki til þess að það eigi að auka fjármuni til viðhaldsverkefna og við vitum það eitt að öll áform um frekari uppbyggingu á vegakerfinu á þessum slóðum eru í algjörri hönk.

Ég fagna hins vegar því sem hæstv. ráðherra sagði um nýjar hönnunarforsendur á fáfarnari vegum. Það er hlutur sem ég hef stundum rætt í umræðu um samgönguáætlun. Vegagerðarmenn, t.d. þeir sem eru að vinna úti á vettvangi, hafa lagt áherslu á að á fáfarnari vegum þurfi ekki endilega að vera sömu hönnunarforsendur og t.d. á vegum þar sem er mikil þungaumferð þannig að þetta er mjög skynsamlegt. Ég fagna því að nú skuli hilla undir að menn fari í þetta með þessum hætti.