138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um þessa aukningu á fjárframlögum í viðhald og þjónustu árin 2008 og 2009. Þetta eru miklir peningar, 2.600 millj. kr. Það er auðvitað út frá þessum tölum sem við höfum neyðst til að skera niður, 10% fyrir þetta ár og erum að vinna með 9% niðurskurð fyrir næsta ár. Það getur vel verið að það komi í ljós núna að það gangi ekki upp að taka þær 300–400 millj. kr. sem við þurfum að taka af viðhaldi fyrir næsta ár og við þurfum að færa eitthvað á milli. Það bíður okkar við fjárlagagerð. Það er veigamikið atriði að á þessum árum tókst þó að auka svo mjög við viðhalds- og þjónustupeninga eins og þarna er talað um, og niðurskurðurinn kemur út frá því.

Hv. þingmaður sem kemur úr Norðvesturkjördæmi gerði eðlilega Vestfjarðaveg að umræðuefni. Þá vil ég geta þess og ítreka það sem ég hef áður sagt að brýnasta atriðið í samgöngumálum á Íslandi er að bæta vegasamgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum. Við ástandið verður ekki unað. Ég ætla ekki að fara yfir í það sem áður hefur verið sagt um dóm Hæstaréttar, málaferli og annað slíkt, um hvað við komumst hægt áfram.

Hv. þingmaður ræddi um veginn frá Eiði yfir í Kjálkafjörð. 1.700 millj. kr. eru ætlaðar í það verk 2011 og 2012 og ég er sæmilega bjartsýnn á að við komumst í framkvæmdir á þessum kafla um þetta leyti á næsta ári. Ég minni á að í nýjustu Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er kynnt matsáætlun og öll sú vinna sem er verið að vinna um umræddan vegarkafla.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði hér, og aðrir þingmenn Norðvesturkjördæmis, höfuðáherslan er á framkvæmdir á þessu svæði og þess sér stað í samgönguáætluninni. Ef eitthvað er þarf að bæta við fjármagni í þennan veg og það verður gert um leið og færi gefst.