138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því upp hvort ekki sé ráð að kalla saman fund í Hollvinasamtökunum. Þar getum við búið til heilagt bandalag og svorfið að hæstv. samgönguráðherra til að tryggja fjármuni í Veiðileysuhálsinn. Að öllu gamni slepptu tek ég undir það að þetta eru verkefni sem við verðum að fara í. Það bíða okkar brýn verkefni norður í Árneshreppi, t.d. á Kjörvogshlíðinni og víðar.

Það er alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, byggðin í Árneshreppi er gríðarlega mikilvæg. Þar gerast jákvæðir hlutir, þangað flytur ungt fólk. Nú er Arinbjörn Bernharðsson að flytja í Norðurfjörð. Þar er hann að byggja upp myndarlega ferðaþjónustu og reisir smáhýsi. Menn sjá þarna ýmis tækifæri í ferðaþjónustunni. Því skiptir auðvitað máli að við búum við betri vegi.

Hins vegar er ekki við mig að sakast í þessum efnum. Ég er bara, eins og hæstv. ráðherra segir stundum, starfsmaður á plani sem reynir að hnika til aurum úr þessum litla sparibauk sem hæstv. ráðherra leggur fyrir okkur, þingmenn kjördæmisins, að ráðstafa úr. Möguleikarnir á fjárveitingum upp á 100–200 milljónir eru ekki miklir eins og í pottinn er búið. Það er óskaplega vont, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að taka peninga úr einu verkefni. Það gerir það að verkum að ekki er hægt að klára verkefnið í Steingrímsfirði. Það er vont að hafa þarna flöskuháls á vegi sem búið er að leggja milljarð í. Við verðum auðvitað að klára þetta verkefni. Með víðsýni okkar þingmanna eigum við að tryggja byggð í Árneshreppi og tryggja að þessir litlu fjármunir sem við þurfum fari í veginn. Við leggjum þessa fjármuni (Forseti hringir.) fram úr hinum tóma ríkissjóði. Þannig getum við með almennilegum (Forseti hringir.) hætti staðið að uppbyggingu vega þarna norður eftir.