138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans ágæta innlegg hérna. Það er að sjálfsögðu hárrétt að við þurfum að vera með mjög opinn huga þegar við komum að því að reyna að finna leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir eins og aðrar framkvæmdir, hvort sem það eru framkvæmdir við sjúkrahús eða við orkuframleiðslu — ég legg áherslu á að ég geri mun á framleiðslufyrirtæki á orku og orkunni sjálfri í jörðinni — eða svo vegaframkvæmdir.

Ég lýsi mig sammála því sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, við þurfum að eiga þessa umræðu, málefnalega umræðu um hvernig við ætlum að standa að frekari fjármögnun. Ég útiloka ekki fyrir fram neitt í því. Ég vil þá koma því hér að að það er mjög vandasamt að leggja á veggjöld með einhverjum hætti því að það verður alltaf að horfa til þess að það sé verið að gæta jafnræðis og sanngirni í slíkum gjöldum. Við hljótum að velta fyrir okkur þegar við ræðum þessi mál að skoða heildarmyndina: Er t.d. eðlilegt að rukka veggjöld út úr höfuðborginni, um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, en rukka ekki veggjöld á stórum og mjög þungum og dýrum umferðaræðum innan höfuðborgarinnar sem ríkið stendur jafnvel að? Ég velti þessu hér upp. Er ekki mikilvægt að við skoðum það líka, ekki síst þar sem er ekkert val? Sums staðar er ekkert val, maður þarf að fara tiltekna leið og greiða þá gjald. Auðvitað geta menn sagt að það sé hægt að keyra fyrir Hvalfjörðinn, en við vitum að það er mjög dýrt líka að keyra fyrir Hvalfjörðinn, það er líklega ódýrara að fara í gegnum göngin en að splæsa bíl og bensíni hina leiðina.

Þetta er umræða sem við verðum að taka af sanngirni (Forseti hringir.) og algjörum heiðarleika.