138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[12:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lagði hér af stað í ferðalag um landið, ef ég skildi hann rétt, og verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldi á ræðum hans í dag þegar hann nálgast náttúruperlur Íslands, margar hverjar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þá umræðu sem átti sér stað áðan hjá þeim er hér stendur og hæstv. utanríkisráðherra um gjaldtöku, veggjöld í raun. Eigum við ekki bara að orða það þannig, tala hreint út? Það var verið að tala um veggjöld. Getur það átt rétt á sér að taka upp slík gjöld á einhverjum ákveðnum umferðaræðum eða við ákveðnar aðstæður og slíkt?

Það sem ég er að velta fyrir mér er tvennt, í fyrsta lagi hvernig standi á því að þessi leið sé farin í stað þess að ríkið fái í raun fjármagn að láni hjá lífeyrissjóðunum. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er hugmyndin að lífeyrissjóðirnir okkar fjármagni þetta með einhverjum hætti eða að mestu leyti. Getur verið að þeir treysti ekki ríkissjóði til þess að lána eða er eitthvað annað sem kemur í veg fyrir það, hugsanlega krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna lántöku ríkisins, að ríkið megi ekki skuldsetja sig meira en það hefur gert í dag? Mig langar að fá skoðanir hv. þingmanns á þessu.

Eins langar mig að vita hvort hann telji ekki að þegar verið er að fara í gjaldtöku sem þessa þurfi að gæta að jafnræði þegnanna, t.d. út frá því að fólk í nágrenni Reykjavíkur sækir mjög mikið þjónustu hingað í höfuðborgina, alls konar þjónustu. Þarf ekki að horfa til þessara þátta?