138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[12:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni, að þetta kerfi þar sem bílar eru staðsettir í gegnum gervitungl og reikningar gefnir út eftir því hvar er keyrt og hvað er notað af samgöngumannvirkjum og annað slíkt — það er náttúrlega augljóst að þetta getur brotið friðhelgi einkalífsins, getum við sagt, með því að það er hægt að fylgjast með.

Ég mundi aldrei nokkurn tíma sætta mig við að kerfi af þessu tagi yrði tekið upp fyrr en persónuvernd hefði verið tryggð. Það er auðvelt að sjá þetta fyrir sér með nútímatækni, eitthvert merki fer úr bílnum upp í gervitungl, gervitunglið staðsetur bílinn og síðan fer merkið niður í einhverja tölvu sem gefur út reikning mánaðarlega og það er algjörlega í svörtu boxi þannig að enginn sér nokkurn tímann nokkuð. Það er einfalt að sjá það fyrir sér. Þá er aftur á móti erfiðleikum háð að fara og kvarta yfir reikningnum, að fá að sjá hvað er verið að rukka mann fyrir. En nú er unnið að því að lagfæra þetta tæknilega til að tryggja persónuvernd og það verður spennandi að sjá hvernig þeir hlutir þróast í framtíðinni.

Mér finnst það heillandi hugsun að hægt verði að gera þetta svona en með fyrirvara um persónuvernd vegna þess að mér er mjög annt um friðhelgi einkalífsins í þessu sambandi.