138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og við vitum öll munu leiðtogar Evrópusambandsins væntanlega ákveða á þjóðhátíðardaginn okkar, þann 17. júní, að hefja viðræður við Íslendinga. Í frétt sem Reuters fréttastofan birti í morgun og er greint frá á mbl.is kemur fram að Hollendingar og Bretar hafi sagt að þeir muni ekki koma í veg fyrir aðildarviðræður við Íslendinga enda hafi þeir fengið tryggingu fyrir því að Íslendingar muni standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart ríkjunum tveimur þegar kemur að Icesave-skuldbindingunum.

Þetta eru auðvitað stórkostlegar fréttir og það vekur undrun ef fréttin reynist rétt að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki hafa (Forseti hringir.) gert þinginu grein fyrir því ef slíkir samningar eða slík loforð hafa verið gefin. Það kemur (Forseti hringir.) ekki til greina að Alþingi Íslendinga fari í sumarfrí öðruvísi en að hæstv. ráðherrar geri þinginu fulla grein fyrir því hvort fréttin er rétt eður ei.