138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að ef formleg beiðni kemur um að utanríkismálanefnd sé kölluð saman til að fjalla um þetta mál verður það að sjálfsögðu gert og verður óskað eftir því að þeir ráðherrar sem tilgreindir eru sérstaklega komi á þann fund og reifi málið við utanríkismálanefnd. Í þingskapalögum er ákvæði um að ef tiltekinn fjöldi nefndarmanna óskar eftir fundi skuli fundur boðaður og það verður að sjálfsögðu gert.

Varðandi hitt málið vil ég segja að allir hafa lýst því yfir að Íslendingar ætli að sjálfsögðu að standa við skuldbindingar sínar og ég hef heyrt formenn stjórnmálaflokkanna, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, lýsa því yfir. Það er því ekkert nýtt og ekkert sérstakt í því af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Ágreiningurinn hefur auðvitað staðið um það hverjar skuldbindingarnar eru nákvæmlega. Sá ágreiningur er ekki til lykta leiddur og verður ekki til lykta leiddur í tengslum við hugsanlega afgreiðslu (Forseti hringir.) leiðtogaráðs Evrópusambandsins um að hefja viðræður í samræmi við þá þingsályktun sem (Forseti hringir.) var samþykkt 16. júlí í fyrra.