138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hv. formanns utanríkismálanefndar að utanríkismálanefnd verði kölluð saman hið fyrsta með þeim ráðherrum sem hér var getið um. Það er einkennilegt að við skulum fá upplýsingar um það núna að búið sé að samþykkja að Ísland verði tekið á dagskrá Evrópusambandsins ef Bretar og Hollendingar fái þá greiðslu sem þeir telja að við eigum að greiða þeim upp í Icesave-reikningana. Þetta er hreint með ólíkindum. Hvaða baktjaldamakk er hér á ferðinni, ég spyr? Hvar er jafnræðisregla Evrópusambandsins um að allir skuli vera þar jafnir? Hvers vegna þessar kúganir, hótanir og þvinganir?

Gæti þetta tengst orðum hins þýska aðila sem fer með málefni Norðurlandanna í Evrópusambandinu, að þeir ásælist svona auðlindirnar okkar? Er þetta ávísun á það að Bretar og Hollendingar fá fyrir fram einhvern arð af auðlindum okkar eða (Forseti hringir.) fái þær jafnvel á undan öðrum þjóðum við það eitt að ganga (Forseti hringir.) í Evrópusambandið? Þessu verður að svara (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd og það núna.