138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:46]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Samgönguáætlun er loksins til umræðu. Hún hefur legið á milli hluta í á annað ár og nánast ekkert verið fjallað um hana í samgöngunefnd Alþingis fyrr en á lokastigi. Endurskoðunin hefur verið með mjög sérstökum hætti. Hún hefur byggst á vinnu innan ráðuneytis en ekki vinnu á Alþingi. Það er einstakt í áratugasögu samgöngunefndar Alþingis. Það hefur verið farið fram hjá Alþingi við gerð grunnáætlana og málinu hleypt út í bæ, eins og sagt er, til gesta og gangandi að geðþótta samgönguráðuneytisins. Þessu þarf að koma í samt lag aftur þannig að hægt sé að reikna með því að unnið sé samkvæmt vilja alþingismanna. Þeir hafa fullt umboð til að taka af skarið hver í sínu kjördæmi og setja ákveðna verkþætti í forgang, hvað svo sem líður ráðgjöf Vegagerðarinnar. En þetta hefur verið tekið meira og minna af þingmönnum og fært yfir í embættismannakerfi samgönguráðuneytisins. Þessu er ástæða til að mótmæla mjög harðlega, virðulegi forseti.

Ef maður dettur niður í ýmsa pósta í samgönguáætlun er strax á fjórðu síðu sérstök fjármögnun samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Þar er m.a. talað um stækkun flugstöðvar á Akureyri og flughlað við flugstöð. Þessar hugmyndir eru með ólíkindum. Vegna aðstæðna af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli var mikið álag í nokkra daga á flugvellinum á Akureyri og hann þjónaði sem millilandaflugvöllur vegna ösku í háloftunum. Þó að slíkar aðstæður komi upp er ástæða til að halda ró sinni og meta hver staðan er. Sagan segir að reikna megi með eldgosum í Eyjafjallajökli á 200 ára fresti en allt í einu á að fara að byggja upp á Akureyri alþjóðlega flugstöð sem kostar um milljarð króna. Það eru áform hæstv. samgönguráðherra. Það er ekki bara það að hæstv. samgönguráðherra hafi stillt vegáætlun þannig upp að eitt kjördæmi skagar langt fram úr í kostnaðartölum við framkvæmdir og hugmyndir að vegum, göngum, flugvöllum og öðru, sem nemur tugum milljarða — önnur kjördæmi eru eins og hjáleigur í því sambandi. Svo virðist einnig vera að hæstv. samgönguráðherra ætli að kaupa kjördæmi sitt í heilu lagi með fjárframlögum í gegnum samgönguáætlun. Þetta er líka einsdæmi. Þó svo að oft hafi ráðherrar verið frekir til fjárins fyrir kjördæmi sitt fer þetta langt fram úr öllu sem þekkist. Þetta þarf að skoða og fara í saumana á, þetta er ámælisvert og þetta er algjörlega óboðlegt.

Alþjóðleg flugstjórnarmiðstöð á Akureyrarflugvelli er eitthvað sem enginn af þeim starfa í flugmálum, hvorki hjá stofnunum í kringum Keflavíkurflugvöll, flugfélögum eða annars staðar, telja ástæðu til að reisa. Enginn þeirra hefur mælt þessu bót, þessum hugmyndum, og þess vegna þarf að stöðva þær og koma þeim í skynsamlegan farveg. Það er nefnilega fólkið í landinu, það eru farþegarnir, sem mun þurfa að borga kostnaðinn við alþjóðlega flugstjórnarmiðstöð á Akureyri. Egilsstaðaflugvöllur getur í öllum tilvikum gegnt sama hlutverki, þó að engin ástæða sé til að nota ekki Akureyri, en það gengur ekki að miða við algjör undantekningaratvik eins og komu upp í sambandi við eldgosið í Eyjafjallajökli.

Ástæða er til að vekja athygli á þessu. Þetta er svo pólitísk hugmynd og staðbundin að hún er ekki boðleg við þær aðstæður sem um er að véla í þjóðfélaginu í dag.

Í samgönguáætlun, virðulegi forseti, er liður sem heitir Sjóvarnargarðar. Víða um landið er mjög brýnt að vel sé að verki staðið í sambandi við sjóvarnir. Það er nánast í flestum sjávarplássum landsins, ekki síst á Vestfjörðum og einnig víða annars staðar. Þetta eru hlutir sem þarf að tryggja að gangi fram en svo koma líka hlutir eins og beðið er eftir til að mynda varðandi Mýrdalshrepp þar sem byggðin er í stórhættu vegna þess að sjóvörn hefur ekki verið byggð upp þar á eðlilegan hátt á undanförnum árum. Land þar hefur gengið inn á annað hundrað metra á síðastliðnum 15 árum og einungis eru um 60 metrar í næstu byggingar á því svæði í dag. Þetta er þó í áætlun, því ber að fagna, en það skiptir miklu máli að fylgja því fast eftir að bjóða verkið út sem fyrst og koma framkvæmdinni í höfn þannig að ekki sé verið að bjóða hættunni heim.

Það liggur líka fyrir að skipuleggja þarf mjög ákveðið byggingu stórskipahafnar í Ölfusi og sama má segja um Grindavík þar sem ljóst er að öll þróun og aðstaða kallar á að það verði gert bitastæðara en nú er til þess að sinna þjónustu stærri skipa, bæði í fragtflutningum og flutningum með stórum skipum sem flytja ferðamenn. Þetta liggur í lausu lofti í áætluninni, nema að fyrir liggja upplýsingar, sem þegar er búið að vinna, til að mynda varðandi möguleika í Ölfusi og Grindavík, en því þarf að fylgja eftir með úttekt, skipulagningu og áætlun.

Það er allt innan eðlilegra marka og allt annað en það sem er í hendi varðandi alþjóðlega flugstjórnarmiðstöð á Akureyri, það er náttúrlega bara flipp hjá ráðherranum að vera að fjalla um það í alvöru. Ég er sannfærður um að hv. þingmenn kjördæmisins taka undir það því að þeir hafa alla tíð verið mjög nýtnir og skynsamir og sanngjarnir í kröfum um aðstöðu í því ágæta kjördæmi þó að stundum hafi meira verið dekrað við fólk þar en annars staðar.

Virðulegi forseti. Það er fjallað um vegi sem tengjast til að mynda Suðurkjördæmi, Sprengisandsleið, Mýrdalsjökulsveg og Landeyjahafnarveg. Þar sér fyrir endann á merkilegum vegaframkvæmdum, Bræðratunguveg um Hvítá, Laugarvatnsveg að Þingvöllum, sem í daglegu tali er kallaður Lyngdalsheiðarvegur. Þannig má telja upp merkilega áfanga sem eru í ferli og sér fyrir endann á. Síðan koma þættir sem lúta að því að menn þurfa að hugsa út fyrir rammann, hugsa fram í tímann, hugsa um skref sem munu gjörbreyta samgöngum á Íslandi, sem munu umfram allt annað færa byggð að byggð, færa saman Suðurland, Suðvesturland, Norðausturland og Norðurland. Það skiptir miklu máli að opna allar leiðir milli Norðurlands og Suðurlands og stytta þannig ferðatímann. Með því að ljúka eðlilegri vegauppbyggingu um Sprengisandsleið, um Kjalveg, austur á Hérað, Gæsavatnaleið út frá Sprengisandi, er verið að stytta ferðatíma á milli þessara landshluta sem yst eru í rammanum niður í þrjá til þrjá og hálfan tíma. Þannig að austan af Héraði, norðan úr Eyjafirði, eða öfugt, yrði leiðin inn á höfuðborgarsvæðið þrír til þrír og hálfur tími. Þetta eru hlutir sem menn eiga að hugsa um, stíla upp á og setja á kortið og fylgja eftir af markvísi og áræði. Það er þetta sem lækkar kostnað fyrir fólkið á landsbyggðinni, það er þetta sem styrkir landsbyggðina í heild gagnvart forréttindasvæði höfuðborgarinnar og það er þetta sem þarf að tryggja þannig að fólkið á landsbyggðinni, hvort sem er á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi eða Vesturlandi, verði ekki út undan.

Eina tengingin sem er út undan í þessu, þó að maður miði við að Uxahryggir verði byggðir upp með eðlilegri tengingu inn á Suðurland, því að það styttir alla leiðina inn á mesta þéttbýli landsins, eru Vestfirðir. Það eru hlutir sem erfitt er að eiga við af náttúrufarslegum ástæðum en þó mun það koma til góða þegar menn fara í jarðgangaframkvæmdir á því svæði. En allt hitt svæðið, landsbyggðarsvæðið hringinn í kringum landið, þarf á þessum vegum að halda, þessum tengingum um Sprengisand, Gæsavatnaleið, Kjalveg og Uxahryggi. Það er ekki boðlegt lengur að hugsa um framkvæmdir í vegáætlun eins og menn séu að reikna með því að vera á sauðskinnsskóm næstu aldirnar, eða að fara á hraða traktorsins á milli landshluta.

Það er margt spennandi í þessari vegáætlun og það er ekkert óeðlilegt. Mikið fjármagn er lagt í hana. Það er því miður unnið að mörgu án þess að unnið sé á eðlilegan hátt, án þess að unnið sé með ráðum og dáð af þeim aðilum sem eiga að véla um það og þar vega þyngst þingmenn Íslendinga, samgöngunefnd, sem á samkvæmt reynslu, hefðum og lögum að koma meira að þessum málum en til að mynda hefur verið við smíði þessarar samgönguáætlunar.

Samgönguráðuneytið á ekki að komast upp með að rétta samgöngunefnd Alþingis einhverjar pappírspakkningar með tillögum sem meira og minna hafa verið unnar úti í bæ. Það á ekki að viðgangast. Það afsakar ekkert þó að menn séu nú að berjast við ákveðna stöðu í fjármálum landsins. Það er gríðarlega mikið fjármagn sem er í vegaframkvæmdum og í rauninni það sama og var fyrir nokkrum árum í árlegum áætlunum um vegaframkvæmdir á Íslandi og þótti bara nokkuð gott. Síðan komu inn sértæk verkefni sem hafa verið leyst á ákveðinn hátt og það er líka eðlilegt að nýta þann möguleika þegar betur árar. En fyrst og fremst þarf að tryggja að þetta sé gert í réttri röð og á eðlilegan hátt.

Það er til að mynda Suðurstrandarvegur. Því ber að fagna að á áætlun er að bjóða lokakafla þess verks út í haust og framkvæma það á næsta ári. Ég hefði að sjálfsögðu viljað spyrja hæstv. samgönguráðherra ýmissa spurninga til að fá svör hér í umræðunni en hann hefur gilda fjarvistarsönnun, fjarvistarboð, og við því er ekkert að segja. Slíkir hlutir geta komið upp og því verður það að bíða betri tíma að fara nánar í saumana á þessum hlutum.

Ég vil þó nefna Þrengslaveginn frá Suðurlandsvegi og niður Þrengslin að Þorlákshöfn og undirlendinu í Ölfusi. Þar hefur staðið upp á Vegagerðina að ljúka við ákveðna þætti, sérstaklega hvað varðar lýsingu á þeirri leið sem samið hefur verið um milli Ölfushrepps, Sveitarfélagsins Ölfuss, og Hitaveitu Reykjavíkur, Orkuveitu Reykjavíkur. Þarna eru hlutir sem þarf að klára. Það stendur upp á Vegagerðina í þeim efnum, sem hefur verið með dynti í meðferð þess máls, eins og Vegagerðin reyndar er fræg fyrir ef hugmyndin er ekki hennar. Hún er fræg fyrir það, blessuð Vegagerðin, að reikna slíkar hugmyndir helst niður til Húsavíkur-Jóns. (Gripið fram í.) — Ha? Hvað segir hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Eins og allir norðanmenn vita er Húsavíkur-Jón neðar þeim sauðsvarta.

Þetta allt þarf að hafa í huga þegar gengið er til verka og skiptir miklu máli að hugsað sé út fyrir rammann sem er vegvísirinn inn í framtíðina. Þá þarf að tryggja samfellu í því, tryggja að samstaða sé um að opna leiðirnar milli landshlutanna. Það er nú svo að mörg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem þjónusta landsbyggðina hafa engan áhuga á þessu, þau mundu græða minna á því að bæta samgöngur milli höfuðborgarinnar og annarra landshluta á Íslandi. Þá þarf að keyra yfir það og þingmenn allir þurfa að standa saman um að úr því verði bætt eins og kostur er og skynsamlega unnið. (Forseti hringir.)