138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:36]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Eins og áður hefur komið fram í ræðum þingmanna sem hafa talað um málið er um að ræða eins konar bráðabirgðaáætlun þar sem verið er að festa í sessi og færa til bókar þegar orðnar framkvæmdir. Þannig er hún að mestu leyti uppbyggð, þessi samgönguáætlun sem við komum væntanlega til með að samþykkja í dag eða á morgun. Hér eru samt nokkur ný verkefni þótt þau séu bara fá, eins og ég segi, og það sem við getum rætt um efnislega er hvort skynsamlega sé forgangsraðað eða ekki.

Ástæða þess að ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara er einkum sú að þarna eru gefin vilyrði um framkvæmdir sem ég leyfi mér að efast um að íslenska þjóðin hafi efni á að lofa nokkru um á þessari stundu. Það eru tvenn jarðgöng, annars vegar jarðgöng austur á landi, Norðfjarðargöng, og hins vegar undir Dýrafjörð, svokölluð Dýrafjarðargöng.

Nú þarf enginn að velkjast í vafa um að ekkert vil ég vinum mínum á Vestfjörðum frekar en að þau geti lifað á því svæði um aldur og ævi og ég geri mér mætavel grein fyrir þýðingu Norðfjarðarganga fyrir uppbyggingu og búsetu austur á landi. Hins vegar lít ég alls ekki á það sem sjálfgefinn hlut að það séu jarðgöng í hverri einustu samgönguáætlun sem Alþingi samþykkir. Stundum þurfum við að bregða út af þeim vana og forgangsraða fjármunum öðruvísi. Eins og fram kemur líka í nefndaráliti samgöngunefndar deilum við öll þeim áhyggjum að ekki sé nægilega miklum fjármunum varið í viðhald vega, og margir gesta sem á fund nefndarinnar komu vöruðu við því að svo gæti farið að vegakerfið mundi gliðna í sundur ef ekki væri hugað að viðhaldi vega á næstu árum.

Þess vegna setti ég spurningarmerki við hvort rétt væri að lofa tvennum jarðgöngum við þessar aðstæður, en svo hefur það gerst í millitíðinni að samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um stofnun opinbers hlutafélags um samgönguframkvæmdir og þar er m.a. kveðið á um lagningu stofnbrauta út frá höfuðborgarsvæðinu og hugsanlega gerð Vaðlaheiðarganga. Ég velti fyrir mér hvort það sé skynsamlegra að setja jarðgöngin sem ég nefndi áðan inn í þá áætlun og gera þá ráð fyrir að innheimta þótt ekki sé nema hluta af þeim kostnaði sem af því hlýst að gera þessi tvenn jarðgöng. Það er væntanlega aldrei fjárhagslega arðbært, ég geri mér grein fyrir því, en við verðum að átta okkur á því að vegafé er naumt skammtað, það er þannig og verður örugglega þannig á næstu árum.

Sú tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun sem hér er til umræðu er um margt gamaldags plagg en samt sem áður gætir ákveðinnar nýrrar hugsunar í henni. Inn eru komin metnaðarfull markmið á sviði samgöngumála, um greiðari samgöngur, um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öryggi í samgöngum og jákvæða byggðaþróun. Hins vegar er ekki endilega mjög mikið samhengi á milli þessara markmiða og þess sem við sjáum í tölum og áætlunum um framkvæmdir í samgönguáætluninni.

Það er að vísu mjög ánægjulegt að sjá að inn eru komnar 200 millj. kr. í lagningu hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu sem fellur algjörlega að fyrsta markmiði þessarar samgönguáætlunar um að unnið verði að því að efla reiðhjólanotkun, m.a. með markvissri uppbyggingu reiðhjólastíga.

Annað sem við sjáum ekki eins vel er markmið um greiðari almenningssamgöngur en ég ætla að vona að við munum sjá þess stað í þeirri samgönguáætlun sem lögð verður fram á haustþingi að þar fylgi markmið og fjárhagslegar áætlanir.

Í gegnum tíðina hefur samgönguáætlun verið sú áætlun sem landsbyggðarpólitíkin hefur snúist um og ég mundi halda að hún ætti mikinn þátt í þeirri spennu sem gjarnan er á milli höfuðborgarsvæðis og annarra landshluta. Ég hef sagt það áður í þessum stóli að mér finnst að við, þessir fáu íbúar í þessu stóra landi, eigum að sameinast um að hér séu sterk höfuðborg og sterk sóknarsvæði um allt land. Við lifum ekki án sterkrar höfuðborgar og við lifum ekki án sterkra sóknarsvæða um allt land. Við verðum að viðurkenna það hvar sem við búum, hvaðan sem við erum komin, að þannig er það bara.

Fyrr í umræðunni ræddu hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og hæstv. utanríkisráðherra um vegagerð á Vestfjörðum og þá einkum norður í Árneshreppi á Ströndum. Ég deili væntumþykju þeirra á Vestfjörðum enda bjó ég og starfaði með Vestfirðingum í mörg ár. Mér leið vel á Vestfjörðum og ég vil hag þeirra sem mestan og bestan. Ég verð þó að viðurkenna að mér þætti meiri reisn yfir Alþingi ef við ræddum samgöngumál í stærra samhengi og ræddum byggða- og svæðaþróun út frá öðrum forsendum en vegarspottum hér og þar um landið. Mér finnst við eiga að vera komin lengra í umræðunni en að við höngum enn í einstökum vegarspottum.

Aftur að þeirri samgönguáætlun sem er til umræðu núna. Eins og ég sagði ligg ég ekki á þeirri skoðun minni að hún sé gamaldags plagg en ég verð þó að segja mönnum það til hróss að hún hefur tekið mikilvægum breytingum frá því sem áður var. Ef ég þekki rétt var í fyrsta sinn árið 2003 sett fram samþætt áætlun á sviði samgöngumála, þ.e. þar sem fléttað var saman siglingamálaáætlun, flugmálaáætlun og vegáætlun. Hún er hins vegar enn því marki brennd, þessi ágæta samgönguáætlun, að henni er skipt niður á kjördæmi sem ýtir undir það að menn ræða einstaka vegarspotta í einstökum kjördæmum í stað þess að horfa á stærri mynd.

Við eigum að tileinka okkur heildarhugsun í svæðaþróun þar sem horft er á landið sem eina heild og síðan einstök sóknarsvæði og tengingu þeirra á milli. Við þingmenn eigum að beita okkur fyrir okkar sóknarsvæði og þá eigum við ekki að beita okkur í bútasaumi, við eigum að beita okkur í þeirri stóru hugsun sem hvert einasta landsvæði þarf á að halda. Við eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að til verði sterk sóknarsvæði þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og sérfræðingar eru sammála um hvar eigi að vera miðstöð opinberrar þjónustu, hvar sóknarfæri séu í atvinnulífinu, hvar heilsugæslunni sé best fyrir komið, hvers konar heilsugæsla, hvar við eigum að byggja upp öflugar menntastofnanir og annað því um líkt. Við eigum að samþætta þessa hugsun og vegirnir eru eingöngu til að þjóna þeim markmiðum sem þar eru sett og horft er til.

Á Írlandi, svo dæmi sé tekið, er mótuð sóknaráætlun til sjö ára í senn þar sem samgöngur eru fléttaðar inn sem mikilvægur þáttur til að ná fram markmiðum um heildstæða þróun einstakra svæða. Írska samgönguáætlunin — ég er með hana hér fyrir framan mig — er upp á þrjár síður en okkar samgönguáætlun — þessi hér sem er þó bara til bráðabirgða — er upp á tæpar 90 síður. Ástæðan er sú að Írar hafa lært að búa til og fylgja eftir almennilegri, faglegri áætlanagerð. Sóknaráætlunin þeirra er að vísu upp á 200 síður þar sem horft er heildstætt yfir styrkleika einstakra landshluta. Þar setja menn markmið fyrir allt landið um það hvernig eigi að þróa þessa málaflokka sem ég gat um áðan. Síðan fylgir þessi ágæta samgönguáætlun þar sem kynntar eru fjármögnunarleiðir, áherslur í helstu samgöngumálum, en síðan eiga þeir einnig sérstaka áætlun um sveitavegi sem eiga að verða til þess að efla t.d. landbúnað og ferðaþjónustu bænda.

Ég ætla að nefna eitt dæmi máli mínu til skýringar. Nú blasir við að hið mikilvæga samgöngumannvirki Landeyjahöfn verður tekið í notkun á þessu ári. Það þýðir að allar forsendur um uppbyggingu atvinnulífs, heilbrigðisþjónustu, fræðslu o.fl. í Vestmannaeyjum og í Rangárvallasýslu munu breytast. Ég veit að sveitarstjórnarmenn á þessum svæðum eru farnir að tala saman um það hvernig megi nýta þetta mannvirki. Ég vil nefna í þessu sambandi þingsályktunartillögu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um að kannaðir verði kostir þess að hefja ferjusiglingar frá Landeyjahöfn í gegnum Vestmannaeyjar. Mörg önnur sóknarfæri munu skapast við komu hafnarinnar og verður ánægjulegt að fylgjast með því hvernig málum vindur fram.

Þá vaknar sú spurning, virðulegur forseti, hvort komi á undan, hænan eða eggið. Ef við höldum okkur við Bakkafjöru, skoðum málið út frá samþættri áætlanagerð og horfum á sóknarsvæði suðursvæðis er ég ekki sannfærð um að mannvirkið sem ætlað er að tengja saman Vestmannaeyjar og meginlandið hefði endilega verið staðsett þar sem það er núna ef við hefðum nálgast viðfangsefnið út frá víðara sjónarhorni. Það er alveg ljóst að það var mjög mikilvægt og er enn mjög mikilvægt að Vestmannaeyjar fái sterka tengingu við meginlandið. Þar eru miklir hagsmunir í húfi. Hins vegar mun mannvirkið sem slíkt, Landeyjahöfn, laða að sér ýmiss konar starfsemi. Ég ætla rétt að vona að höfnin verði ekki eyland þar sem hún verður. Í tímans rás mun það kalla á mikla uppbyggingu og þjónustukjarni mun myndast í kringum Landeyjahöfn. Útflytjendur, og innflytjendur ýmiss konar vöru, og ég tala nú ekki um ef við ætlum að hefja ferjusiglingar frá Landeyjahöfn í gegnum Vestmannaeyjar, munu að sjálfsögðu byggja upp ýmiss konar þjónustu í kringum höfnina. Sú uppbygging kallar á ýmiss konar fjárfestingu, bæði hins opinbera og einkaaðila, og það er alveg ljóst að þeir fjármunir munu þá ekki nýtast annars staðar.

Þá segi ég aftur, virðulegur forseti: Hv. þm. Árni Johnsen kom inn á það í ræðu sinni áðan að það þyrfti að byggja upp öfluga stórskipahöfn í Grindavík og öfluga stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Hvar á Suðurlandi ætlum við að hafa öfluga stórskipahöfn? Svona ákvarðanir þurfa að vera vel ígrundaðar og skoðaðar í stærra samhengi en því að hægt sé að taka ákvörðun um stórskipahöfn hér og stórskipahöfn þar. Þetta þarf að skoða í miklu víðara samhengi en hér hefur verið nefnt.

Svo spyr ég enn, virðulegur forseti: Hvar liggur sú stefna að mikilvægur þjónustukjarni á suðursvæði verði byggður upp í Bakkafjöru en ekki núverandi þéttbýlisstöðum? Hvar hefur sú stefnumótandi ákvörðun verið tekin? Ég hef ekki heyrt um hana en ég hef hins vegar tekið þátt í þjóðfundi sóknarsvæðis og kynnt mér áætlanagerð annars staðar og þar er ekki unnið samkvæmt hugmyndafræðinni um að byrja á mannvirkinu og fara svo í uppbygginguna. Ísland mun ekki byggjast upp á vegarbútum hér og þar um einstök kjördæmi.

Einhver kann að spyrja: Er ekki konan alveg „gaga“, að vera landsbyggðarkona, landsbyggðarþingmaður, nýkomin á þing og ætla að segja svona vinnubrögðum stríð á hendur? Ég veit ekki hvort það er raunverulega þannig en þetta er sú ímynd sem þingmenn landsbyggðarinnar hafa haft á sér, þ.e. að geta reddað bút hér og bút þar, ég tala nú ekki um rétt fyrir kosningar.

Ég held hins vegar að ég geri umbjóðendum mínum í Suðurkjördæmi miklu meira gagn með því að leggjast á árarnar með þeim með að horfa á suðursvæði og sóknarsvæði Reykjaness, og höfuðborgarsvæðisins ef því er að skipta, að við leggjumst saman á árarnar og veltum fyrir okkur hvar sóknarsvæði suðursvæðis og Reykjaness liggi, hvað séu styrkleikar og hvað veikleikar, hvað þurfi til þess að byggja upp atvinnulíf, hvaða auðlindir séu til staðar sem hægt er að vinna úr og hvaða menntun við þurfum að styrkja á þessum einstöku svæðum. Þegar við erum komin með stóru myndina veltum við fyrir okkur hvers konar samgöngumannvirki þurfi til að þær væntingar og þau markmið gangi eftir.

Ég er t.d. sannfærð um að samkvæmt sóknaráætlun, sem verður lögð hér fram í haust, þar sem suðvesturhornið er kynnt sem eitt sóknarsvæði munu bæði Árborg og Reykjanesbær njóta mjög góðs af því og þeirri hugsun sem þar er inngróin, þ.e. að við ætlum að búa til þétt og sterkt sóknarsvæði á suðvesturhorninu. Til þess að svo megi verða þurfum við góðar samgöngur og við framfylgjum þeirri hugsun með hugsanlegu hlutafélagi um samgöngur í kringum stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu.

Til að hreyfa við þessari hugsun og ýta henni úr vör þurfum við að komast út úr gömlum vinnubrögðum, gamaldags samgönguáætlun. Við þurfum að afnema lög um samgönguáætlun, a.m.k. breyta þeim, vegna þess að 1. gr. laganna — þótt ekki séu þau gömul — endurspeglar þessa þröngu nálgun við viðfangsefnið sem er samgöngur í landinu.

1. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til tólf ára“ o.s.frv.

Með öðrum orðum er ýtt undir þá hugsun að samgöngur séu markmið út af fyrir sig. Samgöngur þjóna hins vegar engum tilgangi ef enginn ætlar að nýta þær til framvindu fyrir atvinnulíf og mannlíf á einstökum svæðum. Þær eru ekki bara til sjálfra sín vegna. Við eigum að hætta þessum bútasaumsvinnubrögðum og bútasaumshugsunarhætti í íslenskri áætlanagerð. Við eigum að horfa heildstætt á það hvernig við ætlum að vinna þetta land og byggja það til framtíðar. Við eigum öll að leggjast á árarnar um að horfa á það með metnaðarfull markmið að leiðarljósi, en við eigum að hætta að horfa á það hvort við ætlum að leggja vegarbút hér eða vegarbút þar eða bæta einum steini við einhvern sjóvarnargarð bara vegna þess að við þann sjóvarnargarð kynni að vera öflugur stuðningsmaður einstakra þingmanna.