138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að taka undir þessi orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Sá sem hér stendur hefur tekið eftir því og haft stundum á orði að umhverfisvernd sé bundin við hinar dreifðari byggðir en svo megi í skjóli nætur t.d. umvefja sjálfa Hellisheiðina rörum án þess að nokkur bindi sig þar í gadda eins og gert hefur verið víða úti á landi þegar sömu aðferðir hafa verið viðhafðar. Það er því ekki alltaf samræmi á milli aðgerða þess ágæta fólks sem berst fyrir umhverfisvernd þegar nær dregur Reykjavík og þegar komið er út á land. Ég tek því undir það og vek athygli á því að í þessu efni hafa margir umhverfisverndarsinnar hér á suðvesturhorninu horft til þess að nánast öll strandlengja Reykjavíkur hefur verið eyðilögð fyrir atvinnustarfsemi, sums staðar sakir nauðsynjar en sums staðar algerlega að ástæðulausu. Væri hægt að nefna þar mikil svæði til landfyllingar og hafnargerðar og annars þess sem mun reyndar ekki standast tímans tönn og verður væntanlega flutt burt frá Reykjavík, e.t.v. á okkar ævitíma, þeirra manna sem hér talast við í sal Alþingis.

Frú forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þingmanns. Ég tel að það mætti einmitt vera meira samræmi í kröfum í umhverfismálum úti á landi og hér á suðvesturhorninu. Svo er reyndar ekki í dag og það ber að laga.