138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér var verið að ræða hvort menn væru með kjördæmapot eður ei þar sem þeir vísuðu í dæmi um samgöngumannvirki í sínu kjördæmi. Ég verð að gangast við því að ég mun ræða hér mestmegnis um tvennt: Annars vegar mun ég ræða um samgöngur í mínu kjördæmi, Reykjavík, sem eru að vísu tvö kjördæmi en ég lít á þau sem eitt, og umferðaröryggismál. Samgöngumál eru þess eðlis að þau tengjast öllum landsmönnum, þetta eru hagsmunir okkar allra og ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel hins vegar að umræða um hvort tveggja, samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis umferðaröryggismál, séu málaflokkar sem allt of lítið er rætt um og séu eitthvað sem við ættum að ræða meira hér á þingi og í samfélaginu öllu. Við þekkjum einn þáttinn í þessari umræðu sem er það að flestum þykir að þessu sé misskipt, í það minnsta þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að áherslan á málefni og samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu sé ekki í samræmi við það sem ætti að vera og vísa ég þar til fólksfjölda en ekki síður til þess að samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu eru eitthvað sem allir landsmenn nota og þurfa að nota, reyndar líka þeir sem koma og heimsækja landið.

Miðað við þessa áætlun virðist ekki vera nein breyting á þessu. Ef við skoðum þetta fjögurra ára tímabil, ef við tökum bara stofnkostnað í samgöngumannvirkjum, þ.e. vegamannvirkjum — ég er ekki að taka flug og hafnir sem eru hverfandi framlög til á höfuðborgarsvæðinu, heldur bara til stofnverkefna á höfuðborgarsvæðinu — er hann tekinn saman í þessari samgönguáætlun Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, sem eru tvö kjördæmi með um 60% af íbúunum. Þar verða á þessu ári 10% af stofnverkefnunum á höfuðborgarsvæðinu en 6% 2010. Síðan 2011 hækkar þetta upp í 28% og 2012 í 33%, en miðað við þessa áætlun ber þess að geta að framlögin til stofnkostnaðar lækka mjög ef þessar áætlanir ná fram að ganga. Ef þetta er tekið saman í heild sinni mun um helmingi minna í milljónum talið fara til Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis samanlagt en til Norðausturkjördæmis. 13.400 milljónir fara í Norðausturkjördæmi á þessum tíma en 6.700 milljónir fara í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, 11.300 milljónir fara í Norðvesturkjördæmi og 8.400 í Suðurkjördæmi.

Ég sakna þess þegar við förum í þessa áætlun að farið sé yfir umferðarmálin hér á höfuðborgarsvæðinu, þetta tengist allt saman. Það liggur alveg fyrir að ef menn ætla t.d. að létta þeirri þörf sem er á Sundabraut þurfa menn að koma á betra flæði fyrir bílinn í gegnum borgina. Það þýðir að við erum með mörg verkefni sem kalla á mislæg gatnamót eða stokka fyrir sérstaklega Miklubrautina og það á líka við um Grensás, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut og Lönguhlíð. Það kallar á ýmsar slíkar lausnir fyrir Kringlumýrarbrautina á öðrum stöðum líka.

Nú veit ég að það eru mun minni fjármunir til ráðstöfunar en áður hefur verið og ég veit líka og vil taka það fram að það er ýmislegt gott í þessari áætlun sem snýr að höfuðborgarsvæðinu, t.d. vegamótin við Leirvogstunguna, undirgöngin við Klébergsskóla og umferðarstýring á höfuðborgarsvæðinu, svo eitthvað sé nefnt. Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að leggja áherslu á almenningssamgöngur og hjólreiðar. Ég nota sjálfur allar gerðir af samgöngum og þekki þetta ágætlega, bý í Grafarvogi. Ég keyri ekki bara minn litla einkabíl heldur hjóla ég stundum til og frá vinnu og hef sömuleiðis notað almenningssamgöngur. Ég lít svo á að við þurfum að hafa þetta allt saman. Ef við erum að tala um sjálfbærar samgöngur fyrir alla verðum við líka að tala um einkabílinn. Sem betur fer er þróunin í þá áttina að bíllinn er að verða bæði sparneytnari og mengar minna, hann er sömuleiðis öruggari. Ef við erum að tala um sjálfbærar samgöngur fyrir alla þýðir það að við þurfum að taka út bílinn líka, við verðum að skoða eftirfarandi: Stendur einkabíllinn undir sér? Hversu há eru gjöldin á bíl og umferð frá árinu 2007 og hvernig kemur það til móts við þau útgjöld sem eru fyrir? Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og verðum að leggja til grundvallar.

Ég sakna þess að hér sé ekki minnst meira á einkabílinn og nú er ég ekki að gera lítið úr almenningssamgöngum eða hjólreiðum, alls ekki. Ég hef beitt mér fyrir slíku á vettvangi borgarinnar og verið fylgjandi því alla tíð og verð það áfram, en við verðum líka að huga að bílnum. Þegar við erum að hugsa um mengun og umhverfismál er megnið af svifrykinu sem kemur hér á höfuðborgarsvæðinu til komið vegna þess að við notum malbik sem stenst ekki þá staðla sem eru annars staðar. Mér finnst okkur vanta algjörlega þennan þátt í þessa samgönguáætlun og við verðum að fara miklu betur yfir það.

Það tengist öðru máli sem eru umferðaröryggismálin. Eins og hér kom fram áðan voru menn að ræða Evrópusambandið og ég hef verið fylgjandi því að við tökum góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Það hefur ekkert að gera með skoðanir mínar um hvort Ísland eigi á að vera í Evrópusambandinu eða ekki. Ég tel að Ísland eigi ekki að vera aðili að Evrópusambandinu, það séu ekki okkar hagsmunir. Hins vegar veit ég að margar þær þjóðir sem eru í Evrópusambandinu eru komnar lengra en við í umferðaröryggismálum. Hvað þýðir það? Það þýðir að við skulum bara taka hugmyndirnar frá þeim. Við skulum ekkert vera að finna upp hjólið heldur bara taka þær hugmyndir og nýta þær.

Mér finnst að vísu alltaf kómískt þegar menn tala um, eins og hér var talað um áðan, að menn fái eitthvað fyrir ekki neitt með því að ganga í Evrópusambandið og það þýði að þeir muni borga öll umferðaröryggismál fyrir okkur eða eitthvað slíkt. Við munum alltaf borga meira í Evrópusambandið en við fáum til baka, það eru gömul sannindi og ný.

Hver er stefna Íslands á alþjóðavettvangi þegar kemur að umferðaröryggismálum? Nú eru Sameinuðu þjóðirnar búnar að samþykkja Decade of Action eða áratug aðgerða í umferðaröryggismálum í kjölfarið á fyrsta fundi samgönguráðherrafundarins í Moskvu í nóvember í fyrra. Því miður sótti samgönguráðherra Íslands ekki þann fund. Þetta er alheimsátak sem á að standa næstu tíu ár. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar er minnst á það í þessu skjali? Þarna setja allir samgönguráðherrar heimsins, í það minnsta þeir sem eru í Sameinuðu þjóðunum, sér markmið. Þeir tala ekki bara um umferðaröryggismálin heldur gera eitthvað í málunum á næstu tíu árum. Ég get ekki séð það hér í þessari áætlun. Eftir því sem ég best veit erum við ekki búin að innleiða Vínarsáttmálann um umferð frá 1968 og eigum eftir, og ég hef vakið athygli á því hér á þinginu, að setja ýmsa löggjöf og staðla varðandi umferð og umferðaröryggi. Ég hef ekki farið í grafgötur með það að ef það er skynsamlegt að taka eitthvað upp frá Evrópusambandinu hvað það varðar eigum við að gera það.

Ég nefndi áðan einkabílinn, við höfum ekki fjallað um hann í tengslum við sjálfbærar samgöngur og það er óskynsamlegt. Ég vil vekja athygli þingheims á gríðarstóru vandamáli sem ég hef ekki orðið var við í umræðunni hér. Það er það vandamál að alvarlega slösuðum í umferðinni hefur ekki fækkað og hvert og eitt mál er alveg grafalvarlegt.

Ef við skoðum þetta bara frá árinu 2005 voru alvarlega slasaðir 2005 129 talsins og 2006 voru þeir 153. Þeir fóru upp í 195 2007 og í 200 árið 2008. Sem betur fer fóru þeir á árinu 2009 niður í 170 en það er þó ansi há tala. Þetta er eitthvað sem er fjallað um hér, þessi tafla er til staðar í samgönguáætluninni, nánar tiltekið á bls. 84, og við getum farið aftur fyrir 2005. Árið 2004 slösuðust 115 alvarlega í umferðinni, 145 árið 2003 og 164 árið 2002, 158 2001 og árið 2000 voru það 168. Árið 2009 voru það 170. Á bak við hvert alvarlegt tilfelli er mikil hörmung, fyrir viðkomandi einstakling og alla hans aðstandendur.

Þetta finnst mér vera útgangspunktur alveg sama hvar við ræðum samgöngur, þ.e. öryggismálin. Ég þarf í rauninni ekkert að rökstyðja það neitt frekar en mér finnst vanta þetta inn í þessa samgönguáætlun. Mér finnst vanta að menn tali um sjálfbærar samgöngur í tengslum við einkabílinn og mér finnst vanta að við tölum hér um stóra málið sem eru umferðaröryggismálin. Mér finnst við ekki læra af nágrannaþjóðum okkar og alþjóðlegu átaki eins og t.d. átaki Sameinuðu þjóðanna. Ég lít svo á að þetta sé hlutverk samgöngunefndar að fara almennilega yfir. Við getum ekki afgreitt samgönguáætlun án þess að vera búin að gera þetta að stærsta málinu í þeirri áætlun.

Í því samhengi og hvort heldur sem er verðum við líka að fara betur yfir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé t.d. ekkert um Hlíðarfót í þessari samgönguáætlun og það er eitthvað sem við þurfum að taka afstöðu til hvenær við ætlum að fara í og hvernig. Sömuleiðis verðum við að hafa skilgreindari og betri áætlun varðandi frítt flæði bíla. Það hefur ekki bara að gera með það að fólk geti komist fljótt á milli staða, það tengist mengun og öryggi því að eins og við þekkjum verða flest slysin í kringum gatnamót.

Ég sé heldur ekki neitt hér um öryggisúttekt á vegum. Ég beitti mér fyrir því við fyrrverandi hæstv. ráðherra, Sturlu Böðvarsson, að það væri gert og hann fór í verkefni sem heitir EuroRAP sem er öryggisúttekt á vegum. Það ætti sérstaklega að ylja þeim um hjartaræturnar sem eru hlynntir Evrópusambandinu og horfa til Svíþjóðar í öllu því að það sameinar þetta tvennt: Svíar eru mjög framarlega þegar kemur að umferðaröyggismálum og þetta er verkefni á vegum Evrópusambandsins. Það gengur út á að hafa öryggisúttekt á öllum vegum. Það er svo skrýtið þegar menn fara að skoða það að þó svo að bílstjórinn hafi mjög mikið um það að segja og auðvitað kannski mest af öllum hvort slys verður eða ekki, skipta litlir hlutir sem kosta oft ekkert — að vísu stórir hlutir líka, hlutir sem við erum ekki meðvituð um sem ekki erum sérfræðingar í þessum málum — alveg gríðarlega miklu máli þegar kemur að öryggismálum. Á undanförnum áratugum höfum við ekki litið til þessara hluta við hönnun mannvirkja eins og við hefðum átt að gera og það hefur oft og tíðum haft slæmar og stundum skelfilegar afleiðingar í för með sér. En nú erum við byrjuð í þessu verkefni, EuroRAP, öryggisúttekt á vegum, og ég vil fá að vita: Eru menn búnir að salta það? Ætla menn að hætta í því verkefni? Ég veit ekki betur en að það hafi skilað mjög góðum árangri og komið mikið af úttektum sem hafa skilað góðum árangri fyrir okkur öll. Ég vil fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvar þetta stendur, sömuleiðis varðandi öryggisúttektina á göngunum, EuroTAP.

Á Íslandi eru þó nokkur jarðgöng og við höfum verið að ræða um jarðgöng í þessari umræðu en fyrst og fremst út frá því hvort það eigi að leggja þau og hvernig eigi að fjármagna þau o.s.frv. Við höfum ekki rætt öryggismálin. Það hafa orðið skelfileg slys í öðrum löndum í göngum. Sökum þessa er það almennt að í þeim löndum sem við berum okkur saman við í Evrópu hafa menn nú gert mikið átak varðandi úttekt á öryggi í göngum. Við erum byrjuð á því, ég spurði hæstv. ráðherra að því hér í vetur og hef ýtt eftir því. Ég veit að við erum byrjuð að gera úttektir á þessu, hæstv. ráðherra upplýsti það. Það væri gaman að heyra frá honum hvaða niðurstöður hafa komið út úr því. Ég sakna þess líka að sjá ekki neitt um það í þessari áætlun.

Sömuleiðis, virðulegi forseti, segir hér á bls. 87, með leyfi forseta:

„Eins og að framan segir hefur umferðaröryggisgjaldi, um 90 millj. kr. á ári, ekki verið varið til umferðaröryggismála og því er óverulegum fjármunum af vegafé varið til þessa málaflokks.“

Ég endurtek, virðulegi forseti:

„Eins og að framan segir hefur umferðaröryggisgjaldi, um 90 millj. kr. á ári, ekki verið varið til umferðaröryggismála.“

— Ekki verið varið til umferðaröryggismála. Ætla menn bara að halda því áfram? Umferðaröryggisgjald er borgað og það á ekki að nota það til umferðaröryggismála. Hér slösuðust 170 manns alvarlega árið 2009. Þegar við berum saman þær töflur sem búið er að gera á undanförnum árum sést að það voru færri sem lentu í alvarlegum slysum árið 2000. Sem betur fer er þróunin í heiminum sú að mönnum hefur tekist að draga úr slysum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Á ekki að verja þessu umferðaröryggisgjaldi til umferðaröryggismála, er það ekki stefnan? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar? Ætla menn bara að ganga frá samgönguáætlun hérna með töflu um alvarlega slasaða eins og hún sé ekki til?

Ég vil alla vega láta vita af því að ef svo er verður því ekki tekið þegjandi af öllum þingmönnum, í það minnsta ekki mér, það liggur alveg fyrir. Þegar ég les þessa töflu hér á bls. 84, Yfirlit yfir slasaða árið 1996–2009, segir hún mér eftirfarandi: Þetta er málið sem við eigum að leggja áherslu á, umferðaröryggismálin. Ég veit að ef allir hugsa um það komast þeir að þeirri niðurstöðu að þetta sé það mikilvægasta. Menn þurfa ekki að hitta nema einn einstakling sem hefur slasast alvarlega til þess að átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur í för með sér ef menn slasast alvarlega, hvort sem það er af þessum völdum eða öðrum. Þarna höfum við bara mikið um það að segja hvort slys verða eða ekki.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja ráðherrann um sjálfbærar samgöngur fyrir einkabílinn og ég vil spyrja hér um umferðaröryggismálin, hvort ekki eigi að nota þennan markaða tekjustofn í það sem hann er ætlaður. Svo vil ég (Forseti hringir.) spyrja um EuroRAP og EuroTAP. Ef hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hefur einhverjar aðrar upplýsingar sem hann vill deila með okkur í tengslum við þetta eða framkvæmdir á (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðinu skal ég glaður hlusta.