138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[17:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Segja má að hæstv. ríkisstjórn hafi verið mjög mislagðar hendur í því mikla atvinnuleysi sem dunið hefur yfir þjóðina í kjölfar efnahagshrunsins með að forgangsraða ekki meira í þágu samgöngumannvirkja og samgönguframkvæmda en raun ber vitni. Þarna höfum við gott tækifæri til þess að grípa inn í strax og skapa atvinnu fyrir þá grein sem einna verst hefur farið út úr hruninu með skelfilegum afleiðingum. Það liggur fyrir að mörg verktakafyrirtæki sem hafa sinnt verkefnum eins og uppbyggingu á orkufrekum iðnaði og samgöngumannvirkjum hafa farið mjög illa. Mörg þeirra hafa orðið gjaldþrota og atvinnuleysi er hvað verst hjá þeim stéttum sem byggðu afkomu sína á þessum fyrirtækjum.

Þau verkefni sem voru tilbúin hjá Vegagerðinni á þeim tíma, og annaðhvort var búið að bjóða út en það átti eftir að ganga frá samningum eða voru tilbúin til útboðs, voru upp á 8,2 milljarða og dreifðust vítt og breitt um landið. Þetta voru stór verkefni eins og Arnarnesvegur og Álftanesvegur, sem hvor um sig er upp á 1.200–1.400 milljónir, og Dettifossvegur sem er upp á aðra eins upphæð, einn og hálfan milljarð. Einnig voru mörg smærri verkefni um allt land, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, upp á um 200–500 milljónir hvert. Með því að finna fjármögnun fyrir þessi verkefni hefði verið hægt að halda uppi öflugu atvinnustigi í þessum geira sem hefur farið hvað harðast út úr atvinnuleysinu og tilheyrandi tekjusköpun fyrir ríkissjóð en ríkisstjórnin ákvað að fara allt aðrar leiðir. Hún ákvað þess í stað að fara í niðurskurð, hækka skatta og pína þannig skattstofnana og bæta við nýjum með þeim afleiðingum sem við höfum horft upp á.

Það er því í sjálfu sér ánægjuefni að við horfum núna á hugmyndir um að fara í átak á þessum vettvangi og ég held að við sjálfstæðismenn munum fylgja því fast eftir og styðja þær hugmyndir. Gjaldtaka er að mínu viti réttlætanleg við þessar erfiðu aðstæður og eitthvað sem við þurfum að skoða nánar. Í henni þarf auðvitað að taka tillit til þeirra sem sækja vinnu reglulega eftir þeim leiðum þar sem gjaldtaka verður stunduð þannig að hún verði ekki íþyngjandi. Þetta má ekki verða landsbyggðarskattur en með réttri útfærslu held ég hægt sé að nálgast þetta af skynsemi þannig að allir geti verið sáttir og við sjáum framkvæmdir fara af stað sem ella þyrftu að bíða jafnvel í mörg ár. Við megum ekki gleyma því hvað það er mikilvægt að bæta samgöngumannvirki. Við sjáum í slysatölum hvaða þróun verður með bættum samgöngumannvirkjum. Við sjáum það t.d. á Reykjanesbrautinni hvað alvarlegum slysum og banaslysum hefur fækkað þar gríðarlega eftir að tvöfölduninni var komið á. Þetta er eitthvað sem við eigum að horfa til. Þarna er gríðarlegur þjóðhagslegur sparnaður þegar upp er staðið.

Virðulegi forseti. Þegar maður fer yfir samgönguáætlunina fyrir árin 2009–2012 er sláandi hið hrikalega misræmi sem enn og aftur speglast í þessum tölum, milli framlaga til framkvæmda hér á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hins vegar á landsbyggðinni. Þetta er í raun óþolandi skipting. Mannvirki eru brýn út um allt land, ég er ekki að gera lítið úr því og það er mikilvægt að fara í þau, en það má heldur ekki gleyma mikilvægi þess að greiða fyrir umferð á þessu fjölmenna svæði. Það verður að segjast eins og er að tölurnar gefa ekki miklar vonir um það, auk þess sem forgangsröðunin í áætluninni er alls ekki ásættanleg fyrir þann stóra hóp íbúa sem hér býr.

Ef við rýnum aðeins í tölurnar er áætlað að framkvæma fyrir tæpa níu milljarða í Suðurkjördæmi á þessu tímabili, 2009–2012. Þar af er áætlað að framkvæma fyrir rúmlega sex milljarða á þessu ári og því næsta. Í Norðvesturkjördæmi er áætlað að framkvæma alls fyrir um 11,5 milljarða en þar af fyrir 8,2 milljarða á árunum 2009 og 2010. Ef við tökum Norðausturkjördæmi, kjördæmi hæstv. samgönguráðherra, á að framkvæma á tímabilinu fyrir 13,7 milljarða, þar af 11,3 milljarða á árunum 2009 og 2010. Síðan þegar kemur að höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi, á að framkvæma alls á þessu tímabili fyrir 6,7 milljarða en þar af eingöngu fyrir 2,3 milljarða fyrstu tvö árin. Við vitum af reynslunni að þau mál sem fá forgang á þessum fyrstu árum komast helst í framkvæmd. Þeim verkefnum sem aftar eru í áætluninni er gjarnan slegið á frest, síðan munu áherslur breytast og þeim verður jafnvel ýtt enn aftar. Við getum ekki sætt okkur við þetta og það er útilokað að þetta geti verið rétt forgangsröðun. Hér á þessu svæði erum við með verkefni sem eru þegar tilbúin til framkvæmda, var búið að bjóða út en hætt var við samningsgerð, og önnur þar sem öll útboðsgögn voru tilbúin en því var frestað að bjóða þau út.

Einnig eru á borðinu verkefni sem í raun var búið að lofa að færu inn í þessa samgönguáætlun, eins og undirgöngin eða mannvirkin við Lindir í Kópavogi. Kópavogsbær gerði samkomulag við Vegagerðina um að fjármagna þessar framkvæmdir gegn vilyrði um að verkefnið færi síðan inn á samgönguáætlun og yrði greitt til baka. Auðvitað var reiknað með því að það yrði forgangsverkefni að gera verkefnið upp, um það var rætt og Kópavogsbær gekk út frá því í samkomulaginu. Þarna erum við að tala um 320 milljónir sem bærinn fjármagnaði við framkvæmdirnar og verkefnin voru kláruð en þetta er ekki einu sinni inni á áætluninni í dag. Það stendur ekki til að gera þetta upp. Við hljótum að gera kröfu um að þetta verði endurskoðað og þau verkefni sem þá var búið að samþykkja að fara í, og gengið var út frá að kæmi til greiðsla fyrir, verði sett í forgang. Það er ekki hægt að gera svona samninga við sveitarfélag. Þótt það sé kannski ekki tímasett í þaula var ákveðinn skilningur við þessa samningagerð sem er klárlega rofinn.

Það vekur einnig athygli þegar skoðaðar eru framkvæmdir eins og Arnarnesvegur og Álftanesvegur að það stendur til að byrja eitthvað á Álftanesvegi á þessu ári en síðan koma framkvæmdirnar bara inn á síðustu árunum í áætluninni og það er útilokað að ætla annað en að þau geti frestast enn frekar. Í öðru tilfellinu var búið að bjóða út verkefnið en hætt var við samningagerð og í hinu tilfellinu voru öll útboðsgögn tilbúin. Þetta eru einhverjar stærstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á höfuðborgarsvæðinu en þær eru sem sagt á ís næstu árin samkvæmt þessari áætlun. Arnarnesvegur er mjög nauðsynleg tenging upp í nýjar byggðir í Kópavogi þar sem umferðartafir eru miklar í dag. Vegirnir sem eru þarna fyrir voru alls ekki reiknaðir til að bera alla þá umferð sem nú er komin. Á annatímum eru þarna gríðarlegar tafir en ekki á að bæta úr því þrátt fyrir ítrekuð loforð. Það sama á við um Álftanesveg. Þar er gamall vegur þar sem hafa orðið mjög alvarleg slys, vegurinn býður upp á mikla slysahættu og er algjörlega ófullnægjandi. Við hljótum að leggja mikla áherslu á að þessi verkefni verði færð framar í áætluninni. Það verður að forgangsraða að einhverju leyti með þarfir þessa fjölmenna, þéttbýla svæðis í huga.

Síðan eru verkefni sem ekkert er minnst á í þessari áætlun, t.d. við Kaplakrika í Hafnarfirði. Það þarf úrbætur til að klára flöskuhálsinn á þeim fjölmennu gatnamótum. Þarna myndast miklar umferðarteppur á annatímum og þótt eitthvað hafi verið gert til að bæta úr þá er það engan veginn endanlegt. Á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð eru staðir eins og við Fjarðarkaup, gatnamótin þar eru fjölfarin og þar er mikil slysahætta og ítrekuð umferðaróhöpp. Það er því af nægu að taka í þessu kjördæmi. Það er ömurlegt að sjá að í áætluninni eru þessar framkvæmdir allar settar aftur fyrir á meðan kjördæmi ráðherrans fær drjúgan hluta af því framkvæmdafé sem er á áætlun á næstu tveimur árum, þessu ári og því næsta. Við erum að tala um að hátt í 40% af framkvæmdafénu fari í kjördæmi samgönguráðherra. Það er ekki hægt. Það er ekki líðandi að við séum með þetta pólitíska pot og það er í raun ráðherranum til skammar að forgangsröðunin skuli vera eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni.

Ég vil nefna önnur brýn verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Við erum að ákveða að fara í miklar framkvæmdir í Vatnsmýrinni. Það á að byggja stórt sjúkrahús, það er búið að byggja Háskólann í Reykjavík og það stendur fyrir dyrum að byggja þarna samgöngumiðstöð. Í kynningu á fyrirhugaðri byggingu fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús á haustdögum 2007 kom fram hjá formanni verkefnanefndarinnar að Hlíðarfótur væri órjúfanlegur þáttur þeirra framkvæmda. Í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem þarna átti að verða var vitnað til háskólans og samgöngumiðstöðvarinnar. Í áætluninni er ekki orð um Hlíðarfót eða þá mannvirkjagerð sem þarf í framhaldi af því, sem er einhvers konar tenging yfir á Reykjanesbraut frá Hafnarfjarðarvegi. Í svari til mín í vetur kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra að áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir að fullu væri um 25 milljarðar. Hluti framkvæmdanna er órjúfanlegur þáttur í þeirri miklu uppbyggingu sem á að verða í Vatnsmýrinni en það er ekki orð um það í samgönguáætluninni. Það helst ekki í hendur við gerð samgöngumannvirkja á þessu þéttbýla svæði eða allar þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin er að setja þarna niður. Maður veltir því fyrir sér hvort hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera, eða vinstri höndin viti ekki hvað hin vinstri höndin er að gera í þessu samhengi. Það er eins og menn loki bara á þetta svæði þegar kemur að pælingum varðandi framtíðina og ráðherrann sjái ekki þetta svæði, þar sem hann býr nú sjálfur og ætti að vera vel meðvitaður um hvernig ástandið getur verið á háannatímum.

Það má ekki gleyma því að hagkvæmni samgöngubóta er gríðarleg og ekki síst á þessu svæði. Eða hvað haldið þið að allar þessar tafir og sú slysahætta og þau miklu slys sem verða kosti þjóðarbúið árlega? Það eru alveg gríðarlegir fjármunir. Það felst mikil hagræðing í því að fara í mannvirkjaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og greiða fyrir umferð á þessu annasvæði og það er algjörlega ólíðandi að við skulum vera skilin út undan eins og okkur birtist í þessari samgönguáætlun.

Aðeins að öðru máli, virðulegi forseti. Mig langar til að tala aðeins um öryggismál sjófarenda og fara yfir hvernig þróunin hefur verið í slysum á sjó, sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt þessari áætlun á að skera það framlag sem Slysavarnaskóli sjómanna fær til þess að fylgja eftir áætlun um öryggi sjófarenda niður um 50%. Þetta er áætlað fyrir árið 2010, og mér skilst að það hafi hafst í gegn með herkjum í samgöngunefnd fyrir tilstuðlan fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að halda því þó í 20 milljónum, en síðan á að skera framlagið niður í 10 milljónir árin 2011 og 2012.

Okkur hefur farið mikið fram varðandi öryggismál á sjó og sérstaklega hefur okkur tekist að fækka banaslysum. Þetta var einhver mesti tollur sem þjóðin greiddi áratugum saman. Snemma á síðustu öld fórust að meðaltali um 70 manns í sjóslysum hér við land. Ungt og efnilegt fólk fórst og heilu byggðirnar urðu fyrir miklum áföllum þegar kannski fórust nokkrir bátar á sama tíma. Verstu árin voru 1906 og 1942 þegar á annað hundrað manns fórust, en það jafngildir því að um 400 manns mundu farast til sjós á einu ári nú miðað við höfðatölu. Af þessu má sjá hvers konar gríðarlegur tollur hefur verið greiddur en með skipulögðu starfi í öryggismálum til sjós og öflugu björgunarstarfi hefur tekist að breyta þessu gríðarlega mikið. Nú heyrir það frekar til undantekninga ef banaslys verða til sjós, kannski að meðaltali tveir eða þrír sjómenn á hverju ári. Það er þó of mikið. Við viljum helst að á sjómannadaginn sé engin stjarna á fána sjómannadagsráðs þegar hann er borinn inn í dómkirkjuna en á hann er sett ein stjarna fyrir hvern þann sem hefur látist á sjó. Það hefur aðeins einu sinni tekist á milli sjómannadaga, á milli áranna 2008 og 2009.

Við sjáum aftur á móti á töflum sem fylgja þessari þingsályktunartillögu að slysatilfellum á sjó hefur fjölgað verulega. Öryggismálin í sjómennskunni snúast þessa dagana um að koma á nokkurs konar öryggisstjórnun um borð í fiskiskipum sérstaklega og auðvitað einnig flutningaskipum. Þarna ætlar hæstv. ráðherra að skera niður með tilheyrandi afleiðingum á sama tíma og við erum í raun að auka verkefni til þessarar fræðslu mjög mikið, vegna þess að nú er búið að koma á svokölluðum strandveiðum sem fjölga mjög fólki til sjós. Það er verið að skerpa reglurnar um að fleiri smábátasjómenn þurfi að sækja sér öryggisfræðslu og taka námskeið þannig að álagið á kennslu og öryggisuppbyggingu mun aukast mjög mikið en á sama tíma er verið að rýra framlögin. Þetta er algjörlega óásættanlegt, virðulegi forseti. Íslenskir sjómenn eiga það inni hjá þjóðinni. Við stöndum í skuld við sjómannastéttina. Íslenskir sjómenn sem standa undir grundvallarstoðum íslensks samfélags með framlagi sínu eiga það skilið að hvergi sé hvikað frá ströngustu öryggiskröfum og allt sé gert til þess að efla sem mest öryggi þeirra á hafinu. Því vil ég sjá að þessu verði breytt og að við munum ekki sjá neinn niðurskurð koma að þessum mikilvæga þætti. Við erum ekki að tala um háar upphæðir í þessu sambandi. Þarna er unnið göfugt og öflugt starf sem við verðum að standa við.