138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[17:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Sem íbúi í Reykjavík og þingmaður Reykvíkinga get ég ekki orða bundist þegar ég les þessa þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 sem lögð er fram af hæstv. samgönguráðherra Kristjáni L. Möller. Ástæðan fyrir því að ég get ekki orða bundist er sú að það virðist hafa farið fram hjá hæstv. ráðherra að það býr fólk í Reykjavík og nágrenni. Það virðist hafa farið gjörsamlega fram hjá hæstv. ráðherra að það þarf að ráðast í samgöngubætur í höfuðborginni og í nágrenni hennar, alveg eins og úti á landsbyggðinni. Ég geri ekki lítið úr því að það þurfi að ráðast í vegaframkvæmdir og samgöngubætur víðs vegar á landsbyggðinni. Ég ferðaðist t.d. um Vestfirði síðasta sumar, keyrði vegina þar og kynnti mér hvernig samgönguháttum í þeim landsfjórðungi var háttað. Það er alveg hárrétt að þar þarf víða að taka til hendinni.

Það sama á hins vegar við um Stór-Reykjavíkursvæðið. Hversu lengi hafa Reykvíkingar beðið eftir því að lögð yrði Sundabraut út úr borginni, vestur á land og norður? Hversu lengi höfum við Reykvíkingar beðið eftir því að ráðist yrði í samgöngubætur við hættulegustu gatnamót landsins, á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar? Alveg gríðarlega lengi. Íbúar í efri byggðum Reykjavíkur vita að þar eru umferðarteppur daglegt braut á álagstímum. Svo mætti lengi telja.

Samkvæmt þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram virðist allt þetta hafa farið fram hjá hæstv. samgönguráðherra. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að þegar menn skoða þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til vegaframkvæmda á árunum 2010–2012 í Reykjavík sést að Reykvíkingar þurfa að gera sér að góðu 15 millj. kr. í vegaframkvæmdir. Það eru vissulega miklar fjárhæðir þegar lítið er til skiptanna, en þegar menn bera þær saman við þær fjárveitingar sem eiga að renna til vegaframkvæmda í kjördæmi hæstv. ráðherra er samanburðurinn ekki Reykvíkingum í hag. Samkvæmt þessari samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að 5.500 millj. kr. — 5,5 milljörðum kr. — verði ráðstafað til samgöngubóta í kjördæmi hæstv. ráðherrans, en Reykvíkingar þurfa að gera sér 15 millj. kr. að góðu.

Ég ætla ekki að fara að reikna hvernig þessir fjármunir skiptast miðað við höfðatölu, það tekur því ekki að leggjast í slíka útreikninga, en þetta sýnir það virðingarleysi sem hæstv. ráðherra sýnir okkur sem búum á suðvesturhorninu, fólkinu í borginni þar sem atvinnuleysi er hvað hæst á landinu og mest er þörfin fyrir að ráðist verði í vegaframkvæmdir og aðrar framkvæmdir.

Það er ekki langt síðan gengið var til sveitarstjórnarkosninga. Hvað sagði leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, fyrir þær kosningar? Það átti að auka hagvöxt í Reykjavík. Það átti að auka hér atvinnu og framkvæmdir. Það átti að gera allt til þess að vinna á atvinnuleysinu sem er mikið böl, ekkert síður fyrir Reykvíkinga en aðra landsmenn. Og þá kemur hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller, og leggur fram þessa þingsályktunartillögu þar sem ekkert er hlustað á leiðtoga Samfylkingarinnar í Reykjavík og fjármunir skornir við nögl. Þessi samgönguáætlun er til skammar fyrir ríkisstjórnina, hún er til skammar fyrir hæstv. ráðherra. Þetta er engin framkoma gagnvart okkur sem búum á suðvesturhorninu. Maður veit heldur ekki hvað tekur síðan við. Það hafa verið uppi hugmyndir um að leggja á vegtolla inn og út úr borginni. Miðað við það sem ég sé í þessari þingsályktunartillögu kæmi mér ekki á óvart þó að hæstv. ráðherra mundi leggja slíkt til, svo ég tali nú ekki um þann nýja meiri hluta sem tók við í Reykjavík. Maður veit ekkert hvað hann ætlast fyrir annað en það að Reykjavík verði næsti vinabær Kardimommubæjar.

Ég varð að koma þessum athugasemdum mínum á framfæri. Þessa þingsályktunartillögu mun ég ekki styðja. Það er alveg á hreinu. Ég lít þannig á að með því væri ég að svíkja kjósendur í Reykjavík og íbúa Reykjavíkur. Ég ætla ekki að standa að því að Alþingi Íslendinga samþykki samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 þar sem íbúar Reykjavíkur eru algjörlega sniðgengnir af þessari ríkisstjórn.