138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að það væri hið besta mál að hér væru sett almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta frumvarp er um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég á von á því að stjórnlagaþing sem verður væntanlega næsta vetur geri tillögu um að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, ég styð það. Einnig styð ég það sem hún nefndi, að minni hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að það hefði mjög góð áhrif á þingstörf að meiri hluti þingsins vissi að til þessa gæti komið. Þetta getur ekki gilt um öll málefni. Við höfum fyrirmynd að þessu frá Danmörku, hvort hún er akkúrat sú eina rétta veit ég ekki. Ég tel að þetta þurfi að skoða allt saman mjög vel.

Það er ekki óeðlilegt að einhver hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf að hugsa vel hvað það á að vera stór hluti. Hvort ég sé sammála hv. þingmanni — þessi mál þarf að vinna. Ég tel ekki rétt að setja slík lög fyrr en hægt er að gera atkvæðagreiðsluna bindandi.