138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mjög spennandi viðfangsefni og eitthvað sem ég hef trú á að við munum sjá meira af á næstu árum og áratugum. Það er svolítið magnað og kannski ekki mikið í umræðunni að þjóðaratkvæðagreiðslur voru praktíseraðar hér nokkuð á fyrri hluta síðustu aldar. Ég veit ekki hvort það segir mikið um íslenska þjóð hvað var nákvæmlega greitt atkvæði um. Í rauninni hafa verið greidd atkvæði um þrennt, það voru fullveldismál, síðan áfengismál og þá hvort löggjöf skyldi sett um skylduvinnu. Þetta eru málin sem íslensk þjóð greiddi atkvæði um frá árinu 1905 til 1944. Það er svolítið merkilegt að það hafi ekki verið mikil pressa á þjóðaratkvæðagreiðslur alveg frá 1944 þangað til við greiddum atkvæði í Icesave-málinu fyrir nokkrum mánuðum.

Það sem við þurfum að taka afstöðu til þegar við ræðum um þjóðaratkvæðagreiðslur eru nokkrir hlutir, kannski í fyrsta lagi: Eiga þessar atkvæðagreiðslur að vera ráðgefandi eða bindandi? Eigum við að hafa þær með þeim hætti að þegar þjóðin er búin að greiða atkvæði sé það endanleg niðurstaða eða á það að vera einhvers konar leiðbeining fyrir löggjafarþingið? Þetta er mjög merkileg spurning og hefur í rauninni ekki verið svarað, t.d. hvað varðar þá atkvæðagreiðslu sem er núna væntanleg ef menn klára ferlið varðandi Evrópusambandið. Þá er ég að vísa til þess ef menn klára aðildarviðræðuferlið og þjóðin fær að sjá hvað það þýðir að ganga í Evrópusambandið þá ákveði Alþingi að ganga þannig til verka að þjóðin fái að kjósa en það væri eingöngu ráðgefandi. Forsvarsmenn stjórnarflokkanna sögðu að það ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af því ef þjóðin segði já því að þá mundu forustumenn stjórnarflokkanna sjá til þess að þingmenn segðu já líka.

Nú er það bara þannig, virðulegi forseti, að það er ekki á færi forustumanna stjórnarflokkanna að ákveða hvað hv. þingmenn kjósa. Þeir eru bundnir samkvæmt stjórnarskránni af sinni eigin samvisku og ég held að flestir þeirra sem núna eru hv. þingmenn hafi gefið þá stefnu út fyrir alþingiskosningarnar að þeir vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það hefur komið fram hér, virðulegi forseti, í þingsölum að í það minnsta einn hv. þingmaður í stjórnarliðinu hefur sagt að hann muni aldrei greiða atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið alveg sama hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer.

Þá erum við komin að öðrum þætti sem við höfum kannski ekki mikið rætt en er auðvitað grundvallaratriði og það er: Gildir einu hversu margir taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gildir hún ávallt? Ef við værum t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 10% þjóðarinnar tækju þátt, væri það jafngild þjóðaratkvæðagreiðsla og ef 90% tækju þátt? Einhver mundi segja að það væri mjög fjarlægt að tala um þetta þannig. Til dæmis var atkvæðagreiðsla meðal borgarbúa um hundahald fyrir tveim áratugum, ef ég man rétt, og það tóku held ég um 10 eða 16% þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er skemmst frá því að segja að borgarstjórn fór ekki eftir niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu heldur þvert á móti var mat borgarstjórnar þannig að sökum þess hve fáir tóku þátt, hve lítill áhugi var á málinu, væri borgarstjórn ekki bundin af þeirri niðurstöðu.

Þegar greidd voru atkvæði um flugvöllinn í Reykjavík tóku, ef ég man rétt, um 30% atkvæðisbærra manna þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Það var samþykkt naumlega að færa flugvöllinn árið 2016 og nú er ekkert sem bendir til þess, virðulegi forseti, nákvæmlega ekki neitt að farið verði eftir þeirri atkvæðagreiðslu. Það skiptir nefnilega máli þegar við setjum reglur sem þessar að þær séu skýrar og allir viti að hverju þeir ganga. Við verðum að taka efnislega og málefnalega umræðu um hvort það skipti máli hversu margir taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það gæti meira en verið að við munum horfa upp á atkvæðagreiðslur sem mjög lítill áhugi er fyrir, kannski munu einungis þeir sem hafa mjög sterka skoðun á málinu taka þátt. Erum við tilbúin til að segja að slíkar atkvæðagreiðslur séu ávallt bindandi? Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka afstöðu til, ekki bara í lögum sem þessum heldur líka í stjórnarskrá. Ef við ætlum að fara þá leið sem svo sannarlega hefur marga kosti að nýta þjóðaratkvæðagreiðslur meira þá verðum við að fara í gegnum þessa umræðu og komast að niðurstöðu um þessa þætti.

Síðan eru fleiri þættir sem sömuleiðis þarf að ræða. Það er í þriðja lagi kynningarmál. Þegar við ákveðum að bera einhverja hluti undir þjóðina verður það að vera nokkuð skýrt hvernig að kynningarmálum er staðið. Eins og staðan er núna eru völd í þjóðfélaginu kannski að stærstum hluta hjá fjölmiðlum. Þau ráða því hvað er á dagskrá og hvernig það er lagt upp og ef fjölmiðlar hafa ekki áhuga á ákveðnu máli eða þeir meta sem svo að einhver sjónarmið séu ekki þess virði að vekja athygli á þeim eða gefa þeim tækifæri þá mun halla á þann málstað. Við búum í þjóðfélagi þar sem er mikið áreiti á fólki og við sjáum t.d. af síðustu sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum að það er ýmislegt sem bendir til að erfitt sé að koma málefnum sem snúa að kosningum á dagskrá. Ég vek t.d. athygli á því, burt séð frá hvað mönnum finnst um niðurstöðu kosninganna, að í síðustu sveitarstjórnarkosningum var afskaplega lítið fjallað um hvað væri í raun og veru verið að kjósa um. Menn geta haft allar skoðanir á því hvort niðurstöðurnar séu góðar eða réttar eða ásættanlegar eða eitthvað annað, það er aukaatriði, menn geta haft allar skoðanir á viðkomandi flokkum en ég held að enginn geti sagt sannfærandi að umræðan í fjölmiðlum í þjóðfélaginu hafi gengið út á hvað yrði kosið um fyrir næstu fjögur ár. Ég held að nákvæmlega það sama hafi verið uppi á teningnum hvað varðar alþingiskosningarnar fyrir rúmlega ári. Þetta er ekki vandamál einstakra stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna, þetta er mál sem snertir alla þjóðina. Við verðum að tryggja það, ef við ætlum að hafa hér virkt lýðræði, að þau mál sem við erum að kjósa um séu uppi á borðinu og um þau sé rætt, að það sé nokkuð tryggt. Einhver kynni að segja: Er þetta ekki svo sjálfgefið að það þarf ekki að ræða það? En því fer víðs fjarri. Það er eilífðarverk að halda úti lýðræðisþjóðfélagi. Hlutirnir hafa breyst mjög mikið frá því að menn lögðu upp með og settu upp það stjórnskipulag sem við erum með núna og við verðum að vera meðvituð um þessar breytingar.

Atkvæðagreiðslan um Icesave var hins vegar þess eðlis að við vorum við búin að ræða það mál í fjölmiðlum og í þinginu í marga mánuði þannig að við þurftum ekki að hafa áhyggjur af því að fólk væri ekki upplýst um hvað væri á ferðinni. En það var ekki sjálfgefið. Ef t.d. þingið hefði komist að þeirri niðurstöðu eftir mánaðarumræður að rétt væri að vísa málinu til þjóðarinnar hvernig hefðu menn þá staðið að kynningu? Hvernig ætluðu menn að leysa þann þáttinn? Hverjir áttu að standa og kynna viðkomandi málstað? Voru það stjórnmálaflokkarnir? Áttu þeir að sjá um það? Hvernig áttu þeir að hafa tæki og fjármagn til þess? Þetta er ekki sjálfgefið. Ef menn ætla að fara þessa leið í auknum mæli, sem mér finnst mjög margt mæla með, þá verða menn að átta sig á því hvað það þýðir. Menn hafa talið það vera galla á þjóðaratkvæðagreiðslum og atkvæðagreiðslum meðal almennings almennt að fólk hafi oft og tíðum ekki tækifæri til að setja sig nægilega vel inn í flókna hluti. Í Icesave-málinu er ekki hægt að halda því fram, ég held að það hafi verið útilokað að koma meiri umræðu fyrir um Icesave-málið. Mörgum fannst nóg komið. En það á ekki við, virðulegi forseti, um mál almennt. Ég held að Icesave-málið hafi verið einstakt. Lengsta þingumræða í sögu þingsins var einmitt um Icesave-málið og ég held að við getum ekki kvartað undan því að það hafi ekki verið á dagskrá fjölmiðla. Það var mjög mikið á dagskrá fjölmiðla. En ef við förum þessa leið þurfum við að huga að því hvernig verði staðið að kynningu á þeim málum sem greidd verða atkvæði um. Auðvitað er margt sem hjálpar til, við erum með internetið og ýmislegt annað sem flestir hafa aðgang að sem auðveldar okkur þetta verkefni en þetta er verkefni engu að síður.

Síðan er í fjórða lagi: Hverjir eiga að fá að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram? Ég tel að sú umræða sé rétt farin af stað. Eins og staðan er núna er ekki samstaða um það hvernig túlka beri stjórnarskrána þó svo að færa megi rök fyrir því að með því að forseti Íslands hafi tvisvar neitað að skrifa undir lög þá hafi hann sett ákveðið fordæmi sem muni gera það að verkum að ekki verði aftur snúið, þ.e. að forseti lýðveldisins geti þegar svo ber undir neitað að skrifa undir lög og þar af leiðandi skuli greiða atkvæði um hvort þau taki gildi eða ekki. Ég held að við þurfum að fara yfir það hvort okkur finnist rétt að hafa málin með þeim hætti eða hvort við viljum annaðhvort bæta við þeim möguleika að ef ákveðið hlutfall þjóðarinnar fari fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni gangi það eftir eða ef ákveðið hlutfall þingmanna fari fram á það gangi það eftir. Þetta er eitthvað sem við erum rétt að byrja að ræða en verðum að komast að niðurstöðu um ef við ætlum að fara þessa leið sem ég held að sé almenn krafa um, að þjóðin greiði oftar atkvæði. Ég held að það sama eigi við á sveitarstjórnarstiginu. Ég held að við þurfum sömuleiðis að fara yfir það hvernig standa eigi að slíkum atkvæðagreiðslum. Áður voru atkvæðagreiðslur í beinum kosningum í sveitarfélögum ýmist um áfengisútsölur eða prestkosningar sem voru kannski annars eðlis en það var í þau skipti sem íbúar sveitarfélaga fengu að kjósa um eitthvað annað en til Alþingis og sveitarstjórna. Ég tel að það sé mikilvægt í það minnsta að þróa þennan möguleika og gefa fólki aukið tækifæri til að kjósa um hina ýmsu hluti. Það má færa rök fyrir því að ýmis skipulagsmál séu þess eðlis að það sé æskilegt að fólk kjósi um þau. Sum eru að vísu erfiðari en önnur, t.d. má færa rök fyrir því að atkvæðagreiðslan um flugvöllinn hafi ekki verið hugsuð alla leið sem náttúrlega sýnir sig í því að það er ekkert sem bendir til þess að flugvöllurinn sé að fara þó að menn hafi kosið það fyrir mörgum árum að hann ætti að fara 2016 og ýmislegt bendir til að sú atkvæðagreiðsla hafi meira verið til að koma meiri hlutanum sem þá var í borgarstjórn Reykjavíkur út úr ákveðnum pólitískum vanda en að menn hafi ætlað sér að láta fara fram atkvæðagreiðslu þar sem átti að taka raunverulega ákvörðun um viðkomandi málefni.

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem þarf að ræða vel. Mér finnst merkilegt í sögulegu samhengi að þjóðin hafi kosið fjórum sinnum á árunum frá 1905 til 1944 og þá hafi þátttakan verið frá 43% upp í 98,4% og síðan höfum við kosið einu sinni núna á árinu 2010. Það er svolítið merkilegt að íslenskir fræðimenn sem hafa oft og tíðum haft allra handa skoðanir á íslenskum stjórnmálum hafi ekki talað um að ríkisstjórnin ætti að segja af sér. Mér finnst það vera mjög merkilegt af því að mér fannst vera annar tónn í sumum fræðimönnum árið 2004 þegar forseti lýðveldisins vildi ekki skrifa undir fjölmiðlalögin. Ég held að það væri mjög æskilegt að fræðimannasamfélagið, þingmenn og þjóðin færu hlutlægt yfir þessi mál. Þetta snýst ekki um núið. Þetta snýst um framtíðina. Hvernig viljum við sjá málum fyrir komið? Ef við viljum fara þessa leið sem ég tel að sé mikill hljómgrunnur fyrir þá þurfum við að svara grundvallarspurningum. Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að kveða upp úr um þær sérstaklega hér og nú. Ég ætla fyrst og fremst að vekja athygli á þeim því að mér hefur þótt skorta í umræðuna að menn tali um grundvallaratriðin í þessu máli. Ef við gerum það ekki og ef við komumst ekki að niðurstöðu um það getum við setið uppi með að fara í þjóðaratkvæðagreiðslur sem kalla á deilur að þeim loknum og vanda í stað lausnar. Nú er hins vegar ágætistækifæri, virðulegi forseti, til að fara yfir þessi mál, meta það hvort þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera ráðgefandi eða lagalega bindandi, meta í öðru lagi hversu hátt hlutfall atkvæðisbærra manna þarf að taka þátt til að niðurstaðan verði marktæk. Það verður að fara yfir kynningarmálin. Hvernig á að standa að kynningarmálum þegar atkvæðagreiðsla er? Það er alveg skýlaus réttur þeirra sem eiga að taka afstöðu, í þessu tilfelli almennings, að þeir fái haldbærar og góðar og traustar upplýsingar. Síðan hitt: Hverjir eigi að geta kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Er það forsetinn? Er það almenningur? Er það þingið? Þetta er eitthvað, virðulegi forseti, sem við verðum að svara og þetta eru ekki spurningar sem við getum rætt á einhverjum hlaupum á síðustu klukkutímum þingsins. Þetta eru allt of stórar og merkilegar spurningar til að við getum afgreitt þær með þeim hætti.