138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Ég vil vekja athygli á því að hlutur höfuðborgarsvæðisins er algjörlega óásættanlegur við afgreiðslu þessa máls. Þó að ekki sé úr miklu að moða er það algjörlega óþolandi að á árunum 2009 og 2010 skuli um 8% af því framlagi sem fer til samgöngumála samkvæmt þessari áætlun vera á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru brýn verkefni sem þarf að sinna og algjörlega er litið fram hjá því. Það er í raun hróplegt óréttlæti hvernig það augljóslega er í þessu, að umdæmi hæstv. samgönguráðherra skuli ríða langfeitasta hestinum frá þessu og þangað fara öll stóru framlögin. Þetta er óásættanlegt fyrir þann mikla fjölda sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu.