138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem er góðkunningi í þinginu og hefur eðlilega hlotið töluverða umræðu í þjóðfélaginu. Það hefur í raun verið mjög gaman að fylgjast með þeim vísindamönnum og aðilum sem hafa unnið að þróun eða að því að skapa iðnað á þessu sviði. Ég vil leyfa mér að segja eftir að hafa horft til og litið mjög vandlega á hvað þeir eru að gera að þar fari frumkvöðlar sem eiga eftir að ná árangri í framleiðslu sinni og verkefnum.

Frumvarpið sem hér kemur fram er í sjálfu sér góðra gjalda vert og nauðsynlegt að endurskoða sífellt eða fara yfir lögin, ekki síst þegar hlutirnir breytast hratt og mikil framþróun er í öllum vísindum og tækni. En ég held að við verðum alltaf að stíga mjög varlega til jarðar þegar við setjum takmarkanir sem þessar, ekki síst þegar við fjöllum um greinar og iðnað sem er alveg ljóst og ég held að allir geti verið sammála um það að felast mikil tækifæri í.

Nú veit ég að ákveðnir aðilar sem eru með starfsemi á þessu sviði hér á landi hafa m.a. kynnt starfsemi sína fyrir bændum, m.a. kornbændum sem eru líklega og hafa verið í gegnum tíðina einhverjir bestu vörslumenn lands á Íslandi. Hafa þeir sýnt áhuga á því að taka þátt í frekari framþróun hjá þessu ágæta fyrirtæki sem ég er með í huga, þar á meðal að taka þátt í að framleiða bygg sem inniheldur ákveðið iðnaðarensím eða -prótín o.s.frv. Eins og fram kemur í málsgögnum og nefndarálitum með þessu frumvarpi eru eðlilega — og ég segi eðlilega — skiptar skoðanir um það hversu langt á að ganga varðandi takmarkanir eða girðingar eða hvað á að kalla það um þessa starfsemi.

Ég tek undir að það þarf að fara varlega. Ég held þó að víða sé búið að sýna fram á að hægt sé að stunda þessa starfsemi án þess að skapa verulega hættu af. Ég er mjög fylgjandi því að þessi iðnaður sem tengist t.d. framleiðslu á erfðabreyttum jurtum eða slíku sem notað er til lyfjagerðar eða framleiðslu á iðnaðarprótíni eða einhverju álíka eigi fullan rétt á sér. Við eigum í raun að styðja við þessa starfsemi sé hægt að sýna fram á, sem ég held að hafi verið gert hér, að það sé hægt að stunda hana án þess að við stofnum einstakri náttúru okkar í hættu. Eitt af því sem ég vil alls ekki að verði gert er að menn tefli náttúrunni í tvísýnu og ég tel mikilvægt að koma því á framfæri.

Í nefndarálitum er ágætlega farið yfir þetta mál. Hins vegar má ráða af nefndaráliti minni hlutans að hann telur málið hafa getað fengið og átt að fá enn betri yfirferð og umfjöllun en varð í nefndinni og velti ég fyrir mér hvort í raun sé ástæða til að málið fari í gegn, ekki síst af því að bent er á það í nefndarálitinu að von sé á skýrslu um reynslu landa innan Evrópusambandsins á því hvernig tilskipun sú sem við ætlum í rauninni að fullgilda eða fylgja eftir hafi gengið. Þetta er eitt af þeim málum sem fá mann til að velta fyrir sér af hverju við séum að flýta okkur þegar gagnrýnt hefur verið hvernig þetta hafi verið unnið og framkvæmt Það eru að koma fleiri upplýsingar og eins og kom fram í ræðu hv. þingmanna hafa jafnvel einstakir nefndarmenn þurft að leggja á sig töluvert mikla vinnu við að afla sér upplýsinga og gagna.

Í inngangi nefndarálits minni hlutans kemur fram að hann mótmæli afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpinu en það hefur líka komið fram að ákveðnar breytingartillögur og breytingar við frumvarpið liggi frammi frá meiri hlutanum og því ber að fagna. Í þeim breytingartillögum er ljós vilji meiri hlutans til að skýra þau álitaefni sem klárlega voru í nefndinni og ég held að það sé til bóta og sé jafnvel grunnur að því að um þetta mál geti orðið breiðari samstaða en ella.

Í áliti minni hlutans er jafnframt sagt frá því að fyrir nefndinni hafi komið fram ýmis sjónarmið, með eða á móti löggjöfinni og annað, og sneri gagnrýnin m.a. að því að menn töldu, minni hlutinn sérstaklega, ekki tilefni til að ganga lengra með þessa tilskipun en verið er að fullnægja með frumvarpinu.

Það eru settar fram ákveðnar spurningar við frumvarpið í nefndaráliti minni hlutans þar sem minni hlutinn rökstyður af hverju hefði þurft að vinna þetta mál enn frekar og nánar. Ég ítreka það aftur að ég er ekki sérstaklega mikill áhugamaður um að erfðabreyttar lífverur eða þessi starfsemi fái að vera óheft hér á landi, alls ekki, heldur þurfum við að vanda okkur þegar við setjum takmarkanir sem þessar til að við stofnum ekki í hættu eða stöndum í vegi fyrir mikilvægum möguleikum til framþróunar, nýsköpunar og tæknirannsókna. Við vitum að upp úr svona starfi spretta jafnan hliðarverkefni og áhugaverð verkefni. Iðnaður sem tengist þessu er að sjálfsögðu mjög verðmætaskapandi og getur skapað mikinn gjaldeyri. Þá er vitað að landbúnaðargeirinn og aðilar innan hans hafa unnið með aðilum í þessu eins og ég nefndi áðan að rannsóknum og þróun. Það er kannski til marks um að það hefur tekist að skýra málin og benda á að það sé hægt að gera þetta án þess að stofna náttúrunni í hættu.

Meðal þeirra atriða sem minni hlutinn telur að skoða þurfi er orðalag texta tilskipunarinnar, m.a. vegna þess að ekki hafi verið skýrt nógu vel hvernig það samræmist orðalagi frumvarpsins. Hér er talað um réttarþróun innan Evrópusambandsins af því að við erum vitanlega að fullnægja ákveðinni skyldu sem okkur væntanlega ber samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hvernig tilskipunin hefur verið innleidd í öðrum ríkjum og hvernig frumvarpið samrýmist markmiðum stjórnvalda um að ýta undir þróun rannsókna um nýsköpun o.s.frv.

Ég vil sérstaklega fagna því að í breytingartillögum meiri hlutans eru skýrð eins og ég sagði áðan hugtök og einstök orð. Það er t.d. komið út úr frumvarpinu að reisa veggi heldur er verið að tala um aðra þætti núna. Það er ekki eins hart kveðið að orði. Nýsköpun í þessum geira er að sjálfsögðu eitt sem við öll getum tekið undir að sé áhugaverð. Við hljótum að vilja hjálpa til við að þetta geti þróast og þeir vísindamenn sem að þessu starfa geti miðlað reynslu sinni og þekkingu en til þess þarf umhverfið vitanlega að vera í lagi.

Þó að það sé kannski ekki akkúrat til umræðu hér þá er mikið rætt um erfðabreytt matvæli út um allan heim. Ég held að sem betur fer hafi okkur Íslendingum tekist að hafa matvælaframleiðslu okkar hreina og lausa við slíkt. Við munum eiga og erum að sjálfsögðu í samkeppni um matvæli og matvælaframleiðslu og sölu á matvælum og mögulega getum við átt forskot ef við náum að halda þeim hreinleika sem er í afurðum okkar.

Við þekkjum deilurnar um kornið og hefur verið sýnt fram á að víða er mannskepnan að berjast um framleiðsluna á korni fyrir bílana við iðnaðinn þar sem notað er korn til að framleiða eldsneyti. Ég er ekki að mæla því bót en það kann að vera nauðsynlegt að nýta erfðatæknina til að sjá bifreiðum og öðru fyrir því eldsneyti svo að menn geti notið hreinna afurða.

Lyfjageirinn er gríðarlega stór og í honum felast mikil tækifæri. Þar erum við hins vegar að tala um mjög sérhæfða starfsemi, sérhæft prótín og annað sem er verið að framleiða. Hins vegar er ljóst að í ýmsum efnaiðnaði þar sem hægt er að nota unnar afurðir með þessari tækni, þ.e. nota erfðabreyttar lífverur til að framleiða ákveðna hluti fyrir framleiðsluna, eru mikil tækifæri. Hvort við erum sátt við þær hömlur eða takmarkanir sem við getum sett án þess að takmarka möguleikana til framsóknar er eitthvað sem við verðum að velta verulega fyrir okkur.

Frú forseti. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er þetta í sjálfu sér ekki nýtt mál í þinginu. Oft hefur verið rætt hvernig þetta eigi að líta út, þ.e. umgjörðin um þessa starfsemi. Hér í frumvarpinu er kafli um upplýsingagjöf til almennings og er hann góðra gjalda verður. Það er mikilvægt að við komum upplýsingum á framfæri við almenning um hvað þetta þýðir og hvaða starfsemi þetta er. Í athugasemdum við frumvarpið er rakin þessi breytingatilskipun og annað sem við erum að bregðast við og vona ég svo sannarlega að mál þetta verði til að skapa skýrari ramma utan um þessa starfsemi á sama tíma og ég óska þess svo sannarlega að við séum ekki að setja slíkar girðingar að þessi starfsemi geti ekki vaxið og þróast hér á landi. Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneyti munu að sjálfsögðu skipa veigamikið hlutverk í því að fylgjast með að starfsemin sé í lagi og eðlileg. Ég hef þá trú verði þetta frumvarp að veruleika eins og það er að þá skýri það út þessa hluti sem ég nefndi. Ég hef smá áhyggjur af því að það sé enn takmarkandi. Hvort það er svo takmarkandi að það komi í veg fyrir framþróun ætla ég ekki að fullyrða. Það er búið að breyta því töluvert til batnaðar en, frú forseti, ég hef samt áhyggjur af því hvert við stefnum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni þó að ég eigi smávegis eftir af ræðutímanum. Ég held að ég hafi komið meginsjónarmiðum mínum í málinu á framfæri. Ég hef fylgst með þessu og fleiri málum í töluvert langan tíma, fylgst með því hver þróunin í þessu er og tækifærin, setið fyrirlestra, sótt kynningarfundi og annað og ég fullyrði að mjög færir aðilar hér á landi höndla með þetta og í þessu felast mikil tækifæri.