138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að blanda mér aðeins í þessa umræðu vegna þess að hér er á ferðinni mál sem er um margt merkilegt og ég tók þátt af fullum þunga í umræðu um svipað mál sem kom inn í þingið sl. sumar. Ljóst er að verið er að reyna að innleiða ákvæði vegna tilskipunar Evrópusambandsins og þá vakna alltaf spurningar hjá okkur þingmönnum um það með hvaða hætti það er gert og hvort við séum að gera það með opin augu.

Í þessu máli tel ég algjörlega ljóst að mikill vafi leikur á hvort gengið sé of langt miðað við orðalag tilskipunarinnar sjálfrar. Þess vegna er full ástæða til þess að fara enn og aftur vel yfir málið og vinna það betur, eins og bent er á í nefndaráliti minni hlutans, og fara vel yfir þann rökstuðning sem hér liggur frammi. Sérstaklega í ljósi þess að hér eru nokkur fyrirtæki sem ætla sér og hafa þegar komið á fót öflugri starfsemi sem hætta er á að þetta frumvarp geti þrengt verulega að.

Það er engin ástæða til þess að hætta á það þegar það eina sem út af stendur er að fara aðeins betur yfir málin, bera saman texta tilskipunarinnar og frumvarpið, sem hér liggur frammi, og fara yfir það með hvaða hætti aðrar þjóðir, sérstaklega í Norður-Evrópu, hafa innleitt þessa tilskipun Evrópusambandsins, einfaldlega til þess að ástunda vönduð vinnubrögð.

Maður fær það stundum á tilfinninguna, frú forseti, að verið sé að drífa mál í gegnum þingið með miklum hraði einfaldlega til þess að geta sagst hafa afgreitt einhver mál. Ég hélt einhvern veginn að við hefðum lært eitthvað af því bankahruni sem hér varð, sérstaklega með hvaða hætti við innleiddum ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins sem í ljós kom að höfðu víðtækar afleiðingar á íslenskan efnahag. Þar er ég að tala um tilskipunina um innstæðutryggingarsjóðinn.

Gott og vel, frú forseti, meiri hlutinn hefur ákveðið að þetta frumvarp skuli verða að lögum og þá er rétt að fara aðeins yfir það hvaða þætti þess þarf að skoða betur. Það fyrirtæki sem fremst er í okkar ranni á þessu sviði er ORF Líftækni. Það þekkja allir þá miklu umræðu sem spannst í kringum frumvarpið sem lagt var fram í fyrrasumar um erfðabreyttar lífverur. Misskilningurinn í orðræðunni við það frumvarp og í kringum það allt saman og viljinn, eiginlega einbeittur vilji til þess að vera á móti framförum á þessu sviði var mjög bersýnilegur og endaði á því sorglega athæfi að tilraunaakur fyrirtækisins í Gunnarsholti, þar sem byggi hafði verið sáð, var eyðilagður.

Einhver mikill misskilningur er í gangi varðandi þessi mál. Það bygg sem þarna var sáð var ekki ætlað til manneldis, við erum ekki að tala um erfðabreytt matvæli, þannig að ljóst er að einhver mikill misskilningur er í gangi og æsingurinn og mér liggur við að segja umhverfisfasisminn sem hér reið öllu á þeim tíma var ekki til fyrirmyndar og ég vonast til þess að við eigum aldrei eftir að sjá svona hluti aftur. Ég spyr mig hvort ástæðan fyrir því að þetta frumvarp lítur út fyrir að ganga lengra en tilskipunin eigi rætur sínar að rekja til misskilnings af því tagi. Ég vænti þess að meiri hlutinn hér í þinginu hugsi sig vel um hvort menn vilji virkilega ganga svo langt.

Við höfum öll talað fyrir því að það þurfi að efla íslenskt atvinnulíf og fjölga tækifærum, það þurfi að fjölga eggjunum í körfunni, stækka markaðinn og koma með ný sóknarfæri. Við eigum slík tækifæri og eitt af flaggskipum okkar til framtíðar þar er ORF Líftækni. Ætlum við nú að segja að ástæða sé til að þrengja það verulega að starfsemi þess fyrirtækis að það gæti komið niður á því með hvaða hætti slík starfsemi þróast?

Ég hef áhyggjur af þessu. Menn, m.a. vinstri menn, komu hér fram og sögðu þegar til stóð að virkja fyrir austan, Kárahnjúkavirkjun, að það væri hægt að gera svo margt annað. Það væri hægt að skapa 500 störf bara með því að gera eitthvað annað.

Eitthvað annað, hvað er það? Ég man eftir því að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sögðu þegar ljóst var að virkja ætti á Austfjörðum þrátt fyrir allt: Fínt, viljið þið vinstri menn ekki koma með þessi 500 störf hingað vestur, hér vantar fleiri atvinnutækifæri? Komu þessi störf? Komu vinstri menn með hugmyndirnar vestur? Nei, þeir gerðu það ekki.

Hér erum við akkúrat með fyrirtæki sem er að gera eitthvað annað, sem er að gera eitthvað nýtt, sem er að sækja fram og kemur til með að gera frábæra hluti ef við bara sköpum þau skilyrði að ríkið gangi ekki með einhverjum undarlegum ákvörðunum lengra en nokkurt ríki innan Evrópusambandsins eða á Evrópska efnahagssvæðinu í því að setja löggjöf sem takmarkar starfsemi slíkra fyrirtækja og takmarkar þá möguleika til framþróunar á þessu sviði, sem mér sýnist hér vera gert.

Frú forseti. Ég harma að það hafi ekki verið farið betur yfir málið í nefndinni og ég vonast til þess, af því að enn er möguleiki, að fulltrúar meiri hlutans í umhverfisnefnd taki það nú upp hjá sér að fara aftur yfir þetta mál, það er engin ástæða til að vera með asa vegna þessa máls. Það væri í anda vandaðra vinnubragða að fara enn einu sinni yfir þetta. Jafnframt finnst mér svolítið vera reynt að komast fram hjá óþægilegum hlutum. Ég játa að nefndin gerir breytingar á frumvarpinu sem eru til bóta en hins vegar er verið að færa vald til ráðherra. Það er ráðherra sem setur nánari ákvæði í ýmsar reglugerðir, t.d. um fullnægjandi tálmanir sem eigi að hindra að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur og líffræðilega fjölbreytni í umhverfi. Það er verið að færa þetta vald yfir til ráðherra í staðinn fyrir að setja það inn í löggjöfina. Það er svo sem í lagi ef maður vissi hvaða sjónarmið mundu þá ráða.

Hvaða sjónarmið eru það sem ráðherrann ætlar að hafa í huga þegar hann setur slíkar reglugerðir? Þetta eru knýjandi spurningar sem ég sé ekki að svör hafi komið við hér í umræðunni og ég tel að full ástæða væri til að ræða betur inni í umhverfisnefnd.