138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég taka fram að ég held að það sé engin sérstök þörf á að afgreiða þetta mál á vorþinginu, fremur en ýmis önnur mál sem hæstv. ríkisstjórn leggur reyndar talsverða áherslu á. Ég verð að segja að mér finnst forgangsröðunin ekki alveg í lagi í störfum þingsins þegar mál af þessu tagi er sett fram fyrir ýmis önnur mál, bæði í störfum nefnda og í umfjöllun í þingsal. Þetta segi ég ekki vegna þess að siðvæðing og siðsemi í stjórnsýslunni sé ekki mikilvægt viðfangsefni. Spurningin er bara hvort þetta frumvarp sem hér liggur fyrir er meira en orðin tóm. Þá kem ég inn á atriði sem hv. þm. Róbert Marshall og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir deildu um áðan. Spurningin er einfaldlega hvort þetta er mikilvægt skref eða ekki.

Frumvarpið sem slíkt er að sjálfsögðu ekki skaðlegt á nokkurn hátt, í ljósi þess sem hv. þm. Róbert Marshall sagði hér áðan. Það er ekki skaðlegt að setja á fót eða búa til formlegan ramma utan um það að ráðherra, hvort sem er fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, setji siðareglur fyrir tiltekinn hóp. Það er ekkert að því og enginn skaði er skeður með því. Það sem ég leyfi mér hins vegar að benda á er að með því er heldur enginn sigur unninn og ekkert mikilvægt skref stigið. Við höfum séð ótal dæmi um það að fyrirtæki og stofnanir, fjármálastofnanir sem aðrar, hafa sett sér háleit markmið, göfugar yfirlýsingar og fínar og fallega orðaðar siðareglur sem síðan hafa engu máli skipt þegar til kastanna kemur í daglegum störfum. Siðareglurnar sem slíkar eru því ekki skaðlegar en menn ættu kannski að varast að gera of mikið úr gagnsemi þeirra.

Í orðaskiptum áðan var réttilega vikið að því að margar af þeim reglum sem finna má í þeim drögum að siðareglum sem frumvarpinu fylgja eru nú þegar í lögum. Það er nefnilega svo að stjórnsýslan er lögbundin og störf þeirra sem innan stjórnsýslunnar starfa eru miklu meira fyrir fram mótuð og ákveðin í löggjöf en störf annarra í þjóðfélaginu. Þess vegna þarf ekki að undra að ítarlegri lagareglur kveði á um skyldur og eftir atvikum réttindi þeirra sem starfa í stjórnsýslunni en þeirra sem starfa á öðrum vettvangi. Því er það rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að margt af því sem ætlunin er að setja inn í þessar siðareglur, miðað við greinargerð með frumvarpinu, er nú þegar í lögum. Á fundum nefndarinnar nefndi ég m.a. að stjórnsýslulög taka á mörgum þáttum sem virðist vera ætlunin að vísa til í siðareglunum. Upplýsingalög kveða á um marga aðra þætti og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sömuleiðis. Hvað varðar samskipti Alþingis við ráðherra og stjórnsýsluna fjalla ákvæði þingskapa og stjórnarskrár ítarlega um marga þætti í því sambandi. Ég sé ekki betur en að í þeim drögum að siðareglum sem fylgja með frumvarpinu sé ætlunin að koma inn á svið sem að jafnaði heyrir undir svið almennra hegningarlaga. Það eru atriði sem verða í rauninni ekkert bætt með því að setja þau í siðareglur. Ef eitthvað er óheimilt og refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum fær það ekki aukið vægi þó að það sé sett í almenn orð í einhverjum siðareglum.

Við skulum hafa í huga að hvað varðar fjölmarga þætti sem hér um ræðir eru þær efnislegu reglur sem eiga að gilda, annars vegar um ráðherrana og hins vegar um starfsmenn Stjórnarráðsins og aðra ríkisstarfsmenn, hreinlega orðaðar miklu skýrar og skilmerkilegar í gildandi lögum en a.m.k. í þeim drögum að siðareglum sem hér liggja fyrir. Ég fæ ekki séð að almennt orðuð og stundum óljós orðanotkun í siðareglum — þó að það sé fallegur texti sem byggir á fallegum markmiðum fæ ég ekki séð að það bæti neinu sérstöku við þegar við höfum fyrir skýrar lagareglur sem gilda um viðkomandi svið. (PHB: Og sæmilega heiðarlegt fólk.) Já, við skulum gera ráð fyrir því, eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir, að almennt sé fólk sæmilega heiðarlegt. Við vitum það hins vegar að stundum verður að setja skýran ramma utan um starfsemi með boðum og bönnum í lögum og þá viðurlögum ef við á. Ég held að það sé betra að gera það í skýrum lagatexta frekar en með almennum orðum í siðareglum sem að mínu mati, eins og þetta blasir við mér, bæta afskaplega litlu við það sem þegar er í lögum.

Það er hins vegar rétt, og ég tek undir það sem hv. þm. Róbert Marshall sagði í framsöguræðu sinni, að það er gott fyrir menn að fara í gegnum vangaveltur og umræður um mál af þessu tagi. Það er gott fyrir menn að átta sig á því, ræða það og horfa bæði inn á við og í kringum sig hvað er siðlegt og gott. Það er mjög jákvætt. En ég velti fyrir mér hvort það væri ekki nær, áður en farið er út í framkvæmd þessara laga, að fara t.d. í ákveðið kynningarátak meðal starfsmanna stjórnsýslunnar, Stjórnarráðsins og opinberra starfsmanna almennt, þar á meðal jafnvel ráðherra, á því hvaða reglur gilda nú þegar á þessu sviði. Ég vísa til þess að umboðsmaður Alþingis hefur árum saman vakið athygli á því í ársskýrslu sinni að mikil þörf sé á að kynna fyrir starfsmönnum í stjórnsýslunni m.a. hvað séu góðir stjórnsýsluhættir og hverjar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og annarra laga af því tagi eru. Ég held að það væri gott að byrja á því að fara í slíkt átak áður en menn fara út í lagasetningu.

Ég segi fyrir sjálfan mig að málið er þess eðlis að mér finnst ekki eðlilegt að leggjast gegn lagasetningunni. Ég tel hins vegar, ólíkt því sem kemur fram í áliti meiri hluta allsherjarnefndar, að þetta sé ekki mikilvægt skref. Ég held að þetta sé ákveðin sjálfsblekking. Ég held að sjálfsblekkingin felist í því að menn segi sem svo: Við ætlum að setja siðareglur og þar með verður allt í lagi. Þar með komum við þessu öllu í góðan farveg. Menn létta sér kannski viðfangsefnið með því að reyna að búa til einhvern farveg fyrir þetta í staðinn fyrir að fara í sjálfsskoðun, skoðun á umhverfi sínu og umræður um þessi mál, með því að segja bara: Nú setjum við siðareglur, stimpill á það, búið og gert, við getum hakað við það á hundraðmálalistanum. Við erum voða góð, við erum að setja siðareglur. (Gripið fram í.) Þetta er ákveðin friðþæging.

Hins vegar tek ég fram, eins og ég gerði í upphafi, að málið er þess eðlis að frumvarpið býr bara til ákveðinn ramma, þ.e. heimild fyrir ráðherra til þess að setja reglur af þessu tagi, og ég get ekki lagst gegn því. Ég mun ekki leggjast gegn því að ráðherra nýti sér síðan heimildina til að setja siðareglur. Ég vara bara við því að menn telji að með því sé stór áfangi í höfn.