138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Þetta er um margt merkilegt mál og mér finnst eiginlega makalaust hve lítið hefur farið fyrir því. Þetta er stórmál og gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga og tengist einmitt því máli sem var einna mest til umræðu hér á landi á síðasta ári, þ.e. Icesave-málinu sem varðaði einmitt þennan sama sjóð.

Í frumvarpinu er lagt til að eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði veitt lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Til að unnt sé að veita þá vernd sem er kveðið á um í frumvarpinu er innlánsstofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að greiða iðgjald til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem skal inna af hendi greiðslu hvíli greiðsluskylda á honum.

Eins og kunnugt er hafa íslensk fjármálafyrirtæki greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta en eftir fall bankanna reyndist ekki nægt fé í sjóðnum til að mæta tapinu og nemur tap hans mörg hundruð milljörðum króna. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 94/19/EB um innstæðutryggingar skal sérhvert aðildarríki tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á einu eða fleiri innlánatryggingakerfum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skiptingu sjóðsins í A-deild (ný deild) og B-deild (núverandi deild) og skal B-deildin lögð niður þegar greiðslu skuldbindinga hennar er lokið vegna ábyrgða sem hafa fallið á hana fyrir gildistöku laganna. Frá gildistöku frumvarpsins munu iðgjöld renna inn í A-deild verði frumvarpið að lögum og er ætlað að mæta áföllum framtíðarinnar.

Í gildandi lögum er mælt fyrir um að verndin nemi 20.887 evrum — og það er okkur þingmönnum sem höfum fjallað um Icesave-málið gersamlega ógleymanleg tala. Samkvæmt frumvarpinu, sem við fjöllum um nú, er kveðið á um að verndin nemi 50.000 evrum og hefur meiri hluti nefndarinnar lagt til í breytingartillögum sínum að verndin muni nema 100.000 evrum frá og með 1. janúar 2011. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að Evrópusambandið hefði ákveðið að hækka verndina í þeim tilgangi að auka tiltrú á bankakerfi innan sambandsins.

Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að enginn tryggingarsjóður í heiminum væri fær um að mæta falli stærstu fjármálastofnunar sem starfsemi hans næði til. Þá var bent á að það muni taka marga áratugi að safna nægilegum sjóði til að geta mætt falli eins af hinum þremur stóru íslensku viðskiptabönkum. (Gripið fram í: 30.) Ljóst er að slíkur sjóður mun ekki gagnast núlifandi Íslendingum og að um falskt öryggi er að ræða. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur það einnig verið rætt að stofnaður verði sameiginlegur sjóður á öllu evrusvæðinu sem væri það burðugur að hann gæti greitt tap af falli stórra banka. Enn er þó langt í að slíkur sjóður verði stofnaður. Ég tel rétt að reynt sé að taka upp samstarf við stærri erlendan sjóð, t.d. norska tryggingarsjóðinn. Fram kom að ekki hafi verið reynt að koma slíku samstarfi á.

Á meðan fólk treysti bönkunum var nóg fyrir flesta að trúa því og treysta að innstæður þeirra væru öruggar í bönkunum. Það var ekki fyrr en fór að hrikta verulega í bankakerfinu að það skapaðist vantraust á kerfið sem leiddi af sér áhlaup á bankana sem þeir gátu ekki staðið af sér. Af því má sjá að falskt öryggi getur virkað ágætlega, svo lengi sem tiltrú á kerfinu er fyrir hendi. Nú er trú almennings hins vegar í lágmarki og því mun tómur eða félítill innstæðutryggingarsjóður ekki virka sannfærandi í augum fólks. Þá hefur bæði almenningur og bankamenn lært það af fenginni reynslu að í raun er ríkisábyrgð á innstæðum því þegar bankakerfið hrundi greiddi ríkið allar innstæður. Rökréttast er að gera ráð fyrir að komi til annars hruns mundi ríkisvaldið bregðast eins við.

Að stofna nýja en vanmáttuga deild í gjaldþrota sjóði er líkast því að sleppa því að koma upp öryggiskerfi í byggingu en setja límmiða sem gefur hið gagnstæða til kynna í gluggann. Húsið er algjörlega óvarið en einhverjir mundu hugsanlega trúa því sem á límmiðanum stendur og hætta við að brjótast inn.

Þar sem ljóst er að greiðslur í nýja deild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eru gagnslausar mæli ég með því að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að leita samstarfs við stærri og burðugri tryggingarsjóð á erlendri grund.