138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða .

424. mál
[00:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum, forsvarsmönnum meirihluta- og minnihlutaálita, fyrir framsögur þeirra. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég er aðili að minnihlutaálitinu og langar að nefna kannski tvö eða þrjú atriði til viðbótar við það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi. Eins og fram kom hjá honum er þetta þriggja atriða frumvarp. Í fyrsta hlutanum er eins og við höfum oft rætt áður hér í vetur opin heimild til ráðherra eða eins og stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, 3. málsl., svohljóðandi: Einnig er ráðherra heimilt að setja sérstakar takmarkanir fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum byggðarlögum ef talið verður að tilefni sé til þess.“

Sem sagt alveg galopin heimild sem við höfum talið að væri fulldjarfleg og er í anda þess sem við höfum þó séð frá þessu ráðuneyti upp á síðkastið. Og eins og fram hefur komið erum við með breytingartillögu sem ég held að gæti átt ágætishljómgrunn, eins og fram kom hjá formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Atla Gíslasyni.

Annar liðurinn er hins vegar liður sem við getum vel stutt og snýr að því að gera þennan byggðakvóta og reglur í kringum hann sveigjanlegri og auka þar af leiðandi hagræði. Fram kom hjá forsvarsmanni nefndarálits minni hlutans að við höfum því miður verið sjá frumvörp sem hafa gengið í hina áttina. Það er því gleðilegt að hér skuli vera gengið í aðra átt, þ.e. í átt að meiri sveigjanleika og hagræðingu innan þessa kerfis sem vissulega er nokkuð flókið og þess vegna koma þessar lagaheimildir hér inn til að tryggja að það sé hægt að úthluta þeim.

Eins og komið hefur fram hefur mesta vinnan við frumvarpið snúið að 2. gr. sem mun heita 3. gr. eftir breytingartillögur meiri hlutans. Þar hefur verið unnin heilmikil vinna af nefndinni og ég vil þakka og hrósa formanni nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, fyrir það að hafa lagt þarna mikla vinnu af mörkum. Við í nefndinni höfum verið held ég einhuga í því að horfast í augu við þann vanda sem getur komið upp ef um 20% af aflaheimildum hverfa úr byggðarlagi og inn í fjármálafyrirtækin sem hugsanlega gætu þá farið með þau að vild sem gæti auðvitað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir viðkomandi byggðarlag. Það má því segja að maður hafi sannarlega vissa samúð og skilning á hugmyndafræðinni að geta gripið inn í. Hins vegar er þetta eins og fram hefur komið í umræðum meira og minna opin heimild.

Ég vil þó ítreka að breytingartillagan sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram er miklu betri en upphaflegu drögin en gengur hins vegar með þeim hætti fram að maður getur ekki alveg séð fyrir sér hvernig þetta á að geta gerst allt saman. Þess vegna tek ég undir það sem kemur fram í lokaáliti minni hlutans að skynsamlegt væri að fresta afgreiðslu þessa máls til hausts og freista þess, þrátt fyrir að það hafi svo sem ekki gengið vel, að fá alla þessa aðila, þ.e. aðila fjármálamarkaðarins, hagsmunaaðila í sjávarútvegi, Byggðastofnun og sveitarfélög, að málinu til að finna sameiginlega lausn. Ég held að það væri kannski skynsamlegast.