138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[01:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því ber að fagna að pólitísk samstaða hefur náðst á milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi um að efna til stjórnlagaþings. Þetta stjórnlagaþing verður þó einungis ráðgefandi því að alþingismenn munu hafa lokaákvörðun í þessu máli sem stjórnlagaþing leggur til. Samt sem áður er með frumvarpi þessu gerð heiðarleg og einlæg tilraun til að ná sátt á meðal þjóðarinnar um að endurskoða og breyta, ef þurfa þykir, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Ég harma það, og hef sagt það áður, að ekki sé til umræðu og afgreitt á sama tíma frumvarp um persónukjör því að það eru þær mestu lýðræðisumbætur sem um getur í þessu máli ásamt þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru hér til umræðu í dag og verða líklega að lögum. Stjórnvöld hafa því ekki stigið skrefið alveg til fulls í þessum lýðræðisumbótum en nú er frumvarp um stjórnlagaþing að verða að lögum.

Ég styð þær breytingartillögur sem koma fram á þingskjali 1296 enda er þar einungis um smávægilegar tæknilegar útfærslur að ræða. En þá breytingartillögu sem er á þingskjali 1301 get ég ekki stutt og nú rökstyð ég það. Þar skal Alþingi kjósa sjö manna nefnd sem á að vera sjálfstæð í störfum sínum og undirbúa þjóðfund. Þátttakendur á þjóðfundi verða eitt þúsund talsins. Þetta finnst mér of mikill fyrirvari á stjórnlagaþingið því að Framsóknarflokkurinn hefur ætíð talað um að stjórnlagaþing skuli vera sjálfstætt. En í meðförum þingsins á milli 2. og 3. umr. sættist ég á það að sjálfsögðu, til að ná sátt hér um málið, að gera ekki athugasemdir við það, en ég vil lýsa skoðun minni eftir 2. umr. og ber að virða það.

Að mínu mati, með þessu ákvæði um sjö manna nefndina og þjóðfundinn, er aðdragandinn að stjórnlagaþinginu of flókinn, pínulítið kostnaðarsamur og örlítið of langur. Framsóknarflokkurinn hefur stjórnlagaþing á stefnuskrá sinni og hugmyndir okkar hafa ætíð gengið út á það að stjórnlagaþingið sjálft verði sjálfstætt í sínum niðurstöðum. En að mínu mati er það þannig að þegar þúsund manna þjóðfundur hefur komist að niðurstöðu sem lögð er fyrir stjórnlagaþing er stjórnlagaþingið að nokkru leyti bundið af þeim niðurstöðum. Ég lít fram hjá þessu nú vegna þess að ég tel þá sátt sem náðst hefur meðal 63 þingmanna þjóðarinnar svo mikilvæga.

Ég fagna þessari niðurstöðu, herra forseti. Ég tek undir með formanni Framsóknarflokksins, Jónasi frá Hriflu, sem var formaður 1941. Hann var fyrsti maðurinn sem lagði til stjórnlagaþing. Framsóknarflokkurinn hefur ætíð stutt stjórnlagaþing, það er nú orðið að veruleika. Jónas var leiðtogi Framsóknarflokksins í ýmsum lýðræðisumbótum. Ein þeirra er að verða hér að veruleika. Ég tek undir með varaformanni Framsóknarflokksins þegar hann sagði við 2. umr.: Til hamingju, Íslendingar. Til hamingju, þingmenn, nú erum við að vinna stóran sigur. Lýðræðið lifir enn þá á Íslandi.