138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Verkefnin verða áfram til staðar þó að ríkisstofnunum fækki og verkefnum sé slegið saman, þau hlaupa ekki frá okkur. Það er síðan sérstakt úrlausnarefni að fjalla um það hvort menn vilja draga eitthvað úr umfanginu. Þó að það verði ekki gert er það sannfæring mín að til lengri tíma litið leiðir sameining stofnana til hagræðingar. Þannig verður dregið úr yfirbyggingu en hún kostar sitt.

Síðan minni ég á að við yfirferð utanríkismálanefndar á þessu máli og með heimsóknum gesta m.a. frá Landhelgisgæslu kom fram að þeir telja að hægt verði að nýta starfslið, starfsaðstöðu og slíka hluti betur ef starfsemin verður rekin undir einni yfirstjórn, í því fælist umtalsverður ávinningur.

Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður sagði og vísar í kostnaðarmat með frumvarpinu. Það liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um það hvað ávinningurinn getur verið mikill en hann er sagður umtalsverður. Tíminn verður að leiða í ljós hvað kemur út úr því. Mín sannfæring er sú að með því að samþætta starfsemi með þeim hætti sem hér er lagt til, draga úr yfirbyggingu og nýta betur innviði starfseminnar en gert er í dag, þá náist fram almenn hagræðing. Ég hefði haldið að við ættum öll að geta sameinast um slík markmið á Alþingi á þessum tímum.