138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið kl. 3 að nóttu. Ég vil byrja á því að lýsa andstöðu minni við að við séum að ræða þetta mikilvæga mál í skjóli nætur undir þeim kringumstæðum þar sem beðið er eftir atkvæðagreiðslum og ekki mikil stemning fyrir löngum ræðuhöldum sem ég hefði þó getað sett á. En af tillitssemi við félaga mína ætla ég að reyna að stytta mál mitt og vil byrja á því að taka undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson fór yfir, nefndarálit 1. minni hluta. Ég var því miður fjarverandi þegar málið var afgreitt úr nefnd og þess vegna skrifar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson undir það en ekki ég. Ég ætla ekki að endurtaka það efnislega og tek undir það sem þar kemur fram.

Ég vil taka nokkur atriði til sem eru í praktískari kantinum varðandi þetta mál. Þrátt fyrir að nefndin hafi svo sem unnið málið ágætlega, kallað til gesti sem óskað var eftir og tekið ágætan tíma í þetta er það óneitanlega algerlega ljóst að það stóð aldrei annað til en að afgreiða málið út í miklu hasti. Ég er líka einstaklega ósátt við að nefndin skuli ekki hafa tekið heimboði Varnarmálastofnunar sem barst á lokadögum nefndarstarfsins vegna þess að þeir sem kynna sér þetta hljóta að sjá að þetta er ekki rétta leiðin að þessu máli.

Það hefur verið farið ítarlega í það hér að byrjað var á öfugum enda. Það er algerlega óskiljanlegt þegar maður er búinn að sitja við 1. umr. málsins, lesa öll gögnin, sitja í nefndinni, að þá stendur eftir sú spurning ósvöruð: Til hvers eru menn að þessu? Þeirri spurningu er ekki svarað nema með því að hér hafi verið um að ræða pólitísk hrossakaup. Þetta var „díllinn“ sem vinstri grænir fengu. Eins og komið hefur fram í máli okkar sjálfstæðismanna stendur ekki á okkur að leita hagræðingar í þessum málaflokki og það er augljóst og hefur verið bent á það að með því að samnýta krafta og færa t.d. saman verkefni sem Landhelgisgæslan er að sinna núna er hugsanlega hægt að ná hagræðingu. En það gerist ekki þegar svona bútasaumur og handahófskenndar ákvarðanir eru látin ráða för. Það kom skýrt fram í andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar við mig áðan að það er ekkert búið að hugsa fyrir þessu, það er ekkert búið að áætla, það er ekkert búið að reikna, það er ekkert búið að gera sem bendir til þess að þessi hagræðingarmarkmið muni ná fram að ganga.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson reifaði áðan hversu óskiljanlegt það er að nú, tveimur árum seinna með sama stjórnmálaflokkinn í sama utanríkisráðuneytinu, skuli stefnunni algerlega hafa verið kúvent. Mig langar til gamans, vegna þess að við erum að fara að greiða um þetta atkvæði hér á eftir, og ég tók eftir því að hæstv. félagsmálaráðherra er í húsi og mun þá væntanlega greiða atkvæði með þessu máli, að lesa atkvæðaskýringu hæstv. ráðherra sem sýnir glögglega þá kúvendingu sem við sjálfstæðismenn höfum verið að benda á í þessu máli. Nú verður fróðlegt að sjá hvort hann er hlynntur þessu ágæta máli vegna þess að á þeim tíma sem lögin um Varnarmálastofnun voru sett var hæstv. ráðherra varaformaður hv. utanríkismálanefndar. Hér segir hæstv. núverandi ráðherra, þáverandi hv. varaformaður utanríkismálanefndar, eftir að hafa farið í örlitla söguskoðun sem ég ætla ekki að fara í hér, með leyfi forseta:

„Með setningu laga um varnarmál er bundinn endir á þetta ástand. Nú verða heimildir stjórnvalda til aðgerða á sviði varnarmála í fyrst sinn takmarkaðar með lögum og gagnsæi og lýðræðislegt eftirlit með þeim tryggt. Þá er í fyrsta sinn leitt í lög að starf Íslendinga að varnarmálum skuli einungis vera borgaralegs eðlis og það aðskilið frá almennri öryggisgæslu lögreglu og landhelgisgæslu. Þessi tímamótalöggjöf er því kærkomin fyrir alla áhugamenn um sjálfstæða utanríkisstefnu þjóðarinnar. Nú er endanlega bundinn endir á tíma kalda stríðsins í íslenskum varnarmálum.“

Þetta kallar hæstv. félagsmálaráðherra 16. apríl 2008 tímamótalöggjöf og hann tiltekur sérstaklega að varnarmálin skuli einungis vera borgaralegs eðlis og þau aðskilin frá almennri öryggisgæslu. Nú er það helsta takmarkið með þessari löggjöf að sameina þetta tvennt. Tveimur árum seinna er þessu algerlega snúið á hvolf. Ég rakst á aðra atkvæðaskýringu, hún er frá hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem var hv. þingmaður á þeim tíma. Þá er alveg greinilegt að stefnan sem verður ofan á núna er lögð fram vegna þess sem hv. formaður utanríkismálanefndar talaði um áðan, að lögin hefðu verið umdeild vegna þess að í þeim fólst svo mikil hervæðing. Ég verð að lýsa mig andsnúna því sjónarmiði. Lögin voru að vissu leyti umdeild, ég get alveg tekið undir það, og það var farið vel yfir þau sjónarmið hvernig þetta ætti að lenda allt saman, en það var ekki vegna þess að menn væru að óskapast yfir einhverri ægilegri hervæðingu. En í atkvæðaskýringu hæstv. heilbrigðisráðherra segir, með leyfi forseta:

„Að frumvarpi þessu samþykktu er Ísland endanlega fastreyrt sem hlekkur í hernaðarkeðju NATO án þess að um það hafi farið fram lýðræðisleg umræða …“

Ég ætla ekki að halda áfram með þetta en þetta sýnir mismunandi sjónarmið þarna og jafnframt sýnir þetta að loksins tókst Vinstri grænum að hafa Samfylkinguna í einhverju máli. Þess vegna hefur verið lögð slík ógnaráhersla á að klára þetta mál núna þrátt fyrir að gildistakan eigi ekki að verða fyrr en um áramót, þrátt fyrir að pólitískt samráð sé boðað með haustinu og væri eðlilegt að það væri um það sem máli skiptir í þessu, og þrátt fyrir að það sé engin skynsemi í því að gera þetta með þessum hætti. Það sjá það allir og það kom fram í andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að það er engin sannfæring í þessu.

Að lokum, frú forseti, þó að ég ætli ekki að lengja þessa umræðu vil ég þó vekja athygli á bókun sem bæjarráð Reykjanesbæjar sendi frá sér þann 9. júní sl. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur eðlilega áhyggjur af því að með þessari breytingu muni störf tapast suður með sjó. Það kemur ekki til af góðu vegna þess að við erum nýverið búin að horfa á sameiningu Keflavíkurflugvallar, Flug-Kef ohf. — ég ætla ekki einu sinni að reyna kl. 3 að nóttu að muna allar þessar skammstafanir, ég veit að þetta heitir Isavia núna, ég læt það duga — en um leið og þessar stofnanir voru sameinaðar fluttust forstjórinn og fleiri frá svæðinu til Reykjavíkur. Það er þetta sem bæjarráð Reykjanesbæjar hefur eðlilega áhyggjur af, byggt á reynslu. Ég ætla ekki að fara að lesa þessa bókun en vil ítreka þetta sjónarmið og hvetja hv. stjórnarliða til að fara vel yfir þetta mál og skoða það af einhverri skynsemi vegna þess að skynsemi hefur ekki verið beitt í málinu hingað til.