138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða .

424. mál
[03:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga og raunar 2. gr. frumvarpsins er tilraun til að ná utan um raunverulegt og alvarlegt vandamál sem eðlilegt er að löggjafinn láti sig varða þegar sú hætta kann að skapast að umtalsverður hluti aflaheimilda verði fluttur úr byggðarlagi vegna fjárhagserfiðleika útgerða. Þetta mál hefur verið unnið mjög vel af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar en hins vegar er það skoðun okkar í minni hluta nefndarinnar að sú niðurstaða sem meiri hlutinn hefur komist að og sammælst um sé hæpin og kunni að hafa í för með sér annars konar vandamál. Við lögðum til að þess í stað yrði málið geymt fram á haustið og þess freistað að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, fjármálastofnunum, Byggðastofnun og sveitarfélögum og getum því ekki stutt málið.