138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:29]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna til að fagna þessu frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hv. félags- og tryggingamálanefnd lagði mikla vinnu á sig við að gera þetta frumvarp sem best úr garði. Ég kom þar aðeins að undir lokin ásamt fleiri fulltrúum úr þingflokki Vinstri grænna. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að þetta úrræði geti á engan hátt glímt við þann stóra vanda sem við er að etja. Fram til þessa hafa tæplega þúsund manns farið í gegnum greiðsluaðlögun einstaklinga. Þetta frumvarp mun þó einfalda úrræði mjög mikið en við megum ekki gleyma því að það eru 22.000 á vanskilaskrá nú þegar.

Ég vildi því spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort hann sé þeirrar skoðunar að þetta úrræði geti tekið við þeim mikla fjölda sem þarf á einhvers konar úrræði að halda. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að úrræðið nái í mesta lagi til um 2.000 manns. Ef hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er þeirrar skoðunar að það þurfi fleiri úrræði vil ég gjarnan fá að heyra hvað hann leggur til til þess að mæta þeirri miklu þörf sem er fyrir aðstoð.