138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[05:00]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir nú er byggt á a–f liðum 9. gr. frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra til breytinga á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Í því frumvarpi var lagt til að við lögin bættist nýr kafli um tímabundin úrræði einstaklinga er greiða fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum til heimilisnota með sex nýjum greinum. Þar sem það úrræði hefur nokkra sérstöðu, er tímabundið og annars eðlis en greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, taldi nefndin rétt að flytja um það sérstakt frumvarp. Úrræðið er í frumvarpinu nefnt eignaráðstöfun og er fyrst og fremst ætlað að vera söluúrræði til að gera einstaklingum sem keypt höfðu fasteign til heimilisnota en ekki selt fyrri eign þegar efnahagshrunið varð, kleift að losa sig við aðra eignina með því að ráðstafa henni til veðhafa á ætluðu markaðsvirði fasteignarinnar. Telst slík ráðstöfun fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara til þeirra veðhafa sem eigninni er ráðstafað til.

Meginskilyrði þess að eignaráðstöfun af þessu tagi verði veitt er að báðar fasteignirnar hafi verið nýttar eða ætlaðar til nýtingar sem heimili og að sömu aðilar hafi haft óslitið eignarhald þeirra síðan hrunið varð. Þá er það gert að skilyrði að samanlögð uppreiknuð veðstaða beggja fasteignanna verði að nema 75% af samanlögðu markaðsvirði þeirra til þess að umsókn sé tekin gild. Miðað er við 75% enda á úrræðið að nýtast þeim sem sannanlega eru í vandræðum með að greiða af tveimur fasteignum og gæta þarf að því að það leiði hvorki til óréttmætrar auðgunar skuldara né verði of íþyngjandi í garð kröfuhafa, sé litið til úrræða um greiðsluaðlögun skulda.

Þau eru býsna mörg heimilin í þeirri stöðu að vera með tvær eignir þar sem fólk hafði keypt sér nýja eign fyrir hrun en hefur ekki gefist færi á að selja þá eign sem það ætlaði að fara úr og það þarf að höggva á þann hnút. Samkvæmt mati félags- og tryggingamálaráðuneytis eru á bilinu 1.000–1.500 heimili í þessari stöðu. Sú leið sem hér er lagt upp með, og það eru ítarlegar lýsingar í frumvarpinu á því hvernig það gerist nákvæmlega, er í reynd sú að veðhafar taki yfir aðra eignina. Sé hún ekki veðsett að fullu er gert ráð fyrir að veðréttindin færist frá þeirri eign sem haldið er eftir.

Þau veðréttindin sem flytjast við eignaráðstöfun á fasteignina, sem er ráðstafað og afsalað til veðhafa, lenda í samræmi við rétthæð veðkrafna aftan við þau réttindi sem fyrir voru í veðröð. Ef samanlögð fjárhæð veðkrafna á þeirri eign sem ráðstafa skal til veðhafa er lægri en 100% af verðmæti hennar skal umsjónarmaður leita samninga við kröfuhafa beggja fasteigna og skuldarann um sanngjarna lausn á því hvernig farið skuli með eignarhlut skuldarans í þeirri fasteign sem ráðstafa skal til veðhafa.

Þetta frumvarp hefur ekki verið lesið yfir af réttarfarsnefnd og hefur ekki verið óskað álits frá réttarfarsnefnd. En það væri mjög nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti á að meðhöndla þá stöðu sem upp kann að koma þegar flutt er veð af eign sem er ekki að fullu veðsett yfir á aðra eign sem ráðstafa skal og ekki að fullu veðsett. Þá er hætta á að veðhafi á tiltölulega tryggum veðrétti sé að flytjast yfir á veðrétt á bilinu 80–100%. Þetta þarf sem sagt að skoða til þess að leysa vanda allra sem eru í þessari stöðu og uppfylla þessi skilyrði en þegar við ætluðum að afgreiða þetta mál sem lög fyrir þinglok ákváðum við samt sem áður að gera þetta með þessum hætti þar sem við töldum að þarna væri um fá tilvik að ræða og að hægt væri að nýta sumarið í að leysa úr því.

Úrræðið nær til þeirra sem keyptu fasteignir á tímabilinu 1. janúar 2007 til 1. nóvember 2008 enda er markmið frumvarpsins að aðstoða einstaklinga sem greiða fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum vegna þess að þeir hafi fyrir efnahagshrunið keypt fasteign en ekki getað losað sig við þá eldri. Miðað er við 1. nóvember 2008 þar sem bindandi kauptilboð getur hafa komið fyrir efnahagshrunið í október þó að kaupin hafi ekki gengið í gegn fyrr en einhverju síðar. Þar sem einungis er um tímabundið úrræði að ræða til að mæta erfiðleikum ákveðins hóps er lagt til að lögin falli úr gildi í árslok 2011. Þeim einstaklingum sem falla undir skilyrði laganna er því gefið rúmt ár til að sækja um eignaráðstöfun.