138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[05:06]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara.

Við umfjöllun félags- og tryggingamálanefnd um málið fékk nefndin á sinn fund fjölmarga gesti og umsagnir eins og sjá má í nefndaráliti.

Með frumvarpinu um umboðsmann skuldara er lagt til að komið verði á fót nýrri stofnun, umboðsmanni skuldara, sem byggð verði á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og er ætlað viðamikið hlutverk við framkvæmd greiðsluaðlögunar. Nefndin telur það mikið framfaraskref að komið verði á fót stofnun sem verði falið að gæta hagsmuna og réttinda skuldara. Þó að langstærsta verkefni stofnunarinnar verði að veita einstaklingum í skuldavanda ráðgjöf um hvaða leiðir þeim séu færar og úrræði standi þeim til boða og aðstoða þá við að nýta sér þau, er stofnuninni jafnframt ætlað að veita fræðslu um fjármál heimilanna.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á hlutverki stofnunarinnar sem gerð er nánari grein fyrir í nefndaráliti en þó er vert að tiltaka þá breytingu að umboðsmanni skuldara er falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að þegar unnið er að greiðsluaðlögun einstaklinga séu notuð samræmd og raunhæf viðmið um framfærslu og hefur nefndinni verið kynnt að vinna við að setja upp slík viðmið sé þegar hafin. Leggur nefndin áherslu á að þeirri vinnu verði hraðað svo viðmiðin verði tilbúin þegar kemur að gildistöku laganna þann 1. ágúst nk. Ítarlega var rætt í nefndinni hvort það hlutverk umboðsmanns skuldara að gæta hagsmuna skuldara gæti skarast við að vera einnig úrskurðaraðili og sáttasemjari í máli hans við lánardrottna samkvæmt frumvarpi um greiðsluaðlögun einstaklinga. Nefndin áréttar að þó svo að slík hlutverk virðist ósamræmanleg sé mikill aðstöðumunur á lánardrottnum og skuldara og mikilvægt að koma skuldurum til aðstoðar. Verið er að leita lausnar á skuldavanda sem bæði lánardrottnar og skuldari hafa hag af að leysa.

Nefndin ræddi einnig nokkuð nafn hinnar nýju stofnunar og telur mikilvægt að hún sé aðgengileg fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru í skuldavanda eða þurfa á fjárhagsráðgjöf að halda. Nefndin telur að nafngiftin endurspegli það hlutverk stofnunarinnar að hafa hagsmuni skuldara og réttindi þeirra að leiðarljósi. Þá telur nefndin fullkomlega tímabært að koma á slíku embætti enda hefur réttarstaða skuldara á Íslandi ekki staðist samanburð við mörg nágrannaríki okkar.

Nefndin leggur til breytingar sem tryggja eiga að við vinnslu persónuupplýsinga og upplýsingaöflun sé farið eftir skilyrðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Að auki tiltekur nefndin hvernig fara eigi með þau gögn sem eru til staðar hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, líkt og sjá má í nefndaráliti. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á fjármögnun umboðsmanns skuldara. Í frumvarpinu er kveðið á um að lánastofnanir skuldi standa straum af kostnaði við reksturinn en nefndin leggur til að Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir taki þátt í fjármögnuninni, enda veiti þeir einnig lán til einstaklinga. Þá eru m.a. lagðar til breytingar á því ferli sem viðhaft verður við ákvörðun gjalds og málsmeðferðarreglum um það.

Gildistaka laganna hlaut nokkra umræðu í nefndinni enda þarf að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu áður en hin nýja stofnun getur tekið til starfa. Nefndin telur mikilvægt að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er en telur þó ekki raunhæft að það náist fyrr en 1. ágúst nk. Nefndin leggur þó til að félags- og tryggingamálaráðherra skipi þegar við samþykkt laganna starfshóp sem undirbúi starfsemi stofnunarinnar og bjóði starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna störf hjá hinni nýju stofnun eftir 1. ágúst nk. Þar sem viðbúið er að starfsemi stofnunarinnar fari hratt af stað, verkefnafjöldi og álag verði mikið er að auki lagt til að starfshópurinn starfi áfram fyrsta starfsár stofnunarinnar og verði umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um hennar.

Nefndin leggur að auki til breytingu á ákvæði til bráðabirgða I sem snýr að ráðningu starfsfólks. Eðlilegt er að starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna séu boðin störf hjá hinni nýju stofnun. Þó er felld brott úr ákvæðinu sú regla að starfsmenn annarra ríkisstofnana sem kunna að verða lagðar niður skuli njóta forgangs til starfa hjá umboðsmanni skuldara enda meginregla 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að auglýsa skuli opinberlega öll laus störf í þjónustu ríkisins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í þingskjali 1366.

Undir nefndarálit þetta skrifa Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður, Pétur H. Blöndal, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Ögmundur Jónasson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður.