138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fundarstjórn forseta af mjög brýnu tilefni. Það er einfaldlega þannig að það er ekkert lag á fundarstjórn forseta vegna þess að verið er að halda áfram þessum fundi út í hið óendanlega. Við höfum á þessari stundu hvorki hugmynd um hvenær þingfundi muni ljúka né heldur hvenær hinum næsta muni ljúka sem ætlunin er að setja þegar að loknum þessum fundi.

Hér hefur, af mikilli vinsemd og hógværð, verið farið fram á það að fundinum verði núna lokið og tekið verði til við þessi mál á morgun. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að við fundum lengur fram eftir degi á morgun en áætlað var? Er einhver tala heilög í þeim efnum? Er eitthvað sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að koma því við að halda þingfundi eftir hádegi á morgun? Eru einhverjar skuldbindingar sem eru þess valdandi að þinginu er haldið áfram fram á nótt og fram undir morgun til að koma í veg fyrir það að fundur í þinginu verði haldinn eftir hádegi á morgun?

Virðulegi forseti. Þetta verður auðvitað að fást upplýst. Það verða að fást svör við því hvers vegna ekki er hægt að verða við svo eðlilegri og sanngjarni og hógværri beiðni um að fundinum verði slitið (Forseti hringir.) núna og honum fram haldið á morgun og þá fram eftir morgundeginum eins og þurfa þykir.